Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Greinasafn fyrir merki: kolefnisspor
Sérstök merking matvæla með lítið kolefnisspor
Sænski matvælaframleiðandinn Felix hefur tekið upp nýtt merki til að einkenna þær matvörur frá fyrirtækinu sem hafa minnst kolefnisspor. Nýja merkið, ”Lågt klimatavtryck” byggist á útreikningum sem styðjast við gagnagrunn rannsóknastofnunarinnar RISE. Tilgangurinn með merkingunni er að auðvelda fólki að velja matvörur sem samræmast 1,5° markmiði Sameinuðu þjóðanna. Fyrst um sinn verður merkingin notuð á tilbúna frysta rétti og frosnar kartöflur. Á heimasíðu fyrirtækisins (Felix.se) má nú finna upplýsingar um kolefnisspor vörutegunda sem þar eru framleiddar, rétt eins og upplýsingar um næringarefnainnihald og ofnæmisvalda.
(Sjá frétt Livsmedelsnyheter 17. september).
Úrgangi breytt í verðmætt grafen
Vísindamenn við Rice háskólann hafa fundið leið til að breyta hvaða kolefnisríka úrgangi sem er í grafen með eldsnöggri hitun í hvarftanki upp í rúmlega 2.700°C. Afurðin kallast „blossagrafen“ (e. flash graphene) og hefur m.a. þann kost að auðvelt er að aðskilja grafenlögin og fá þannig grafennet sem er aðeins ein sameind á þykkt. Efnið er firnasterkt og getur m.a. nýst sem styrktarefni í steinsteypu. Að sögn vísindamannanna þarf ekki nema 0,1% af grafeni í steypuna til að minnka kolefnisspor hennar um þriðjung, þar sem með þessu minnkar verulega þörfin fyrir framleiðslu og flutning á sementi. Sementframleiðsla orsakar nú um 8% af allri koldíoxíðlosun af mannavöldum í heiminum. Blossagrafenið er mun ódýrara en það grafen sem nú þekkist. Orkutap frá framleiðslunni er óverulegt þar sem varmaorkan binst nær öll í efninu. Önnur efni en kolefni losna frá hvarftankinum í loftkenndu formi og þau efni, þ.m.t. súefni og köfnunarefni, má auðveldlega fanga og jafnvel nýta.
(Sjá frétt ScienceDaily 27. janúar).
Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu
Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)