Kostnaðurinn við að koma í veg fyrir nýja heimsfaraldra er aðeins örlítið brot af kostnaðinum sem fylgir slíkum faraldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IPBES (Milliríkjanefndar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa). Samkvæmt skýrslunni eru að öllum líkindum til meira en 500.000 veirutegundir í dýrum sem gætu valdið sjúkdómum í mönnum. Ef ekkert verði að gert muni heimsfaraldrar af völdum slíkra veira verða tíðari í náinni framtíð, dreifast hraðar, valda meira tjóni og orsaka fleiri dauðsföll en Covid-19. Ráðast þurfi að rót vandans með því að hætta að eyða skógum til að rýma fyrir framleiðslu á kjöti, pálmaolíu, málmum og öðru slíku fyrir ríkustu þjóðir heims. Þetta kalli á alþjóðlegt eftirlit, skattlagningu og endalok ríkisstuðnings við framkvæmdir sem skerða villta náttúru.
(Sjá frétt The Guardian 29. október).
Greinasafn fyrir flokkinn: Líffræðileg fjölbreytni
Græn útileiksvæði styrkja ónæmiskerfið
Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).
Ónæmiskerfið þróast hægar en loftslagið
Vísindamenn við Háskólann í Lundi hafa fyrstir manna sýnt fram á tengsl milli ónæmiskerfis í fuglum og loftslagsins sem þeir lifa í. Fuglar sem ala allan sinn aldur í hitabeltislöndum með mikla úrkomu hafa fleiri ónæmiserfðavísa en fuglar á norðlægari og þurrari slóðum og ráða þess vegna við fleiri sjúdóma. Farfuglar líkjast evrópskum staðfuglum hvað þetta varðar og hafa tiltölulega fáa ónæmiserfðavísa, enda geta þeir í raun flúið sjúkdóma. Ónæmiserfðavísar allra hryggdýra eru sambærilegir og því draga vísindamennirnar þá ályktun af rannsókninni að þegar hitastig hækkar og úrkoma eykst vegna loftslagsbreytinga, komist ýmis dýr í tæri við sjúkdóma sem þau ráða ekki við. Ónæmiskerfið hafi þróast á milljónum ára og breytingar á því gangi miklu hægar fyrir sig en loftslagsbreytingarnar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs
Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).
Engin kalkvinnsla í Ojnareskógi
Umhverfisyfirréttur Svíþjóðar (Mark- och miljööverdomstolen) hefur úrskurðað að óheimilt sé að opna kalknámu í Ojnareskógi á Gotlandi, þar sem svæðið njóti verndar sem Natura 2000-svæði. Fyrirtækin Nordkalk og SMA Mineral fengu leyfi til kalkvinnslu á svæðinu árið 2014 en leyfisveitingin var kærð til dómstólsins. Natura 2000-svæðið sem um ræðir var stækkað eftir 2014 en samkvæmt úrskurði dómstólsins ber að taka tillit til áhrifa kalkvinnslunnar á hið stækkaða svæði, þó að vinnsluleyfi hafi verið veitt fyrir stækkun, enda hafi stækkunin verið staðfest fyrir dómi. Kalkvinnslan myndi spilla þessu svæði og því skuli hún óheimil. Fyrirtækin sem í hlut eiga geta áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar (Högsta domstolen) en ólíklegt þykir að Hæstiréttur hnekki úrskurðinum, þar sem hann fjallar um flókin vatnafræðileg og náttúruvísindaleg viðfangsefni sem Hæstiréttur mun tæplega taka til skoðunar. Úrskurðurinn þykir mikill sigur fyrir heimamenn og aðra sem lengi hafa barist gegn umræddri kalkvinnslu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Verða býflugur nikótínfíklar?
Hópur breskra vísindamanna hefur sýnt fram á að býflugur sem geta valið á milli hreinnar fæðu og fæðu sem er menguð af skordýraeitrinu neónikótínoíð virðast forðast eitrið í fyrstu en fara svo smám saman að taka eitraða fóðrið framyfir hitt. Þetta bendir til að flugurnar þrói með sér einhvers konar fíkn, sambærilega fíkn reykingamanna í nikótín í tóbaki, enda um skyld efni að ræða. Þetta gæti verið vísbending um að skordýraeitrið sé enn skaðlegra býflugum en áður var talið.
(Sjá frétt Guardian í gær).
Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun
Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).
Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða
Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Fangelsisdómur fyrir dreifingu ágengra tegunda
Ríkisstjórn Svíþjóðar áformar ýmsar lagabreytingar til að hefta útbreiðslu ágengra tegunda í landinu. Í tillögum stjórnarinnar er m.a. gert ráð fyrir að hver sá sem dreifir ágengum tegundum af ásetningi eða með vítaverðu gáleysi skuli dæmdur til sektargreiðslu eða fangelsisvistar í allt að tvö ár. Þá er lagt til að heimilt verði að tilgreina í reglugerðum hvaða aðgerða skuli gripið til vegna einstakra tegunda og að sveitarstjórnir geti gripið til aðgerða til að eyða ágengum tegundum af landi í einkaeigu, jafnvel gegn vilja eigandans. Tillögum stjórnarinnar er ætlað að tryggja að Svíþjóð uppfylli skilyrði Evrópureglugerðar frá árinu 2015.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 23. febrúar).
Ósjálfbært súkkulaði í Valentínusargjöf?
Kakóræktun á stóran þátt í eyðingu skóga víða um heim að því er fram kemur í skýrslu samtakanna Mighty Earth. Þetta sést m.a. þegar kort af kakóræktunarsvæðum eru borin saman við kort af skógareyðingu síðustu árin. Ástandið er sérstaklega alvarlegt í Vestur-Afríku og vaxandi eftirspurn eftir súkkulaði gæti leitt til sambærilegra afleiðinga í löndum á borð við Fílabeinsströndina og Gana.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).