Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu

Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)

Sjóðakosningadagur í Svíþjóð á morgun

Á morgun, 21. febrúar, verður efnt til sérstaks sjóðakosningadags í Svíþjóð, þar sem sænskir sparifjáreigendur verða aðstoðaðir við að kjósa fjárfestingarsjóði sem fjárfesta markvisst í fyrirtækjum sem stuðla að sjálfbærri þróun, eða með öðrum orðum að velja sjálfbærari fjármagnsmarkað og þar með grænni framtíð. Í könnun sem gerð var seint á síðasta ári kom fram að 37% sænskra sparifjáreigenda vilja gjarnan leggja fé sitt í sjálfbæra fjárfestingarsjóði og að það sem helst hindri þá í því sé að þeir hafi ekki tíma til að kynna sér áherslur sjóðanna. Skrifstofa Norræna Svansins í Svíþjóð stendur fyrir sjóðakosningadeginum, en frá því í október 2017 hafa fjárfestingarsjóðir sem uppfylla tiltekin skilyrði getað sótt um Svansvottun.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 13. febrúar).

Fáir fataframleiðendur fylgja þræðinum

Aðeins 17 af stærstu fataframleiðendum heims hafa gerst aðilar að yfirlýsingu fataiðnaðarins um gagnsæi (e. The Transparency Pledge) að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem gefin var út í tilefni þess að í dag eru liðin fjögur ár frá Rana Plaza slysinu í Bangladesh þar sem rúmlega 1.100 verkamenn í fataiðnaði létust þegar verksmiðjubygging hrundi. Með aðild að yfirlýsingunni heita fyrirtækin því að birta upplýsingar sem gera neytendum kleift að finna hvar fötin þeirra eru framleidd. Samtals var 72 fyrirtækjum boðið að gerast aðilar að yfirlýsingunni og í viðauka við skýrsluna er hægt að sjá viðbrögð hvers þeirra um sig. Yfirskrift skýrslunnar er „Follow the Thread: The Need for Supply Chain Transparency in the Garment and Footwear Industry“.
(Sjá fréttatilkynningu Clean Clothes Campaign 20. apríl).

Fairtrade jólastjarnan frumsýnd

jolastjarnaFyrsta Fairtrademerkta jólastjarnan er komin á markað í Svíþjóð, en blómið er einnig fyrsta pottablómið sem fær Fairtrademerkingu þar í landi. Jólastjörnurnar hefja líf sitt í Eþíópíu en eru þaðan sendar til Svíþjóðar sem græðlingar, þar sem síðasti hluti ræktunarinnar fer fram í gróðrarstöðinni Tågerups Trädgård. Framkvæmdastjóri gróðrarstöðvarinnar segir að fyrirtækið vilji tryggja góð vinnuskilyrði og mannréttindi fyrir ræktendur auk þess sem hann segir mikil viðskiptatækifæri liggja í vottuninni þar sem eftirspurn eftir Fairtradevörum er mikil í Svíþjóð. Þar hafa Fairtrademerkt blóm m.a. náð miklum vinsældum og í dag er um þriðjungur allra rósa í Svíþjóð vottaðar. Með því að velja Fairtrademerktar jólastjörnur umfram aðrar vinnur maður gegn barnaþrælkun og tryggir að grundvallarmannréttindi séu virt í framleiðsluferlinu.
(Sjá frétt Fairtrade í Svíþjóð 23. nóvember).

Sala á Fairtrade-vörum í Svíþjóð jókst um 37% milli ára

fairtrade_160Sala á Faitrade-vottuðum vörum jókst um 37% í Svíþjóð milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt markaðskönnun Fairtrade-samtakanna. Sé litið á fjóra stærstu vöruflokkana sést að sala á bönunum jókst um 95% milli ára, sala á víni um 42%, sala á blómum um 40% og sala á kaffi um 24%. Sala á Faitrade-vottuðum vörum í Svíþjóð nemur nú um 2,7 milljörðum sænskra króna á ári (um 42 milljörðum ísl. kr.). Aukin sala á Fairtrade-vörum helst í hendur við aukna eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum, en um 65% af Fairtrade-vörunum sem seldar voru í Svíþjóð 2014 voru einnig með lífræna vottun. Tölurnar gefa til kynna að neytendur leggi æ meira áherslu á sjálfbæran uppruna vöru og að bændum í þróunarlöndunum séu tryggðar ásættanlegar vinnuaðstæður.
(Sjá frétt sænsku Faitrade samtakanna 23. apríl).

Shell sektað vegna brota á lögum um loftgæði

shell_160Olíurisinn Shell þarf að greiða um 1 milljón bandaríkjadala (um 132 millj. ísl. kr.) í skaðabætur vegna brota á bandarísku loftgæðalögunum (the Clean Air Act). Umhverfisstofnun Bandaríkjanna kærði Shell vegna fjögurra atriða sem tengdust sölu og merkingu á eldsneyti. Þannig stóðust ekki upplýsingar fyrirtækisins um brennisteinsinnihald eldsneytis, sem sagt var innihalda minna en 15 ppm af brennisteini en innihélt í raun allt að 500 ppm. Einnig reyndist eldsneytið í einhverjum tilvikum innihalda of mikið af etanóli og vera of rokgjarnt, auk þess sem fyrirtækið hafði vanrækt lögbundið eftirlit og skráningu. Magn brennisteins og hlutfall etanóls í eldsneyti hefur mikil áhrif á loftgæði auk þess sem rokgjarnt eldsneyti stuðlar að ósonmyndun við yfirborð jarðar.
(Sjá frétt ENN 20. janúar).

