Ný heimasíða um PVC

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).

Ný nanótækni breytir koldíoxíði í etýlen

Vísindamenn í Los Angeles hafa þróað sérstaka nanóvíra úr kopar sem nýtast sem hvatar í efnahvarfi sem breytir koldíoxíði í etýlen. Etýlen hefur hingað til verið framleitt úr jarðefnaeldsneyti, en efnið er m.a. notað í framleiðslu á plasti. Notkun nanóvíra úr kopar í þessu skyni er ekki ný uppfinning, en með breyttri lögun og áferð víranna hefur tekist að auka nýtingarhlutfallið úr 10% í 70%, auk þess sem minna myndast af aukaefnum á borð við vetni og metan. Aðferðin kann því að nýtast til að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og breyta því í verðmæta vöru.
(Sjá frétt Science Daily 17. september).

Klórpýrifos tekið úr sölu þrátt fyrir tilslökun Trump-stjórnarinnar

Bandaríski eiturefnaframleiðandinn Corteva tilkynnti í gær að framleiðslu á dýraeitrinu klórpýrifos verði hætt í lok þessa árs, þrátt fyrir að Trump-stjórnin hafi tilkynnt að ekkert verði af fyrirhuguðu banni við sölu efnisins í Bandaríkjunum. Corteva er stærsti framleiðandi efnisins í heiminum, en efnið hefur verið mikið notað í ræktun á maís, sojabaunum, hnetum, sítrusávöxtum, vínberjum o.fl. gegn skordýrum, ormum og öðrum dýrum sem litið er á sem meindýr í þessari ræktun. Klórpýrifos er taugaeitur sem rannsóknir benda til að geti haft alvarleg áhrif á heilsu barna, m.a. með því að trufla þroskun heilans. Ástæða þess að Corteva ætlar að hætta að framleiða efnið er einfaldlega sú að sala þess hefur dregist saman um 80% frá því sem var á árunum eftir 1990. Þeir sem berjast fyrir því að efnið verði bannað hyggjast halda baráttunni áfram þrátt fyrir ákvörðun Corteva, enda verður klórpýrifos frá öðrum framleiðendum áfram til sölu að óbreyttu.
(Sjá frétt The Guardian 6. febrúar).

Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs

Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).

Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust

Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).

Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti

Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).

Baktería sem brýtur niður PFAS

Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).

Þvegið úr köldu vatni án þvottaefnis

Íbúar í stúdentablokkinni Tensta Torn í útjaðri Stokkhólms geta fljótlega þvegið fötin sín úr köldu vatni og án þess að nota þvottaefni. Þetta hefur reyndar alltaf verið hægt, en nýjungin í Tensta Torn felst í því að fötin verða a.m.k. jafnhrein og eftir venjulegan þvott. Sænska fyrirtækið Swatap hefur fengið einkarétt á þessari nýrri tækni, sem kallast DIRO og byggir á því að áður en þvottavatnið streymir í þvottavélina er það leitt í gegnum kolasíur, bakteríur og veirur eru fjarlægðar með öfugri osmósu og vatnið síðan afjónað þannig að það innihaldi fyrirfram ákveðið magn vetnis- og hýdróxíðjóna. Með þessari nýju tækni ætti að vera hægt að spara talsverða orku, þvottaefniskaup og viðhald á þvottavélum, auk þess sem minni þvottaefnisnotkun stuðlar að bættri heilsu. Þvottahúsið í Tensta Torn verður tekið í notkun 19. september nk. og mun þá jafnframt nýtast sem sýningarrými fyrir þá sem vilja kynna sér málið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. ágúst).

Verða býflugur nikótínfíklar?

Hópur breskra vísindamanna hefur sýnt fram á að býflugur sem geta valið á milli hreinnar fæðu og fæðu sem er menguð af skordýraeitrinu neónikótínoíð virðast forðast eitrið í fyrstu en fara svo smám saman að taka eitraða fóðrið framyfir hitt. Þetta bendir til að flugurnar þrói með sér einhvers konar fíkn, sambærilega fíkn reykingamanna í nikótín í tóbaki, enda um skyld efni að ræða. Þetta gæti verið vísbending um að skordýraeitrið sé enn skaðlegra býflugum en áður var talið.
(Sjá frétt Guardian í gær).

Ný aðferð til að mæla örplast í drykkjarvatni

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) fékk nýlega Háskólann í Árósum til að þróa nýja aðferð til að taka sýni úr drykkjarvatni til greiningar á fjölda örplastagna. Mælingar sem gerðar voru sl. haust bentu til að verulegt magn örplasts væri að finna í dönsku drykkjarvatni, en mikil óvissa í mælingunum var talin veikja niðurstöðurnar. Þannig þótti ekki tryggt að utanaðkomandi mengun, t.d. úr lofti, hefði ekki spillt sýnunum. Aðferð Háskólans í Árósum gengur út á sýnatöku í lokuðu kerfi sem ætti að útiloka ytri mengunarþætti. Fyrstu prófanir með nýja búnaðinum benda til að örplastmengun í drykkjarvatni sé mun minni en fyrri mælingar gáfu vísbendingar um. Þannig fannst aðeins ein örplastögn í þremur 50 lítra sýnum sem skoðuð voru í tilraunaskyni. Ætlunin er að prófa búnaðinn með mun víðtækari rannsóknum á næstunni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).