Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu

Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)

Tugir milljarða í hagsmunagæslu olíurisa

Frá árinu 2010 hafa fimm af stærstu olíufyrirtækjum heims, þ.e.a.s. BP, Shell, Chevron, ExxonMobil og Total, varið samtals 251 milljón evra (um 35 milljörðum ísl. kr.) í hagsmunagæslu til að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir innan Evrópusambandsins. Þessu til viðbótar hafa samtök á vegum fyrirtækjanna notað 128 milljónir evra (um 18 milljarða ísl. kr.) í sama tilgangi. Þá hafa fulltrúar fyrirtækjanna haldið 327 fundi með embættismönnum sambandsins frá því á árinu 2014. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu Corporate Europe Observatory og fleiri aðila. Þar er reyndar bent á að þetta sé bara toppurinn á ískjakanum, því að tölur hafi ekki fengist frá öllum fyrirtækjunum öll árin og auk þess séu útgjöld sem tengjast þjóðþingum og stofnunum einstakra landa ekki meðtalin. Að mati skýrsluhöfunda hefur þessum fyrirtækjum tekist að seinka, veikja og spilla fyrir aðgerðum Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Kominn sé tími til að byggja eldvegg á milli fyrirtækjanna og stjórnvalda.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Bandaríkin tapa mest á loftslagsbreytingum

Vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu hafa fyrstir manna skipt áætluðum kostnaði samfélagsins vegna loftslagsbreytinga („social cost of carbon“ (SCC)) niður á einstök þjóðlönd. Niðurstaðan er sú að kostnaður Bandaríkjanna verði mestur, eða um 250 milljarðar dollara á ári (um 28.000 milljarðar ísl. kr.). Kostnaður á hvert tonn sem losað er í Bandaríkjunum verður um 50 dollarar, sem er hærra en miðað hefur verið við í flestum greiningum hingað til (12-62 dollarar á tonn). Kostnaður á hvert tonn á heimsvísu verður þó miklu hærri samkvæmt útreikningum vísindamannanna eða 180-800 dollarar. Indland og Sádí-Arabía eru næst Bandaríkjanum hvað varðar heildarkostnað, en Evrópusambandið sleppur mun betur. Vísindamennirnir draga þá ályktun af niðurstöðum sínum að stjórnvöld í ríkjum heims hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og að þær þjóðir sem munu bera stærstan hluta kostnaðarins hljóti að verða að sýna meira frumkvæði en þær hafa gert.
(Sjá frétt Science Daily 24. september).

Oft góð eftir „Best fyrir“

Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)

Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða

Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Frítt í strætó í Þýskalandi?

Þýsk stjórnvöld íhuga að taka upp gjaldfrjálsar almenningssamgöngur að því er fram kemur í bréfi sem Barbara Hendricks, umhverfisráðherra Þýskalands, og tveir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn landsins sendu til Karmenu Vella, umhverfisstjóra ESB, í síðustu viku. Til að byrja með er ætlunin að prófa þetta fyrirkomulag í fimm borgum í Þýskalandi. Þessi áform eru hluti af úrbótaáætlun sem þýsk stjórnvöld leggja fram að kröfu ESB, en Þýskaland var eitt af níu ríkjum sambandsins sem ekki tókst að draga nægjanlega úr mengun af völdum köfnunarefnissambanda og svifryks áður en frestur til þess rann út 30. janúar sl. Talið er að loftmengun í borgum Evrópu verði 400.000 manns að aldurtila á hverju ári og kosti heilbrigðiskerfi sambandslandanna árlega um 20 milljarða evra (um 2.500 milljarða ísl. kr.).
(Sjá frétt The Guardian 14. febrúar).

Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum

Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).

Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa

Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).

HICC bannað vegna ofnæmishættu

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að ilmefnið HICC (hýdroxýísóhexýl 3-sýklóhexen karboxaldehýð) verði bannað í hvers konar snyrtivörum, þar sem efnið getur valdið ofnæmi og þar af leiðandi skaðað heilsu manna. Framleiðendur fá hins vegar tveggja ára aðlögunartíma og seljendur fá tvö ár til viðbótar til að hætta sölu á vörum sem innihalda efnið. Bannið tekur því í reynd ekki gildi fyrr en eftir 4 ár. Samkvæmt gagnagrunni dönsku neytendasamtakanna (Tænk) finnst HICC í rúmlega 500 snyrtivörutegundum, svo sem í sturtusápu, eftirsólaráburði og svitalyktareyði.
(Sjá frétt Tænk Kemi 3. október).

Gjaldtaka af plastpokum stórminnkar notkun

Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).