Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).