Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum

Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).

Krákur þjálfaðar til að tína upp sígarettustubba

Hollenskt sprotafyrirtæki hefur þróað búnað og þjálfunarkerfi til að kenna krákum að tína upp sígarettustubba. Árlega henda jarðarbúar frá sér samtals um 4.500 milljörðum stubba og allir innihalda þeir eiturefni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu. Stubba er einkum að finna í þéttbýli og því hentar best að þjálfa dýr til verksins, sem eru vön borgarlífinu. Upphaflega átti að nota dúfur en þær þóttu ekki nógu námsfúsar. Ætlunin er að kenna krákunum að skila stubbunum í þar til gerðan krákubar þar sem sjálfvirkur búnaður skammtar mat eftir að hafa gengið úr skugga um að stubburinn sé raunverulega stubbur en ekki einhver annar úrgangur.
(Sjá frétt IFL Science 13. október).

Lasermerki í stað límmiða á ávexti og grænmeti

3072-160Sænska matvörukeðjan ICA setti nýverið í gang tilraun til að merkja staka ávexti og grænmeti í verslunum sínum með lasertækni í stað límmiða. Tæknin virkar þannig að lasergeisli eyðir litarefni í hýði ávaxtarins eða grænmetisins og þannig verður til varanleg merking án þess að það hafi önnur áhrif á vöruna. Hægt er að spara mikið af umbúðum með því að selja ávexti og grænmeti í lausu, en þá þarf að merkja hvern ávöxt um sig til að uppfylla kröfur, m.a. um rekjanleika lífrænnar vöru. Límmiðarnir sem þessi nýja tækni getur leyst af hólmi eru ekki stórir en með þessari aðferð sparast engu að síður mikið af plasti, lími og bleki þegar á heildina er litið. Að sögn talsmanns ICA sparast t.d. 200 km af 30 cm breiðri plastræmu á ári við það eitt að merkja öll lífrænt vottuð avókadó í verslunum keðjunnar á þennan hátt. Aðilar á matvörumarkaði í Hollandi og Bretlandi eru einnig að þreifa sig áfram með þessa notkun lasertækninnar, sem nefnd hefur verið „natural branding“.
(Sjá frétt The Guardian 16. janúar).

Sólarvegurinn gerir það gott

solarENNFyrsti sólarselluhjólastígur heimsins hefur skilað betri árangri en menn þorðu að vona, en þessa dagana er eitt ár liðið síðan þessi 70 m langi hjólastígur í útjaðri Amsterdam var opnaður fyrir umferð. Yfirborðslagið á stígnum er gert úr 3 mm þykkum glerhúðuðum sólarsellum sem framleiða rafmagn fyrir ljósastaura eða til annarra nota. Á fyrstu sex mánuðunum framleiddi stígurinn samtals rúmlega 3.000 kwst af raforku, eða sem samsvarar orkuþörf eins heimilis í u.þ.b. heilt ár.
(Sjá frétt ENN í dag).

Rusl verður að efnavöru

wastetochemicalsSamtök fyrirtækja um leiðir til að nýta heimilisúrgang til framleiðslu á efnavörum vilja auka samstarf efnafyrirtækja og vísindamanna með það að markmiði að finna leiðir til að nýta úrgang til efnavinnslu og styðja þannig við hringrásarhagkerfið. Verkefnið er upprunnið í Hollandi og þar hyggjast samtökin opna fyrstu úrgangsefnaverksmiðjuna á næstu árum. Verksmiðjan mun væntanlega framleiða vörur á borð við ammoníak og metanól úr úrgangi. Fyrirtækin sjá sér mikinn hag í að nýta úrgang til framleiðslu efnavöru þar sem úrgangur er ódýrt hráefni sem iðulega er til trafala í þéttbýlum löndum á borð við Holland.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Hollendingar vilja banna míkróplast

microplast_160Stjórnvöld í Hollandi, Austurríki, Lúxemborg, Belgíu og Svíþjóð hafa sent sameiginlega áskorun til umhverfisráðherra allra Evrópusambandslandanna um að þeir beiti sér fyrir banni gegn notkun míkróplasts í neytendavörur, enda sé slíkt bann forgangsatriði fyrir verndun lífríkis sjávar. Míkróplast brotnar ekki niður í náttúrunni og getur flutt með sér eiturefni upp fæðukeðjuna. Míkróplast er mikið notað í andlitsskrúbba, tannkrem, þvottaefni o.fl., þrátt fyrir að til séu náttúruleg efni sem gera sama gagn. Þetta plast á greiða leið til sjávar úr niðurföllum á heimilum, þar sem skólphreinsistöðvar ná ekki að sía það frá. Hollendingar óttast sérstaklega að plastið spilli kræklingastofnum, en ársframleiðsla þeirra á kræklingum nemur um 50.000-60.000 tonnum. Snyrtivöruframleiðandinn Unilever hefur lofað að hætta notkun míkróplasts í vörum sínar á þessu ári, en með banni væri tryggt að aðrir framleiðendur gerðu slíkt hið sama.
(Sjá fréttatilkynningu UNEP 16. janúar).

