LEGO setur 2,5 milljarða DKK í sjálfbærnistarfið

Á næstu þremur árum ætlar danski leikfangaframleiðandinn LEGO að verja 2,5 milljörðum danskra króna (um 54 milljörðum ISK) til að gera reksturinn og framleiðsluvörurnar umhverfisvænni. Þetta verður m.a. gert með því að hætta að nota poka úr einnota plasti utan um lausa kubba og nota þess í stað FSC-vottaða bréfpoka. Þá er stefnt að því að fyrirtækið verði orðið kolefnishlutlaust árið 2022, en því verður m.a. náð með eigin raforkuframleiðslu með sólarskjöldum. Þá er ætlunin að minnka vatnsnotkun um 10% fram til 2022 – og frá og með árinu 2025 verður enginn úrgangur sendur til urðunar. Loks má nefna viðleitni til að kenna börnum um sjálfbæra þróun í gegnum leik þeirra að LEGO-kubbum. Allt er þetta liður í viðleitni LEGO til að styðja við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 (Menntun fyrir alla) og 12 (Ábyrg neysla og framleiðsla).
(Sjá frétt á heimasíðu LEGO 15. september).

IKEA opnar verslun með notaðar vörur

Á næstu vikum opnar húsgagnarisinn IKEA verslun í Eskilstuna, þar sem eingöngu notaðar IKEA-vörur verða boðnar til kaups. Vörurnar mun IKEA sækja á nytjamarkaðinn ReTuna þar í bæ og lagfæra á verkstæði sínu, auk þess sem seldar verða ónotaðar vörur sem hafa skemmst og fengið andlitslyftingu á verkstæðinu. Verðið verður eðlilega mun lægra en á nýjum IKEA-vörum, en opnum verslunarinnar er liður í að laga rekstur IKEA að hringrásarhagkerfinu. Hjá IKEA er gert ráð fyrir að fram til ársins 2027 vaxi markaður fyrir notaðar vörur fjórfalt hraðar en markaður fyrir nýjar vörur.
(Sjá frétt í Aftonbladet 11. september).

Nýjar byggingar franska ríkisins að hálfu úr timbri

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur tilkynnt að frá og með árinu 2022 skuli allar nýbyggingar sem fjármagnaðar eru af franska ríkinu vera að minnsta kosti að hálfu leyti byggðar úr timbri. Þetta er liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að ýta undir sjálfbæra borgarþróun. Áður höfðu borgaryfirvöld í París lýst því yfir að timbur verði notað í auknum mæli sem byggingarefni fyrir Ólympíuleikana í París 2024. Þannig verða allar byggingar sem reistar verða í tengslum við leikana, og eru 8 hæðir eða minna, alfarið reistar úr timbri.
(Sjá frétt Planet/Ark Reuter 7. febrúar).

Ný aðferð við endurvinnslu á plasti

Vísindamenn við háskólana í Bath og Birmingham hafa þróað nýja aðferð til að endurvinna plast. Með aðferðinni er mögulegt að brjóta plastið niður í grunnsameindir sínar, sem síðan er hægt að breyta í nýtt plast af sömu gerð og í sömu gæðum og upphaflega plastið. Hingað til hefur endurvinnsla á plasti byggst á því að tæta plastið og bræða það en við það breytist eðli þess og efnasamsetning. Nýja aðferðin krefst minni orku og minna magns af skaðlegum efnahvötum en fyrri aðferðir og með henni er fræðilega séð hægt að endurvinna sama plastið aftur og aftur.
(Lesið frétt á heimasíðu Háskólans í Bath 30. janúar).

Svanaðu lífið

Á dögunum hleypti skrifstofa Svansins í Svíþjóð af stokkunum nýju átaki undir yfirskriftinni „Svana ditt liv“, eða „Svanaðu lífið“. Tilgangurinn með átakinu er að fá fleiri neytendur til að taka upp sjálfbærari lífsstíl. Sögnin „að svana“ er nýyrði sem nær yfir hvers konar aðgerðir í anda sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. að flokka úrgang, ferðast saman, neyta sparlega og kaupa svansmerktar vörur. Orðinu er ætlað að hvetja fólk og gera því auðveldara fyrir, bæði að tala um og lifa sjálfbærara lífi.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 27. janúar).

Fyrstu Svansmerktu útileiktækin

Danska fyrirtækið CADO hóf nýlega framleiðslu á fyrstu Svansmerktu útileiktækjunum í heiminum, en þessi tæki henta vel í „útiræktina“, þ.e. á líkamsræktarsvæði utandyra. Til þess að fá vottun Svansins þurfa útileiktæki að uppfylla ýmsar kröfur sem ná til alls lífsferils tækjanna. Sem dæmi má nefna að efni sem notuð eru í yfirborðsmeðhöndlun þurfa að uppfylla tilteknar kröfur, mæta þarf viðmiðum um notkun endurunninna málma og þegar tækin hafa lokið hlutverki sínu þarf að vera auðvelt að aðskilja málma og önnur efni þannig að hægt verði að nota þau á nýjan leik. Auk þess eru gerðar kröfur um notagildi og öryggi tækjanna, um endingu þeirra og veðraþol.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 16. október).

Minni innkaup gera fólk hamingjusamara en grænni innkaup

Umhverfismeðvituðu ungu fólki sem kaupir lítið af vörum líður að meðaltali betur en umhverfismeðvituðum jafnöldrum þeirra sem kaupa umhverfisvænar vörur. Þetta kom fram í langtímarannsókn Sabrínu Helm og félaga við Háskólann í Arizona, sem sagt er frá í tímaritinu Young Consumers. Í rannsókninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir fólk af Þúsaldarkynslóðinni (f. 1980-2000) sem allt hafði tamið sér umhverfisvæn gildi. Að mati rannsakendanna má skipta þessum hópi í tvo undirhópa, annars vegar þau sem hafa dregið úr neyslu, m.a. með því að forðast óþörf innkaup og með því að gera við hluti til að láta þá endast lengur og hins vegar þau sem „kaupa grænt“, þ.e. kaupa hluti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrir hlutir til sömu nota. Fyrrnefndi hópurinn var hamingjusamari og upplifði minni streitu. Sabrína Helm og félagar draga m.a. þá ályktun af þessu að efnishyggju fylgi aukið álag, jafnvel þótt efnishyggjan sé „græn“. Álagið getur stafað af meiri skuldum og flóknara lífi sem fylgir eignarhaldi og rekstri hluta.
(Sjá frétt Science Daily 8. október).

Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust

Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).

Þang til að minnka metanlosun frá mjólkurkúm

Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).

Fyrsti Svansmerkti skóli Noregs opnaður

Á dögunum var fyrsta Svansmerkta skólabyggingin í Noregi tekin í notkun í Røyken, en til að fá Svaninn þurfa byggingar að uppfylla strangar kröfur um byggingarefni, byggingaraðferðir, efnanotkun, orkunýtingu, lýsingu, loftræsingu, hljóðvist og sitthvað fleira. Skólinn er byggður úr timbri og rúmar 130 nemendur í 14 skólastofum. Byggingartíminn var tvö ár og byggingarkostnaður um 170 milljónir norskra króna (tæplega 2,4 milljarðar ísl. kr.). Þetta er „skóli fyrir framtíðina“, eins og Anita Winsnes, framkvæmdastjóri Svansins í Noregi, orðaði það við opnunarathöfnina.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 23. ágúst).