Frá árinu 2010 hafa fimm af stærstu olíufyrirtækjum heims, þ.e.a.s. BP, Shell, Chevron, ExxonMobil og Total, varið samtals 251 milljón evra (um 35 milljörðum ísl. kr.) í hagsmunagæslu til að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir innan Evrópusambandsins. Þessu til viðbótar hafa samtök á vegum fyrirtækjanna notað 128 milljónir evra (um 18 milljarða ísl. kr.) í sama tilgangi. Þá hafa fulltrúar fyrirtækjanna haldið 327 fundi með embættismönnum sambandsins frá því á árinu 2014. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu Corporate Europe Observatory og fleiri aðila. Þar er reyndar bent á að þetta sé bara toppurinn á ískjakanum, því að tölur hafi ekki fengist frá öllum fyrirtækjunum öll árin og auk þess séu útgjöld sem tengjast þjóðþingum og stofnunum einstakra landa ekki meðtalin. Að mati skýrsluhöfunda hefur þessum fyrirtækjum tekist að seinka, veikja og spilla fyrir aðgerðum Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Kominn sé tími til að byggja eldvegg á milli fyrirtækjanna og stjórnvalda.
(Sjá frétt The Guardian í dag).