Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: ofnæmi
HICC bannað vegna ofnæmishættu
Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að ilmefnið HICC (hýdroxýísóhexýl 3-sýklóhexen karboxaldehýð) verði bannað í hvers konar snyrtivörum, þar sem efnið getur valdið ofnæmi og þar af leiðandi skaðað heilsu manna. Framleiðendur fá hins vegar tveggja ára aðlögunartíma og seljendur fá tvö ár til viðbótar til að hætta sölu á vörum sem innihalda efnið. Bannið tekur því í reynd ekki gildi fyrr en eftir 4 ár. Samkvæmt gagnagrunni dönsku neytendasamtakanna (Tænk) finnst HICC í rúmlega 500 snyrtivörutegundum, svo sem í sturtusápu, eftirsólaráburði og svitalyktareyði.
(Sjá frétt Tænk Kemi 3. október).
Svansmerkt smínk loks fáanlegt
Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).
Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum
Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).
Ofnæmisvaldar algengir í hreingerningarefnum
Flest hreingerningarefni innihalda ofnæmisvaldandi ilmefni eða rotvarnarefni samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtaka Danmerkur (Tænk). Skoðaðar voru upplýsingar um innihald 25 vörutegunda og reyndust aðeins 6 þeirra (allar Svansmerktar) lausar við efni af þessu tagi. Rotvarnarefnið MI (metýlísóþíasólínón) fannst í 5 vörutegundum en á hverju ári eru rúmlega 1.000 Danir greindir með ofnæmi fyrir efninu. Tænk ráðleggur fólki að kaupa hreinsiefni sem fengið hafa vottun Norræna svansins eða Umhverfismerkis Evrópusambandsins og eru jafnframt merkt með Bláa kransinum, sem felur í sér viðurkenningu dönsku astma- og ofæmissamtakanna.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).
Tíðatappar yfirleitt lausir við hættuleg efni
Tíðatappar sem fást í dönskum verslunum eru flestir lausir við hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk. Hins vegar kann annað að gilda um tappa sem keyptir eru á netinu. Í úttekt Tænk voru 11 tegundir tíðatappa efnagreindar í leit að ilmefnum, glýfosati, lausum trefjum, klórleifum, formaldehýði og nónýlfenólefnum. Aðeins ein tegund (TAMPAX C Active Fresh) féll á prófinu, þar sem hún innihélt ilmefni og slík efni geta valdið ofnæmi. Í annari tegund fundust leifar af plöntueitrinu glýfosati, en magnið var svo lítið að það var ekki talið geta verið skaðlegt. Hinar tegundirnar níu voru lausar við umrædd efni. Tænk bendir á að Svansmerktir tíðatappar séu góður valkostur, en úrvalið af þeim er enn mjög takmarkað.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).
Varasöm efni í flestum andlitskremum
Engin af 20 tegundum vinsælla andlitskrema í dýrari kantinum sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum reyndist laus við varasöm efni. Umrædd efni eru ekki á bannlista og ekki talin skaðleg í litlu magni, en geta engu að síður verið varasöm vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum, þ.e. svonefndra kokteiláhrifa. Sex tegundir af 20 fengu rauða spjaldið hjá Tænk, þar sem þau innhéldu parabena eða önnur efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Hin fjórtán fengu gula spjaldið vegna þess að þau innihéldu ýmist umhverfisskaðleg efni eða ilmefni sem geta aukið hættuna á ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).
Varasöm efni í varasalva
Tuttuguogfimm af 89 tegundum varasalva sem dönsku neytendasamtökin Tænk prófuðu nýlega fengu falleinkunn vegna innihaldsefna sem eru ofnæmisvaldar eða eru talin geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Aðeins 17 tegundir voru laus við varasöm efni og fengu þar af leiðandi ágætiseinkunn á prófinu. Tænk bendir á að varasalvi sem inniheldur hormónaraskandi efni sé ekki endilega skaðlegur heilsunni einn og sér en efni úr varasalva geti auðveldlega borist inn í líkamann og bæst þar við efnakokteil af öðrum uppruna. Samtökin mæla með því að fók noti Svansmerktan varasalva. Slíkur varasalvi er laus við hormónaraskandi efni, þó að hann kunni að innihalda einhver ilmefni sem stuðlað geta að ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 25. október).
Fjórði hver svitalyktareyðir fær falleinkunn
Af 115 tegundum svitavarnar og svitalyktareyðis sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku fyrir í úttekt sinni á dögunum fengu 33 falleinkun vegna ofnæmisvalda og efna sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Fimmta hvert efni fékk hins vegar ágætiseinkunn. Bakteríudrepandi efnið tríklósan var til staðar í 7 vörutegundum en efnið er talið vera hormónaraskandi auk þess sem það safnast fyrir í náttúrunni. Þá fundust ýmis ilmefni sem geta valdið ofnæmi, þ.á.m. efnið bútýlfenýlmetýlpróíónal, sem auk ofnæmisáhrifa er talið geta stuðlað að skertri frjósemi. Þetta efni fannst í 25 tegundum. Framleiðendur hafa gagnrýnt úttekt Tænk og bent á að styrkur efnanna hafi ekki verið skoðaður heldur eingöngu athugað hvort efnin væru til staðar. Efnanotkun lúti ströngum reglum og því sé ekki ástæða til að óttast. Forsvarsmenn Tænk benda hins vegar á að samverkandi áhrif efna (kokteiláhrif) séu vanmetin í gildandi reglum. Auk þess eigi ilmefni ekkert erindi í vörur af þessu tagi þar sem þau hafi ekkert með virkni vörunnar að gera.
(Lesið frétt á heimasíðu Tænk 6. október).
Ofnæmisvaldandi efni algeng í handsápum
Þekktir ofnæmisvaldar eða hormónaraskandi efni fundust í þriðju hverri handsáputegund sem dönsku neytendasamtökin Tænk skoðuðu nýlega. Farið var yfir innihaldslýsingar í 76 mismunandi tegundum af handsápu og reyndust 25 þeirra innihalda efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Nokkrar tegundir innihéldu m.a. bakteríudrepandi efnið tríklósan sem er talið geta truflað hormónastarfsemi líkamans auk þess sem það stuðlar að vexti lyfjaónæmra baktería. Tríklósan getur safnast upp í fæðukeðjunni og er skaðlegt vatnalífverum. Nítján tegundir innihéldu rotvarnarefnin MCI og MI (metýlklóróísóthiazólínon og metýlísóthiazólínon) sem eru ein algengasta orsök ofnæmis af völdum rotvarnarefna. Leyfilegur hámarksstyrkur þessara efna var 25-faldaður árið 2005 og síðan hefur ofnæmistilfellum vegna þeirra fjölgað gríðarlega. Um 1.000 tilfelli greinast nú í Danmörku árlega.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 21. ágúst).