Suður-Ástralía keyrð á 100% sólarorku í fyrsta sinn

Síðastliðinn sunnudag var öll raforka sem notuð var í Suður-Ástralíu framleidd með sólarorku og hægt var að selja umframorku til Viktoríufylkis. Suður-Ástralía hefur verið leiðandi í nýtingu sólarorku, en þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan dugar til að sjá öllu fylkinu fyrir orku í heilan dag. Suður-Ástralía hefur einnig verið leiðandi í þróun rafgeyma sem taka við orku þegar framboð er meira en eftirspurn og gefa hana frá sér aftur þegar dæmið snýst við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar

Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).

Svartur kísill gæti lækkað verð á sólarskjöldum um 10%

Joshua Pearce, prófessor við Tækniháskólann í Michigan, hefur fundið leið til nota þurrætingu við framleiðslu á svörtum kísil í sólarsellur, sem skilar sér í 10% lækkun framleiðslukostnaðar á hverja orkueiningu. Þessi svarti kísill er reyndar nær fjórðungi dýrari í framleiðslu en hefðbundnari blár kísill, en hann nær að fanga sólarorkuna mun betur og auka þannig hagkvæmnina. Framleiðsla á sólarorku er þú þegar á pari við aðra endurnýjanlega orku hvað hagkvæmni varðar og 10% lækkun framleiðslukostnaður myndi bæta stöðu greinarinnar enn frekar. Joshua Pearce telur með öllu útilokað að kolaorkuver geti keppt við sólarorkuver í náinni framtíð.
(Sjá frétt Science Daily 4. september).

Hvaðan sem vindurinn blæs!

Tveir MSc-stúdentar við Háskólann í Lancaster hafa þróað nýja gerð af vindmyllu sem getur nýtt vind úr hvaða átt sem er, lóðréttri sem láréttri. Þetta getur opnað möguleika á að nýta vindstrengi í borgum, t.d. við háhýsi, til raforkuframleiðslu. Um leið verður það fýsilegra en áður að framleiða raforku í smáum stíl, annað hvort til eigin nota eða til sölu inn á raforkunetið, t.d. með því að koma vindmyllum fyrir utan á byggingum þar sem uppstreymi eða niðurstreymi er mikið. Nýja vindmyllan, sem kallast „The O-Wind Turbine“ fékk nýlega bresku James Dyson nýsköpunarverðlaunin og í nóvember mun koma í ljós hvernig hugmyndinni reiðir af þegar alþjóðlegu James Dyson verðlaunin verða afhent. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 5 ár muni líða þar til O-myllan verður komin á markað.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum

Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).

78% aukning í grænum skuldabréfum

Heildarverðmæti grænna skuldabréfa á markaði var samtals 155,5 milljarðar Bandaríkjadala í árslok 2017 (um 16.135 milljarðar ísl. kr.), eða um 78% hærra en það var ári fyrr, að því er fram kemur í nýrri greiningu Climate Bonds Initiative. Fjárfestingar í endurnýjanlegri orku voru sem fyrr algengasti tilgangur skuldabréfaútgáfunnar (um 33%), en vægi verkefna í byggingariðnaði og bættri orkunýtni fer mjög vaxandi. Sama má segja um ýmis verkefni í tengslum við kolefnisgrannar samgöngur. Gert er ráð fyrir að í árslok 2018 verði heildarverðmæti grænna skuldabréfa komið í 250-300 milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar a.m.k. 60% aukningu milli ára.
(Sjá frétt Investorideas.com 10. janúar).

Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann

Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).

Öll raforka á Kosta Ríka endurnýjanleg í 300 daga á þessu ári

Það sem af er þessu ári hefur Kosta Ríka notað eingöngu endurnýjanlega raforku í samtals 300 daga. Þetta er nýtt met þar í landi, en árið 2015 náðust samtals 299 dagar. Nú koma um 99,6% af raforku landsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 78,3% frá vatnsorku, 10,3% frá vindorku, 10,2% frá jarðvarma og 0,8% frá sólarorku og lífmassa. Almennt er litið á Kosta Ríka sem fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum. Þarlend stjórnvöld hafa látið til sín taka á fleiri sviðum en í orkugeiranum og m.a. tekið ákvörðun um að banna allt einnota plast fyrir árið 2021.
(Sjá frétt EcoWatch 21. nóvember).

Endurnýjanlegt þotueldsneyti í þróun

Vísindamenn við Háskólann í Delaware eru komnir áleiðis í viðleitni sinni til að framleiða samkeppnishæft þotueldsneyti úr lífmassa, nánar tiltekið úr beðmi og tréni úr viðarkurli og maískólfum. Einn helsti vandinn við nýtingu þessa hráefnis er sá hversu kolefniskeðjurnar eru orðnar stuttar og hlaðnar súrefnisfrumeindum þegar búið er að breyta lífmassanum úr föstu efni í fljótandi. Til að búa til nothæft þotueldsneyti, sem m.a. þarf að halda eiginleikum sínum í miklu frosti, þurfa einkum tvenns konar efnaferli að eiga sér stað. Þar er annars vegar átt við afoxun sameindanna og hins vegar samtengingu þeirra. Nýjungin í aðferðum vísindamannanna í Delaware felst einkum í nýjum efnahvötum, svokölluðum „efnageitum“, sem m.a. eru framleiddar úr einföldu grafeni. „Geiturnar“ gera það mögulegt að keyra nauðsynleg efnahvörf við mun lægri þrýstingi og lægra hitastig en áður (um 60°C í stað 350°C), auk þess að skila mjög góðri nýtingu hráefnisins. Efnahvörfin taka auk heldur skemmri tíma en fyrri aðferðir og efnahvatarnir eru endurvinnanlegir.
(Sjá umfjöllun Science Daily 30. október).

Netflix í slæmum félagsskap

clickclean160Netflix og Amazon eru í hópi þeirra þjónustuaðila á netinu sem nota hlutfallslega mest af kolum og öðru jarðefnaeldsneyti til að knýja starfsemi sína, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace um orkunotkun internetfyrirtækja (Clicking Clean). Apple, Google og Facebook eru hins vegar í hópi þeirra netfyrirtækja sem komin er lengst í að nota eingöngu endurnýjanlega orku. Upplýsingatæknigeirinn notaði um 7% of allri raforku sem framleidd var í heiminum árið 2012 og er búist við að þessi tala fari jafnvel yfir 12% á árinu 2017. Streymi myndefnis vegur þyngst í þessum efnum. Hlutur þess í netumferð var 63% árið 2015 og samkvæmt spám verður hann kominn í 80% árið 2020. Netfyrirtækin, og þá ekki síst þau sem dreifa myndefni, hafa því mikil áhrif á það hvernig orkumarkaður heimsins og þar með losun gróðurhúsalofttegunda mun þróast næstu ár.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 10. janúar).