Frítt í strætó í Þýskalandi?

Þýsk stjórnvöld íhuga að taka upp gjaldfrjálsar almenningssamgöngur að því er fram kemur í bréfi sem Barbara Hendricks, umhverfisráðherra Þýskalands, og tveir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn landsins sendu til Karmenu Vella, umhverfisstjóra ESB, í síðustu viku. Til að byrja með er ætlunin að prófa þetta fyrirkomulag í fimm borgum í Þýskalandi. Þessi áform eru hluti af úrbótaáætlun sem þýsk stjórnvöld leggja fram að kröfu ESB, en Þýskaland var eitt af níu ríkjum sambandsins sem ekki tókst að draga nægjanlega úr mengun af völdum köfnunarefnissambanda og svifryks áður en frestur til þess rann út 30. janúar sl. Talið er að loftmengun í borgum Evrópu verði 400.000 manns að aldurtila á hverju ári og kosti heilbrigðiskerfi sambandslandanna árlega um 20 milljarða evra (um 2.500 milljarða ísl. kr.).
(Sjá frétt The Guardian 14. febrúar).

Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann

Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).

Eru kaffidrifnir strætisvagnar framtíðin?

Olía sem unnin er úr kaffikorgi er nú notuð á nokkra strætisvagna í London. Á hverjum degi eru drukknir um 55 milljón bollar af kaffi í Bretlandi og samtals falla þar til um 200.000 tonn af kaffikorgi á ári. Fyrirtækið Bio-bean safnar korgi og vinnur úr honum olíu sem síðan er blandað í venjulega dísilolíu í hlutföllunum 20/80 (B20-lífdísill). Engar breytingar þarf að gera á olíuverki strætisvagnanna til að þeir geti nýtt þetta eldsneyti. Lífdísill úr notaðri matarolíu og tólg hefur um nokkurt skeið verið notaður með þessum hætti í almenningsfarartækjum í London, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem kaffikorgur kemur að notum sem orkugjafi á þeim vettvangi.
(Sjá frétt BBC 19. nóvember).