Vitað er að svifryk hefur skaðleg áhrif á heilsu. Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Paul Scherrer Institute (PSI) í Sviss ráðast þessi áhrif þó að öllum líkindum ekki fyrst og fremst af magni svifryksins, heldur af samsetningu þess, nánar tiltekið af „oxunargetu“ (e. oxidative potential) svifryksagnanna. Með „oxunargetu“ er átt við getu agnanna til að eyða andoxunarefnum í frumum líkamans, sem síðan getur leitt til frumu- og vefjaskemmda. Stór hluti svifryks er svokallað steinefnasvifryk úr jarðvegi, ásamt ólífrænum ögnum sem innihalda m.a. ammóníumnítrat og súlfat. Þetta ryk hefur ekki mikla „oxunargetu“. Öðru máli gegnir um „manngert ryk“ á borð við sótagnir og málmagnir úr bremsuborðum og dekkjasliti. Þetta þýðir að íbúar þéttbýlis búa ekki aðeins við meira svifryk en íbúar dreifbýlis, heldur er þéttbýlissvifrykið einnig skaðlegra heilsunni. Samkvæmt þessu er ekki nóg að setja reglur um magn svifryks, heldur þarf einnig að taka tillit til samsetningar þess.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær)
Greinasafn fyrir merki: svifryk
Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum
Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Frítt í strætó í Þýskalandi?
Þýsk stjórnvöld íhuga að taka upp gjaldfrjálsar almenningssamgöngur að því er fram kemur í bréfi sem Barbara Hendricks, umhverfisráðherra Þýskalands, og tveir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn landsins sendu til Karmenu Vella, umhverfisstjóra ESB, í síðustu viku. Til að byrja með er ætlunin að prófa þetta fyrirkomulag í fimm borgum í Þýskalandi. Þessi áform eru hluti af úrbótaáætlun sem þýsk stjórnvöld leggja fram að kröfu ESB, en Þýskaland var eitt af níu ríkjum sambandsins sem ekki tókst að draga nægjanlega úr mengun af völdum köfnunarefnissambanda og svifryks áður en frestur til þess rann út 30. janúar sl. Talið er að loftmengun í borgum Evrópu verði 400.000 manns að aldurtila á hverju ári og kosti heilbrigðiskerfi sambandslandanna árlega um 20 milljarða evra (um 2.500 milljarða ísl. kr.).
(Sjá frétt The Guardian 14. febrúar).
Meira en 1.000 mengunarsíulausir díselbílar í Bretlandi
Frá því á árinu 2014 hafa bifreiðaskoðunarstöðvar í Bretlandi fundið meira en 1.000 díselbíla sem ekki eru með lögbundnar mengunarsíur. Síðan 2009 hafa mengunarsíur verið lögbundnar í nýjum díselbílum til að draga úr svifryksmengun í útblæstri. Síurnar eiga það hins vegar til að stíflast með tilheyrandi vandræðum og því hafa margir bíleigendur brugðið á það ráð að borga verkstæðum fyrir að fjarlægja síurnar. Sum verkstæði bjóða einnig upp á þá þjónustu að fjarlægja hluta af síunni þannig hún verði óvirk og stíflist ekki. Þessi breyting sést ekki við hefðbundna bifreiðaskoðun og telur Samgöngustofa Bretlands líklegt að tugir eða hundruð þúsunda bíla aki nú um með gagnslausar síur. Samkvæmt breskri löggjöf er ekki ólöglegt að fjarlægja síur en akstur síulausra bíla er ólöglegur. Áætlað er að árlega deyi um 29.000 manns í Bretlandi fyrir aldur fram úr sjúkdómum sem rekja má til svifryksmengunar. Þarlend yfirvöld hafa því miklar áhyggjur af áhrifum ólöghlýðni bíleigenda á lýðheilsu.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).
Mengunarsíur í strætisvagna bæta loftgæði í Kaupmannahöfn
Loftmengun á götum Kaupmannahafnar hefur minnkað verulega eftir að nýjum úblásturssíum var komið fyrir í 300 strætisvögnum þar í borg. Síurnar minnka mengun í útblæstri um 95% og munar þar mestu um samdrátt í útblæstri köfnunarefnisoxíða (NOx) og svifryks sem eru taldar vera meðal helstu orsaka krabbameins og öndunarfærasjúkdóma í borginni. Þessi samdráttur í mengun samsvarar því að 15-20% af mest mengandi ökutækjum borgarinnar væru tekin úr umferð. Verkefnið er hluti af samstarfi Kaupmannahafnarborgar, sveitarfélagsins Fredriksberg, flutningafyrirtækisins Movia og Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 29. febrúar).
