Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: Ítalía
5% samdráttur í vínframleiðslu vegna loftslagsbreytinga
Gera má ráð fyrir að vínframleiðsla í heiminum verði 5% minni á þessu ári en hún var í fyrra. Ástæðan eru loftslagsbreytingar sem hafa leikið vínbændur grátt, einkum í Suður-Ameríku. Alþjóðasamtök vínræktenda (OIV) hafa reiknað út að heildarframleiðsla ársins verði 259,5 milljónir hektólítra, sem gerir árið 2016 af einu lakasta vínræktarári síðustu tveggja áratuga. Gert er ráð fyrir 35% samdrætti í Argentínu, 21% í Síle, 19% í Suður-Afríku og 12% í Frakklandi. Hins vegar er gert ráð fyrir 5% aukningu í Ástralíu og 35% aukningu á Nýja-Sjálandi. Ítalía stefnir í að verða mesta vínræktarland ársins.
(Lesið frétt The Guardian í gær).
Grænmeti framleitt á þökum
Hægt væri að framleiða um 75% af öllu grænmeti sem neytt er í stórborgum innan borgarmarkanna samkvæmt raundæmarannsókn sem gerð var í Bologna á Ítalíu á árunum 2012 til 2014. Í rannsókninni kom fram að ef öll flöt þök í Bologna væru nýtt til ræktunar mætti framleiða þar um 12.500 tonn af grænmeti sem samsvarar um 77% af grænmetisneyslu borgarbúa. Þessi grænu þök myndu um leið bæta loftgæði í borginni, stuðla að líffræðilegri fjölbreytni og fanga um 624 tonn af koltvísýringi árlega. Einnig gætu grænu þökin dregið úr hita- og hljóðmyndun og bætt þannig lífsskilyrði. Í raundæminu var ræktað salat, kál, kaffifífill, tómatar, eggaldin, eldpipar, melónur og vatnsmelónur og þrjár mismunandi ræktunaraðferðir skoðaðar til að finna út hvernig hægt væri að hámarka framleiðslu á litlum svæðum innan borgarmarkanna.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 26. mars).