Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)
Greinasafn fyrir merki: Vistspor
Krybbur frekar en kjúklingar
Ræktun skordýra til manneldis hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annað húsdýrahald að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla. Síðustu misseri hefur gjarnan verið talað um skordýr sem „fæðu framtíðarinnar“ en umrædd rannsókn er sú fyrsta þar sem helstu umhverfisþættir skordýraræktar eru greindir og lagt fræðilegt mat á umhverfisáhrifin. Rannsóknin byggði á samanburði krybburæktar við kjúklingarækt og meginniðurstaðan var sú að krybburnar kæmu talsvert betur út, einkum vegna þess að þær nýta fóður betur. Talið er mögulegt að minnka vistspor krybbubúskaparins enn frekar með aukinni nýtingu á úrgangsefnum og öðru fóðri sem ekki nýtist kjúklingum eða öðrum hefðbundnum húsdýrum. Krybbur hafa verið ræktaðar til matar í Tælandi í nær 20 ár og þar eru nú um 20 þúsund krybbubú. Um 2.000 tegundir skordýra eru nýttar til matar í heiminum. Flestar þeirra eru veiddar til matar en u.þ.b. 9 tegundir eru ræktaðar til manneldis eða fóðurframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily 11. maí).
Yfirdráttardagurinn var í gær!
Yfirdráttardagurinn var í gær, 19. ágúst, en þá var mannkynið búið að nota allar þær auðlindir sem jörðin nær að framleiða á þessu ári. Samtökin Global Footprint Network hafa þróað reiknilíkan til að áætla vistspor þjóða og reikna með því út fjölda jarða sem heimsbyggðin þarf til að standa undir neyslu sinni. Þannig tímasetja samtökin jafnframt yfirdráttardaginn á hverju ári. Í fréttayfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að árið 1961 hafi mannkynið árlega notað um einn þriðja af auðlindum jarðar, en í dag búa um 86% heimsbyggðarinnar í löndum þar sem úttektir auðlinda eru hærri en innborganir. Frá og með deginum í gær er mannkynið því að ganga á varabirgðir jarðarinnar eða lifa á yfirdrætti. Yfirdráttardaginn bar upp degi fyrr í ár en í fyrra.
(Sjá tilkynningu Global Footprint Network í gær).
Matsfyrirtæki þurfa að reikna með ástandi auðlinda
Lánshæfismat þjóða kann að vera ofreiknað í mörgum tilvikum, þar sem matsfyrirtæki taka ekki tillit til ástands náttúruauðlinda í útreikningum sínum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu undir yfirskriftinni „E-RISC: A New Angle on Sovereign Credit Risk“, sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) kynnti í gær. Í skýrslunni eru sett fram fyrstu drög að svonefndri E-RISC aðferðafræði sem gæti orðið grunnur að breyttum útreikningum matsfyrirtækja. Í þessari nýju aðferðafræði er m.a. tekið tillit til vistspors viðkomandi þjóðar (e. Ecological Footprint) í samanburði við líffræðilega getu landsins (e. biocapacity).
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP í gær).