Matarumbúðir úr pappa hafa minnsta kolefnissporið

Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Ný heimasíða um PVC

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).

Nýtt ensím sem brýtur niður plast á nokkrum dögum

Vísindamenn við háskólann í Portsmouth í Englandi hafa búið til nýtt ensím sem getur brotið niður plastflöskur á nokkrum dögum. Þetta var gert með því að tengja saman tvö ensím úr bakteríu sem japanskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2016. Þessi baktería nærðist á plasti og gat brotið það niður á u.þ.b. 6 vikum. Með því að tengja þessi tvö ensím saman fer niðurbrotstími pólýetýlenplasts (PET) hins vegar niður í nokkra daga. Vísindamennirnir í Portsmouth gera sér vonir um að hægt verði að nýta uppgötvun þeirra í endurvinnsluiðnaði innan tveggja ára og benda jafnframt á að þetta sé enn eitt dæmið um mikilvægi þess að vinna með náttúrunni að lausnum á vandamálum samtímans.
(Sjá frétt PlanetArk 7. október).

Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum

Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Ný aðferð við endurvinnslu á plasti

Vísindamenn við háskólana í Bath og Birmingham hafa þróað nýja aðferð til að endurvinna plast. Með aðferðinni er mögulegt að brjóta plastið niður í grunnsameindir sínar, sem síðan er hægt að breyta í nýtt plast af sömu gerð og í sömu gæðum og upphaflega plastið. Hingað til hefur endurvinnsla á plasti byggst á því að tæta plastið og bræða það en við það breytist eðli þess og efnasamsetning. Nýja aðferðin krefst minni orku og minna magns af skaðlegum efnahvötum en fyrri aðferðir og með henni er fræðilega séð hægt að endurvinna sama plastið aftur og aftur.
(Lesið frétt á heimasíðu Háskólans í Bath 30. janúar).

Fyrstu Svansmerktu drykkjarumbúðirnar

Umbúðafyrirtækið Tetra Pak í Svíþjóð varð á dögunum fyrst allra fyrirtækja til að fá vottun Norræna svansins fyrir drykkjarumbúðir. Ef allir Norðurlandabúar myndu velja þessar tilteknu drykkjarumbúðir (Tetra Rex® Plant-based) í stað umbúða sem nú eru notaðar í sama tilgangi, myndi losun koldíoxíðs minnka um 30.000 tonn á ári. Meðal krafna sem Svanurinn gerir til drykkjarumbúða er að þær samanstandi af a.m.k. 90% endurnýjanlegu efni (fernur) eða a.m.k. 80% endurunnu efni (gler,ál) eða a.m.k. 80% endurunnu/endurnýjanlegu efni (plast). Auk þess eru gerðar strangar kröfur um efnanotkun o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 23. janúar).

Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust

Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).

Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti

Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).

Nýtt kurl minnkar mengun frá gervigrasi

Sænska fyrirtækið Unisport hefur hafið framleiðslu á kurli úr úrgangi frá vinnslu á sykurreyr. Nýja kurlinu er ætlað að koma í stað dekkjakurls á gervigrasvöllum. Kurlið brotnar niður í náttúrunni og ætti því ekki að leiða til örplastmengunar líkt og þekkt er með dekkjakurlið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 19. september).

Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).