Matarsóun í verslunum meiri en talið var

Ný rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Svíþjóðar (Naturvårdsverket) bendir til að matarsóun í verslunum sé mun meiri en áður var talið. Áætlað er að matarsóun í matvöruverslunum í Svíþjóð hafi numið um 100.000 tonnum á árinu 2018, en það samsvarar um 10 kg. á hvern íbúa landsins. Þetta nýja mat byggir á tölum frá samtökum verslana, en fyrri rannsóknir hafa byggt á úrgangstölum sveitarfélaga, fyrirtækjaskrá og stikkprufum. Magn matarúrgangs frá heimilum virðist hins vegar hafa minnkað nokkuð, þ.e. úr 100 kg. á íbúa 2014 niður í 95 kg. 2018. Þar af er áætlað að 45 kg. á íbúa hafi verið ætur matur, þ.e. eiginleg matarsóun.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 20. febrúar).

Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum

Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).

Gjaldtaka af plastpokum stórminnkar notkun

Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).

Varnarefni í þvagi Svía

nv_logo_sv-200Leifar af varnarefnum finnast í þvagi flestra Svía að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket). Þetta er niðurstaða þriggja rannsókna sem fram fóru á tímabilinu 2004-2011 og náðu til 500 einstaklinga. Í þessum rannsóknum voru gerðar efnagreiningar á þvagprufum, auk þess sem þátttakendur héldu matardagbók.Varnarefni fundust í þvagi flestra þátttakenda, en þó einna mest hjá þeim sem nýlega höfðu innbyrt kaffi, vín, sítrusávexti, grænmeti og tilteknar vörur úr korni. Varnarefnaleifar fundust einnig í grunnvatni og ferskvatni. Naturvårdsverket hefur lýst vonbrigðum með niðurstöðurnar sem sýna að engar framfarir hafa orðið í þessum efnum síðustu 10 ár, þrátt fyrir að löggjöf og stefnumótun hafi miðað að því að minnka notkun varnarefna í sænskum landbúnaði.
(Sjá fréttatilkynningu Naturvårdsverket 7. október).

Betri bílahreinsiefni vænlegri en þvottabann

BilathvotturUmhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) telur lagaheimild skorta til að unnt sé að banna bílaþvott á götum úti, enda þótt slíkum athöfnun fylgi hætta á að olía, þungmálmar og önnur mengandi efni berist út í nattúruna. Þetta álit stofnunarinnar kemur í framhaldi af tíðum fyrirspurnum sveitarfélaga um möguleika sína á að beita boðum og bönnum til að koma í veg fyrir að þvottavatn af bílum berist óhreinsað í niðurföll. Í stað banns mælir Naturvårdsverket með því að fólk verði upplýst um umhverfisáhrifin og hvatt til að nota vistvæn hreinsiefni.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 7. maí).