Lífeldsneyti framleitt úr sagi

sawdustHollenska stofnunin KU Leuven’s Centre for Surface Chemistry and Catalysis hefur þróað aðferð til að framleiða nýtanleg kolvetni úr beðmi úr sagi og öðrum viðarafgöngum, en þetta gerir mönnum kleift að nota slíka afganga til framleiðslu á fljótandi eldsneyti. Beðmi er samsett úr kolefniskeðjum með áföstum súrefnisfrumeindum, en með hinni nýju tækni er hægt að fjarlægja súrefnið og gera efnið þannig nýtanlegra. Afurðina má nota til að auka hlutfall lífeldsneytis í bensíni eða í framleiðslu á vörum sem venjulega eru gerðar úr olíu, svo sem plasti, gúmmíi, einangrunarfrauði, næloni o.s.frv. Beðmi nýtist yfirleitt ekki í aðra framleiðslu, þannig að lífeldsneytið telst vera þriðju kynslóðar eldsneyti sem keppir ekki við fæðuframleiðslu. Beðmiseldsneyti er því góður kostur svo lengi sem notast er við fljótandi kolefnaeldsneyti í samgöngum.
(Sjá frétt Waste Management World 26. nóvember).

Hjólað á sólarrafhlöðum

solarstigarÞann 12. nóvember verður fyrsti sólarrafhlöðuhjólastígur heimsins opnaður í úthverfi Amsterdam. Stígurinn er lagður sólarrafhlöðum sem geta framleitt rafmagn sem nægir þremur heimilum. Um er að ræða vinsælan hjólastíg sem um 2.000 manns nýta sér daglega. Til að byrja með verða lagðir 70 m af sólarstíg, en stígurinn verður síðan lengdur í 100 m árið 2016. Framkvæmdin kostar um 3 milljónir evra (um 460 millj. ísl. kr.) og er fjármögnuð af borgaryfirvöldum. Þar sem ekki er hægt að stilla sólarrafhlöðurnar í stígunum eftir stöðu sólar framleiða þær um 30% minna rafmagn en sólarrafhlöður á þökum. Enga að síður telja aðstandendur mikla möguleika leynast í tækninni þar sem byggt er við innviði sem nú þegar eru til staðar. TNO rannsóknarstofnunin, sem þróað hefur þessa tækni, skoðar nú möguleikana á að leggja sólarrafhlöður í vegi og nota raforkuna fyrir umferðarljós og rafbíla.
(Sjá frétt the Guardian 5. nóvember).

Saltvatn notað í kartöflurækt

salt-tolerant potatoesKartöflukvæmi sem þolir saltvatn hefur verið þróað í tilraunaverkefninu Salt Farm Texel í Hollandi, en markmið verkefnisins er að þróa matvæli sem hægt er að vökva með saltvatni. Um 89% af öllu vatni jarðar er saltvatn og er talið að nú séu um 50% af landbúnaðarsvæðum heimsins í hættu vegna innstreymis saltvatns í grunnvatn. Nokkur tonn af saltþolnum kartöflum voru nýlega send til Pakistan þar sem þau verða ræktuð á svæði sem ekki er hægt að nýta í annað vegna saltmengunar. Þar sem skortur á ferskvatni er eitt stærsta vandamál samtímans telja menn mikil tækifæri felast í ræktun þar sem hægt er nota saltvatn í stað þess að grípa til afsöltunar sem  hefur mikinn kostnað í för með sér. Með þessu móti er einnig hægt að nýta til ræktunar svæði sem áður voru ónýtanleg.
Sjá frétt the Guardian 18. október).

Vodafone gefur farsímum sjálfbærnieinkunn

vodafone_einkunnVodafone hefur nú tekið upp sjálfbærnieinkunn fyrir farsíma sem fyrirtækið selur. Með þessu vill fyrirtækið auðvelda viðskiptavinum að bera saman umhverfis- og samfélagsáhrif mismunandi símtækja. Farsímunum er gefin einkunn á bilinu 1-5 og er einkunnin sýnd utan á umbúðum nýrra síma. Við einkunnagjöfina er tekið tillit til hráefnisnotkunar, orkunotkunar, vatnsnotkunar, flutninga, eiginleika sem takmarka umhverfisáhrif við notkun og þess hversu einfalt er að endurvinna vöruna. Einkunnagjöfin var fyrst innleidd í Hollandi en er nú til staðar í níu löndum, m.a. í Bretlandi þar sem Vodafone kynnti þessa nýjung fyrir viðskiptamönnum sínum í síðasta mánuði.
(Sjá frétt Edie 30. maí).