Þang til að minnka metanlosun frá mjólkurkúm

Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).

Landbætur hægja á hlýnun

Hægt er að hægja á hlýnun loftslags af mannavöldum með einföldum og vel þekktum aðferðum til að auka gæði jarðvegs á landi sem nýtt er til landbúnaðar. Þetta kemur fram í nýrri amerískri rannsókn sem sagt er frá í netútgáfu Science Advances. Með sáningu þekjuplantna, aukinni ræktun belgjurta, beitarstýringu, minni plægingum o.fl. mætti þannig sporna gegn hlýnun sem samsvarar um 0,1°C fram til ársins 2100. Þessi tala virðist e.t.v. ekki há en skiptir þó verulegu máli í heildarsamhenginu. Allar þessar aðferðir eru til þess fallnar að hækka kolefnisinnihald jarðvegsins og um leið verður jarðvegurinn vatnsheldnari, síður viðkvæmur fyrir rofi og frjósamari, sem þýðir að uppskera eykst.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Berkely 29. ágúst).

Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun

Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).

Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða

Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

15% stækkun lífræns landbúnaðarlands milli ára

Í árslok 2016 voru 57,8 milljónir hektara landbúnaðarlands í heiminum komnar með vottun til lífrænnar framleiðslu, en þetta samsvarar 15% aukningu milli ára. Á sama tíma fjölgaði bændum í lífrænni framleiðslu úr tæplega 2,4 milljónum í 2,7 milljónir, eða um 12,8%. Lífrænn landbúnaður var stundaður í 178 löndum á þessum tíma og heildarsala lífrænna landbúnaðarafurða á heimsvísu árið 2016 nam 89,7 milljörðum Bandaríkjadala (rúmlega 9.000 milljörðum ísl. kr.). Á flestum stærri markaðssvæðum heimsins var veltuaukningin milli ára yfir 10% og í Frakklandi var hún 22%. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar matvöru var hæst í Danmörku, 9,7%. Í 15 löndum var hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun komið yfir 10%. Þessar tölur og margar fleiri koma fram í skýrslunni The World of Organic Agriculture sem kom út í tengslum við vörusýninguna BioFach sem haldin var í Nürnberg á dögunum.
(Sjá frétt á heimasíðu IFOAM 14. febrúar).

Fleiri greinar, meiri uppskera

Japanskir vísindamenn hafa hugsanlega fundið efni sem nýta mætti til að fjölga greinum plantna og auka þannig uppskeru. Vitað er að plöntugenið D14 á þátt í að takmarka fjölgun greina á plöntum á borð við eplatré. Við prófanir á áhrifum 800 mismunandi sameinda á virkni gensins kom í ljós að 18 þeirra bældu virknina um 70% eða meira. Sameindin DL1 skar sig úr hvað þetta varðar og virtist valda talsvert aukinni greinamyndun bæði hjá tilteknum blómplöntum og hrísgrjónum. Efnið kann því að nýtast til að auka uppskeru. Hafnar eru rannsóknir á því hversu lengi efnið endist í jarðvegi og hvort það hafi eituráhrif á fólk.
(Sjá frétt Science Daily 7. febrúar).

Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar

Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).

Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Meira örplast á ökrum en í hafinu

Seyra sem dreift er á akra og tún í Evrópu og Norður-Ameríku inniheldur gríðarmikið magn af plastögnum sem fráveitukerfi hafa ekki náð að hreinsa úr skólpi. Samkvæmt nýrri rannsókn Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU) og Norsku vatnsrannsóknastofnunarinnar (NIVA) er 110-730 þúsund tonnum af örplasti dreift með þessum hætti á ræktað land í þessum heimsálfum. Þetta er talið vera meira en það sem lendir í sjónum. Strangar reglur gilda um þungmálma og önnur hættuleg efni í seyru, en enn sem komið er gilda engin slík ákvæði um örplast.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur

Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).