2.500 mengandi fyrirtækjum lokað í Peking
Yfirvöld í Peking hafa tilkynnt að þau hyggist loka 2.500 litlum mengandi fyrirtækjum í borginni á þessu ári til að stuðla að bættum loftgæðum. Í desember var öðru sinni lýst yfir rauðu ástandi í borginni vegna loftmengunar, en þá er skólum lokað og bannað að vinna utanhúss. Á árinu 2015 mældist fínt svifryk (<2,5 µm) að meðaltali 80,6 míkrógrömm á rúmmetra í Peking, en það er um 1,3 sinnum meira en landslög kveða á um. Fyrirtækin sem lokað verður eru m.a. veitingastaðir, hótel og verkstæði. Yfirvöld í Kína hyggjast draga úr kolabrennslu og loka mengandi stóriðju, en ólíklegt þykir að landið nái markmiðum sínum um loftgæði fyrr en eftir 2030.
(Sjá frétt Reuters 9. janúar).
Um 430.000 manns deyja vegna loftmengunar í Evrópu
Á hverju ári má rekja um 430.000 dauðsföll í Evrópu til loftmengunar samkvæmt nýrri skýrslu frá Umhverfisstofnun Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að loftmengun sé helsta dánarorsök í álfunni þar sem mengunin stuðli að hjartasjúkdómum, krabbameini og vandamálum í öndunarfærum og dragi þannig úr lífslíkum og lífsgæðum Evrópubúa. Um 87% Evrópubúa í þéttbýli búa við svifryksmengun sem er ofan við viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Viðmiðunarmörk ESB eru mun lægri en mörk WHO og bjuggu samkvæmt þeim aðeins 9% íbúa við óviðunandi mengun. Koma mætti í veg fyrir um 144.000 ótímabær dauðsföll árlega ef Evrópusambandið myndi innleiða staðla WHO. Mest loftmengun í Evrópu mælist í Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi, Frakklandi og Bretlandi.
(Sjá frétt EDIE 30. nóvember).
Loftmengun mæld með snjallsímum
Í þessum mánuði og þeim næsta munu 500 íbúar Kaupmannahafnar mæla svifryksmengun í nánasta umhverfi sínu með þar til gerðu appi og búnaði sem tengist myndavélum iPhone síma. Þessar mælingar eru hluti af evrópsku verkefni sem gengur undir nafninu iSPEX og hefur það markmiði að kortleggja loftmengun í evrópskum borgum með meiri nákvæmni en áður og auka þannig þekkingu manna á áhrifum loftmengunar á heilsu og umhverfi.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í gær).
Rafbílar gætu dregið verulega úr innflutningi eldsneytis
Rafbílavæðing Bretlands gæti þýtt um 40% samdrátt í innflutningi eldsneytis til ársins 2030 á sama tíma og bílstjórar myndu spara um 13 milljarða sterlingspunda (um 2.700 milljarða ísl. kr.) samkvæmt hagrannsóknum Háskólans í Cambridge. Jafnframt myndi þetta þýða um 47% samdrátt í losun koltvísýrings, auk mikils samdráttar í útblæstri köfnunarefnisoxíðs og svifryks, sem gæti einn og sér sparað heilbrigðiskerfinu milljarð punda. Í rannsókninni er gert ráð fyrir að um 6 milljónir rafbíla verði á götum Bretlands árið 2030, en þróunin veltur þó á því að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu innviða. Þétt og öruggt net hleðslustöðva dregur verulega úr drægnikvíða (e. range anxiety) sem er ein helsta ástæða þess að almenningur hikar við að breyta yfir í rafbíla. Á sama tíma og rafbílavæðing getur dregið verulega úr kostnaði vegna öndunarfærasjúkdóma myndi hún skapa 7.000-19.000 ný störf og verg þjóðarframleiðsla myndi aukast vegna minni innflutnings olíu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).