Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs

Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).

Örplast dreifist með moskítóflugum

Örplast sem moskítólirfur innbyrða í vatni er að einhverju marki enn til staðar eftir að lirfan hefur umbreyst í fullvaxna flugu. Dýr sem nærast á lirfum og flugum fá því örplastið í sig og þannig getur það borist upp fæðukeðjuna. Þetta kom fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Biology Letters. Örplast finnst í miklu magni í sjó og vötnum en ekki hefur áður verið sýnt fram á að það geti dreifst loftleiðis með skordýrum.
(Sjá frétt Science-X í dag).

Verða býflugur nikótínfíklar?

Hópur breskra vísindamanna hefur sýnt fram á að býflugur sem geta valið á milli hreinnar fæðu og fæðu sem er menguð af skordýraeitrinu neónikótínoíð virðast forðast eitrið í fyrstu en fara svo smám saman að taka eitraða fóðrið framyfir hitt. Þetta bendir til að flugurnar þrói með sér einhvers konar fíkn, sambærilega fíkn reykingamanna í nikótín í tóbaki, enda um skyld efni að ræða. Þetta gæti verið vísbending um að skordýraeitrið sé enn skaðlegra býflugum en áður var talið.
(Sjá frétt Guardian í gær).

Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða

Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Þarmabakteríur sem brjóta niður plast

Tilteknar skordýralirfur geta étið og melt plast en hingað til hefur ekki verið ljóst á hverju þessi hæfileiki byggist. Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á að tilteknar bakteríur í þörmum lifranna virðast gera þetta mögulegt. Samanburður á bakteríuflóru í þörmum hnetuglæðu (Plodia interpunctella) á lirfustigi leiddi í ljós að lirfur sem aldar voru á pólýtýlenplasti höfðu allt aðra og fjölbreyttari þarmaflóru en lirfur sem fengu venjulegt fæði. Í þeim síðarnefndu voru bakteríur af ættkvíslinni Turicibacter í meirihluta, en þessar bakteríur eru mjög algengar í þörmum dýra. Plastæturnar voru hins vegar með mikið af Tepidimonas-, Pseudomonas-, Rhizobiales– og Methylobacteriaceae-bakteríum, en sumar þeirra virðast einmitt eiga þátt í að brjóta niður plastagnir í hafinu.
(Sjá frétt Science News 17. nóvember).

Krybbur frekar en kjúklingar

Ræktun skordýra til manneldis hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annað húsdýrahald að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla. Síðustu misseri hefur gjarnan verið talað um skordýr sem „fæðu framtíðarinnar“ en umrædd rannsókn er sú fyrsta þar sem helstu umhverfisþættir skordýraræktar eru greindir og lagt fræðilegt mat á umhverfisáhrifin. Rannsóknin byggði á samanburði krybburæktar við kjúklingarækt og meginniðurstaðan var sú að krybburnar kæmu talsvert betur út, einkum vegna þess að þær nýta fóður betur. Talið er mögulegt að minnka vistspor krybbubúskaparins enn frekar með aukinni nýtingu á úrgangsefnum og öðru fóðri sem ekki nýtist kjúklingum eða öðrum hefðbundnum húsdýrum. Krybbur hafa verið ræktaðar til matar í Tælandi í nær 20 ár og þar eru nú um 20 þúsund krybbubú. Um 2.000 tegundir skordýra eru nýttar til matar í heiminum. Flestar þeirra eru veiddar til matar en u.þ.b. 9 tegundir eru ræktaðar til manneldis eða fóðurframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily 11. maí).

Enn skýrari tengsl milli skordýraeiturs og skyndidauða býflugnabúa

BýflugudauðiNý rannsókn vísindamanna við Harvard Lýðheilsuháskólann styrkir fyrri vísbendingar um þátt neónikótínoíða í skyndidauða býflugnabúa (e. colony collapse disorder (CCD)). Á síðasta ári sýndi þessi sami hópur fram á fylgni milli notkunar skordýraeitursins imídaklópríð og skyndidauða býflugnabúa, en í ár var rannsóknin endurtekin með áherslu á klóþíanídín, en bæði efnin innihalda neónikótínoíð. Skyndidauði af völdum þessara efna virðist stafa af því að flugurnar yfirgefi hýði sitt á veturna og deyi úr kulda. Fyrri rannsóknir á tengslum skordýraeiturs og skyndidauða hafa bent til að há dánartíðni orsakist af minnkandi sýklamótstöðu, en í rannsókn Harvard kom fram að sýklamótstaða samanburðarhóps var sambærileg því sem gerðist í tilraunahópnum. Því þykir ljóst að neónikótínoíð hafi einnig önnur líffræðileg áhrif, ekki síst á taugakerfi flugnanna. Frá árinu 2006 hefur skyndidauði býflugnabúa orðið sífellt algengari. Býflugur gegna lykilhlutverki í vistkerfum jarðar og því afar brýnt að finna orsakir dauðans.
(Sjá frétt Science Daily 9. maí).

Skordýramjöl sem skepnufóður

HermannaflugaFranska sprotafyrirtækið Ynsect vinnur að því að þróa fóður úr skordýramjöli, sem hugsanlega gæti komið í stað próteingjafa á borð við fiskimjöl, sojamjöl og kjötmjöl. Svarta hermannaflugan, húsflugulirfur, silkiormar og gulir mjölormar þykja hvað vænlegust sem hráefni í þessa framleiðslu. Skordýrin verða ræktuð á staðnum og síðan unnin í áfastri skordýramjölsverksmiðju, og standa vonir til að fyrsti hluti þessarar aðstöðu verði tilbúinn innan tveggja ára. Skordýrin eru auðveld í ræktun og hægt að ala þau á nánast hvaða lífræna úrgangi sem er. Skeljar og aðrar aukaafurðir frá vinnslunni geta nýst m.a. í lyfja- og snyrtivöruiðnaði, og skordýraskítur er ákjósanlegur áburður. Tilraunir benda til að hægt sé að nota engisprettumjöl til helminga á móti fiskimjöli sem fóður í fiskeldi án þess að það komi niður á árangri. Enn er ekki leyfilegt að nota skordýramjöl sem fóður í svínarækt og kjúklingaeldi innan ESB, en hugsanlegt er að slíkt leyfi fáist frá og með 2014.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).