Ný rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Svíþjóðar (Naturvårdsverket) bendir til að matarsóun í verslunum sé mun meiri en áður var talið. Áætlað er að matarsóun í matvöruverslunum í Svíþjóð hafi numið um 100.000 tonnum á árinu 2018, en það samsvarar um 10 kg. á hvern íbúa landsins. Þetta nýja mat byggir á tölum frá samtökum verslana, en fyrri rannsóknir hafa byggt á úrgangstölum sveitarfélaga, fyrirtækjaskrá og stikkprufum. Magn matarúrgangs frá heimilum virðist hins vegar hafa minnkað nokkuð, þ.e. úr 100 kg. á íbúa 2014 niður í 95 kg. 2018. Þar af er áætlað að 45 kg. á íbúa hafi verið ætur matur, þ.e. eiginleg matarsóun.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 20. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: lífrænn úrgangur
Oft góð eftir „Best fyrir“
Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)
Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa
Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).
Flokkun lífræns úrgangs komin í tísku
Níu af hverjum tíu Dönum sem eiga þess kost að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi sem til fellur á heimilinu eru ánægðir með fyrirkomulagið samkvæmt niðurstöðum könnunar Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Enn hafa aðeins um 30% þjóðarinnar aðstöðu til slíkrar flokkunar en um helmingur hinna 70 prósentanna segist gjarnan vilja hafa þennan möguleika. Aðeins um 15% segja flokkun úrgangs vera erfiða og um 3% vilja hafa færri flokkunarmöguleika en þeir hafa í í dag. Lífrænn heimilisúrgangur er rúmlega 40% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Kaupmannahöfn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. september).
Seattle bannar matarafganga í ruslatunnum
Frá og með síðustu áramótum hefur verið bannað að setja lífrænan úrgang í venjulegar ruslatunnur við heimili í Seattle. Fyrst um sinn merkja sorphirðumenn ruslatunnur sem innihalda meira en 10% af lífrænum úrgangi með rauðum límmiða til viðvörunar. Frá og með 1. júlí n.k. munu bæjaryfirvöld svo sekta þá íbúa sem ekki hafa gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að lífrænn úrgangur endi í ruslinu. Nú stunda um 5% borgarbúa heimajarðgerð en úrgangsfyrirtæki bjóða einnig lausnir þar sem lífrænn úrgangur er sóttur. Nokkrir íbúar hafa mótmælt þessum ráðstöfunum harðlega en skoðanakannanir sýna þó að um 74% íbúa styðja aðgerðina, enda sé hún rökrétt framhald af banni sem var innleitt árið 2005 við því að henda endurvinnanlegum efnum í ruslið. Með þessum aðgerðum vonast yfirvöld til að geta forðað um 60% af öllum úrgangi frá urðun fyrir árslok 2015.
(Sjá umfjöllun TakePart 8. janúar).
„Best fyrir“ merkingar aflagðar?
Landbúnaðarráðherrar Hollands og Svíþjóðar hafa lagt það til við Framkvæmdastjórn ESB að hætt verði að skylda matvælaframleiðendur til að merkja geymsluþolnar matvörur á borð við hrísgrjón, pasta og kaffi með dagstimplum, enda þoli þessar matvörur mun lengri geymslu en „Best fyrir“ merkingar gefi til kynna. Um 90 milljónum tonna af ætum mat er hent í Evrópu árlega og er talið að þar af megi rekja um 15% til dagsetningarmerkinga. Tillögu ráðherranna er ætlað að draga má úr þessari miklu sóun. Tillagan nýtur nú þegar stuðnings stjórnvalda í Austurríki, Danmörku, Þýskalandi og Lúxemborg, auk Hollands og Svíþjóðar.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Veitingahús í París breyta leifum í lífgas
Um 80 veitingahús í París hafa tekið höndum saman um að vinna metan og jarðvegsbæti úr tilfallandi matarleifum. Metanið verður brennt til raforkuframleiðslu og til upphitunar, en bændur í nágrenninu njóta góðs af jarðvegsbætinum. Með þessu eru veitingahúsin m.a. að bregðast við stigvaxandi lagakröfum um endurvinnslu lífræns úrgangs. Frá og með þessu ári nær endurvinnsluskyldan til fyrirtækja þar sem meira en 40 tonn af lífrænum úrgangi falla til á ári, en árið 2016 lækka þessi mörk niður í 10 tonn. Þar með munu lögin ná til veitingahúsa sem selja um og yfir 150 skammta á dag, en í þann flokk fellur um fimmtungur af öllum matsölustöðum Frakklands. Þeir sem ekki hlýða lögunum geta átt von á sektum allt að 75.000 evrum (hátt í 12 milljónir ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk 13. febrúar).
60% sænskra sveitarfélaga safna lífrænum úrgangi frá heimilum
Rúmlega 60% allra sveitarfélaga í Svíþjóð (179 sveitarfélög) hafa hafið söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi (matarleifum) frá heimilum. Í 65 sveitarfélögum ber heimilum skylda til að flokka þennan úrgang, 107 sveitarfélög bjóða íbúum þetta sem valkost og í 7 sveitarfélögum nær söfnunin aðeins til stóreldhúsa, svo sem veitingahúsa og mötuneyta. Rúmlega 25% sveitarfélaga (75 sveitarfélög) hyggjast hefja söfnun matarleifa á næstunni.
(Sjá frétt á heimasíðu Avfall Sverige 19. nóvember).
Hænsni endurvinna lífrænan úrgang á Samsø
Hópur íbúa á Samsø í Danmörku hefur tekið sig saman um stofnun hænsnafélaga sem ætlað er að nýta grænmetisúrgang frá heimilum á eynni, en þessi úrgangur hefur hingað til að mestu endað í sorpbrennslustöðvum. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 10 heimili standi að hverju hænsnafélagi, en einstakar fjölskyldur geta þó komið sér upp eigin hænsnabúum innan ramma verkefnisins, svo fremi sem fylgt er settum reglum um nýtingu grænmetisúrgangs. Markmiðið með verkefninu er ekki aðeins að sýna fram á að þetta sé mögulegt, heldur einnig að efla samstöðu íbúanna, stuðla að breyttu hegðunarmynstri, skapa atvinnutækifæri og framleiða egg, kjúklinga og áburð fyrir eyjarskeggja. Ætlunin er að verkefnið nái til 60% af öllum heimilum á Samsø.
(Sjá frétt á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Danmerkur (DN) 14. nóvember).