Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).
Greinasafn fyrir flokkinn: Samfélagsleg ábyrgð
LEGO setur 2,5 milljarða DKK í sjálfbærnistarfið
Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).
IKEA opnar verslun með notaðar vörur
Á næstu vikum opnar húsgagnarisinn IKEA verslun í Eskilstuna, þar sem eingöngu notaðar IKEA-vörur verða boðnar til kaups. Vörurnar mun IKEA sækja á nytjamarkaðinn ReTuna þar í bæ og lagfæra á verkstæði sínu, auk þess sem seldar verða ónotaðar vörur sem hafa skemmst og fengið andlitslyftingu á verkstæðinu. Verðið verður eðlilega mun lægra en á nýjum IKEA-vörum, en opnum verslunarinnar er liður í að laga rekstur IKEA að hringrásarhagkerfinu. Hjá IKEA er gert ráð fyrir að fram til ársins 2027 vaxi markaður fyrir notaðar vörur fjórfalt hraðar en markaður fyrir nýjar vörur.
(Sjá frétt í Aftonbladet 11. september).
Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu
Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)
Royal Shakespeare Company afþakkar styrki frá BP
Enska leikhússamstæðan Royal Shakespeare Company (RSC) hefur ákveðið að rifta styrktarsamningi við olíurisann BP frá og með næstu áramótum, en BP hefur styrkt leikhúsin með fjárframlögum allt frá árinu 2011. Ákvörðun RSC er til komin vegna þrýstings frá ungu fólki sem hefur gefið til kynna að tengsl leikhúsanna við olíurisann dragi úr áhuga þeirra á að njóta þess sem leikhúsin hafa að bjóða. Að sögn forsvarsmanna RSC eru þetta skilaboð sem ekki sé hægt að horfa framhjá og því hafi þessi ákvörðun verið tekin, þrátt fyrir þann fjárhagslega missi sem henni fylgir.
(Sjá frétt á heimasíðu RSC 2. október).
Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum
Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).
1.400 einnota kaffimál í breska umhverfisráðuneytinu á degi hverjum
Um 1.400 einnota kaffimál eru notuð í breska umhverfisráðuneytinu á hverjum einasta degi og á síðustu 5 árum keypti ráðuneytið 2,5 milljónir slíkra íláta þrátt fyrir fyrirheit umhverfisráðherrans um að draga úr magni plastúrgangs. Þessar upplýsingar koma fram í gögnum sem Frjálslyndir demókratar hafa fengið afhentar í krafti upplýsingalaga. Hingað til hefur mötuneyti ráðuneytisins ekki boðið upp á neina fjölnotabolla, en 200 slíkir voru loks keyptir 31. október sl. Frjálslyndir demókratar hafa lagt til að lagt verði 5 pensa gjald (7 ísl. kr.) á einnota kaffimál, enda hafi gjaldtaka af plastpokum skilað miklum árangri í baráttunni við sóun. Neðri deild breska þingsins hefur einnig verið stórtæk í einnota málunum, en á síðasta ári keypti kaffistofa þingsins 1.000 slík mál fyrir hvern þingmann. Áætlað er að á hverju ári hendi Bretar um 3 milljörðum einnota mála og að aðeins eitt af hverjum 400 þeirra fari í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Guardian 21. nóvember).
Fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður
Á dögunum var fyrsti Svansmerkti leikskóli Noregs opnaður í Overhalla í Norður-Þrændalögum. Svansvottun tekur til alls lífsferils viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrir leikskóla þýðir þetta m.a. að gerðar eru strangar kröfur bæði til byggingarinnar og rekstrarins. Sem dæmi má nefna að í Svansmerktum byggingum mega hvergi finnast bakteríudrepandi efni, enda geta þau aukið hættuna á þróun lyfjaónæmra baktería. Orkunotkun þarf að vera afar lítil og í leikskólanum í Overhalla er því m.a. náð með sólarsellum, góðri einangrun, endurnýtingu varma úr loftræsi- og fráveitukerfum, orkunýtnum heimilistækjum og lýsingu. Svansmerktir leikskólar þurfa einnig að uppfylla kröfur um hljóðvist til að lágmarka hávaða innan dyra. Þegar Svansleyfið var afhent sagði Per Olav Tyldum, forseti sveitarstjórnar Overhalla, að sveitarfélagið vildi vera í fararbroddi í umhverfismálum og að þetta væri sérlega mikilvægt þegar börn ættu í hlut, þar sem þau væru jú framtíðin okkar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 2. nóvember).
Sky hættir að nota einnota plast
Fréttaveitan Sky ætlar að hætta allri notkun á einnota plasti í nýjum vörum fyrir lok þessa árs og árið 2020 á einnota plast að heyra sögunni til í allri starfsemi fyrirtækisins, svo og hjá birgjum þess. Með þessu vill Sky leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að plastrusl endi í hafinu, en átakið er hluti af verkefninu Sky Ocean Rescue. Þegar átakið var kynnt sagði Jeremy Darroch, forstjóri Sky, að Sky þyrfti að axla sinn hluta af ábyrgðinni og að fyrirtækið hefði ótrúlega góðar forsendur til að hafa jákvæð áhrif, þar sem starfsemi þess næði inn á 23 milljónir heimila í Evrópu.
(Sjá frétt Sky 17. október).
Fáir fataframleiðendur fylgja þræðinum
Aðeins 17 af stærstu fataframleiðendum heims hafa gerst aðilar að yfirlýsingu fataiðnaðarins um gagnsæi (e. The Transparency Pledge) að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem gefin var út í tilefni þess að í dag eru liðin fjögur ár frá Rana Plaza slysinu í Bangladesh þar sem rúmlega 1.100 verkamenn í fataiðnaði létust þegar verksmiðjubygging hrundi. Með aðild að yfirlýsingunni heita fyrirtækin því að birta upplýsingar sem gera neytendum kleift að finna hvar fötin þeirra eru framleidd. Samtals var 72 fyrirtækjum boðið að gerast aðilar að yfirlýsingunni og í viðauka við skýrsluna er hægt að sjá viðbrögð hvers þeirra um sig. Yfirskrift skýrslunnar er „Follow the Thread: The Need for Supply Chain Transparency in the Garment and Footwear Industry“.
(Sjá fréttatilkynningu Clean Clothes Campaign 20. apríl).