Siðgæðisvottaðir trúlofunarhringar

I_Do_160Fairtrade samtökin í Bretlandi hófu í gær átaksverkefnið „I Do“ sem hvetur fólk í giftingarhugleiðingum til að velja siðgæðisvottaða trúlofunar- og giftingarhringa. Siðgæðisvottað gull tryggir vinnuöryggi, eykur fræðslu, bætir heilsugæslu og tryggir lífsviðurværi verkamanna í gullnámum heimsins. Laun námuverkamanna geta verið allt niður i 1 bandaríkjadollar á dag (um 131 ísl. kr.), auk þess sem verkamennirnir starfa oft við hættulegar aðstæður í daglegri snertingu við efni á borð við kvikasilfur, sýaníð og saltpéturssýru. Verkefnisstjóri „I Do“ segir verkefnið einstaklega mikilvægt vegna þess að „gull er svo falleg vara sem fólk tengir við rómantík og birtu. Með því að nota Fairtrade til að tryggja gegnsæi og sýna uppruna gullsins, verður varan enn sérstakari“.
(Sjá frétt Fairtrade í Bretlandi 13. janúar).

Merkingin „100% náttúrulegt“ á útleið hjá General Mills

Nature-Valley-Trail-Mix-Bar.jpg.662x0_q100_crop-scaleDómsátt hefur náðst í máli samtakanna Center for Science in the Public Interest (CSPI) gegn General Mills, en samtökin hófu lögsókn á hendur fyrirtækinu árið 2012 vegna notkunar þess á merkingunni „100% náttúrulegt“. Dómsáttin felur í sér að General Mills hættir að nota merkinguna á vörur sem innihalda meira en 0,9% af tilbúnum efnum á borð við háfrúktósa maíssýróp, maltódextrín og natríumbíkarbónat. Þar að auki mun fyrirtækið ekki nota merkinguna á vörur sem innihalda meira en 0,9% af erfðabreyttu efni. CSPI bindur vonir við að lögsóknin gefi tóninn fyrir svipaðar málsóknir og stuðli að ábyrgðarfyllri merkingum.
(Sjá frétt TreeHugger í dag).

Sjálfbærnistarfi sænskra skóverslana mjög áfátt

skor_160Enginn af fjórum stærstu skóverslunarkeðjunum í Svíþjóð vinnur markvisst að því að tryggja heilbrigt vinnuumhverfi og viðunandi laun í löndum þar sem skórnir eru framleiddir, að því er fram kemur í skýrslunni „Í sömu sporum“ sem sænsku samtökin Fair Trade Center (FTC) gáfu út á dögunum. Samtökin benda sérstaklega á að verslunarkeðjurnar láti hjá líða að fylgjast með aðferðum og vinnuumhverfi við sútun leðurs. Það ferli geti verið mjög skaðlegt bæði fyrir umhverfið og heilsu starfsmanna enda mikið notað af efnavörum í sútuninni. Það þykir furðu sæta að skóverslanirnar séu ekki komnar lengra í umhverfisstarfinu og þá sérstaklega í sjálfbærri stjórnun aðfangakeðjunnar, enda standa fyrirtæki í tískugeiranum í Svíþjóð sig almennt vel í þeim efnum. Verkefnisstjóri FTC segir málið ekki snúast um að sýna gott fordæmi heldur einfaldlega um að fylgja þeim alþjóðasamningum sem fyrirtækin segist vinna eftir.
(Sjá frétt á heimasíðu Fair Trade Center 26. ágúst).

Fairphone gefur tóninn fyrir sjálfbæra snjallsíma

fairphone.jpg.662x0_q100_crop-scaleÍ þriðju útgáfu Fairphone farsímans er lögð áhersla á sjálfbæran uppruna málma, góð vinnuskilyrði og einfaldleika í viðgerðum. Þar með slær fyrirtækið tóninn fyrir umhverfisvæna snjallsíma. Mikið er lagt upp úr því að málmar sem notaðir eru í framleiðsluna séu ekki frá svæðum þar sem átök standa yfir vegna námuvinnslunnar. Reynt er að tryggja sanngjörn laun verkamanna í allri virðiskeðjunni og einnig hefur fyrirtækið sett upp sérstakt skilakerfi fyrir símana. Fyrirtækið iFixit hefur tekið að sér viðhald símanna. Sá samningur felur í sér að auðvelt er að panta varahluti, auk þess sem útbúin hefur verið viðgerðarhandbók sem auðveldar notendum að gera við helstu bilanir upp á eigin spýtur. Auðvelt er að taka snjallsímann í sundur og skipta um það sem bilar, en eins og margir þekkja er oft erfitt að nálgast varahluti fyrir snjallsíma og spjaldtölvur: Neytendum er þá gjarnan ráðlagt á að kaupa sér nýtt tæki frekar en að láta gera við það gamla.
(Sjá frétt Treehugger í gær).