Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða

Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Skordýraeitur ógnar býflugum

Bees-007-GuardianMatvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf í gær út það álit að skordýraeitur með virka efnið neonicotinoid stefni býflugum í óásættanlega hættu og því sé ekki forsvaranlegt að nota það við ræktun plöntutegunda sem býflugur sækja í. Um er að ræða algengasta skordýraeitur í heimi og því gæti þessi yfirlýsing haft mikil áhrif. Það eru hins vegar stjórnvöld í hverju landi sem taka ákvörðun um hugsanlegt bann við notkun efnisins. Umhverfisverndarsinnar fagna þessum tímamótum og segja þau jafngilda dauðadómi yfir skordýraeitri af þessu tagi, en fulltrúar framleiðenda telja áhættuna ekki fullsannaða og vara við oftúlkun varúðarreglunnar. David Goulson, prófessor við Háskólann í Stirling í Skotlandi segir þetta vekja upp spurningar um hvað hafi verið í gangi þegar notkun efnanna var fyrst leyfð. Rachel Carson hafi skrifað „Raddir vorsins þagna“ fyrir 50 árum, en við séum ekki enn búin að læra neitt.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Hunangsflugur í hættu vegna efnanotkunar

Bresk rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Nature um síðustu helgi bendir til að notkun skordýraeiturs í landbúnaði geti spillt afkomumöguleikum hunangsflugubúa, bæði vegna þess að dánartíðni hækkar og afköst hverrar flugu við fæðuöflun minnka. Verðmæti þeirrar vistfræðilegu þjónustu sem hunangsflugur og aðrir frjóberar veita er áætlað um 200 milljarðar bandaríkjadala á ári. Hunangsflugum og býflugum hefur fækkað mikið í Evrópu og Norður-Ameríku á síðustu árum, en sitt sýnist hverjum um ástæðurnar.
(Sjá frétt PlanetArk 22. október).