Bandaríski eiturefnaframleiðandinn Corteva tilkynnti í gær að framleiðslu á dýraeitrinu klórpýrifos verði hætt í lok þessa árs, þrátt fyrir að Trump-stjórnin hafi tilkynnt að ekkert verði af fyrirhuguðu banni við sölu efnisins í Bandaríkjunum. Corteva er stærsti framleiðandi efnisins í heiminum, en efnið hefur verið mikið notað í ræktun á maís, sojabaunum, hnetum, sítrusávöxtum, vínberjum o.fl. gegn skordýrum, ormum og öðrum dýrum sem litið er á sem meindýr í þessari ræktun. Klórpýrifos er taugaeitur sem rannsóknir benda til að geti haft alvarleg áhrif á heilsu barna, m.a. með því að trufla þroskun heilans. Ástæða þess að Corteva ætlar að hætta að framleiða efnið er einfaldlega sú að sala þess hefur dregist saman um 80% frá því sem var á árunum eftir 1990. Þeir sem berjast fyrir því að efnið verði bannað hyggjast halda baráttunni áfram þrátt fyrir ákvörðun Corteva, enda verður klórpýrifos frá öðrum framleiðendum áfram til sölu að óbreyttu.
(Sjá frétt The Guardian 6. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: varnarefni
Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun
Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).
Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða
Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Býflugum fækkar vegna sveppaeiturs
Sveppaeitur sem dreift er á ræktað land virðist eiga stóran þátt í þeirri fækkun býflugna sem mikið hefur verið í umræðunni á síðustu misserum. Þetta kom í ljós í nýrri greiningu sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B. Niðurstöðurnar voru fengar með tölfræðilegri greiningu á niðurstöðum rannsókna frá 284 stöðum í Bandaríkjunum og samtals voru skoðuð áhrif 24 mismunandi þátta á afkomumöguleika fjögurra býflugnategunda. Meðal þessara þátta voru hnattstaða, hæð yfir sjó, gerð og ástand búsvæða, þéttleiki byggðar og notkun varnarefna. Það kom nokkuð á óvart að sveppaeitrið klóróþalóníl reyndist stærsti áhrifavaldurinn. Talið er líklegt að þetta stafi af því að eitrið drepi örverur í meltingarvegi býflugnanna og auki þannig líkur á þarmaveiki af völdum Nosema-sníkilsins. Áður var vitað að notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð hefur skaðað býflugnastofna. Býflugur og aðrir frjóberar sjá um að frjóvga um 75% allra matjurta í heiminum og því er fækkun þeirra mikið áhyggjuefni.
(Sjá frétt The Guardian 29. desember).
Fjöldi eiturefna, en ekki bara styrkur þeirra, tengdur við býflugnadauða
Hópur vísindamanna við Háskólann í Maryland hefur sýnt fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og fjölda eiturefna sem til staðar eru í búinu. Margar rannsóknir hafa áður bent til þess að tiltekin eiturefni valdi hruni í býflugnastofnum en samverkandi áhrif efnanna hafa ekki áður verið könnuð með þeim hætti sem gert var í þessari rannsókn. Svo virðist sem flugurnar missi hæfileikann til afeitrunar þegar fleiri efni bætast við, jafnvel þótt hvert efni um sig sé í mjög lágum styrk. Sérstaka athygli vakti að tiltekin sveppaeiturefni, sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir býflugur, virðast hafa mikið að segja í þessu sambandi.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).
ESB bannar tvo hormónaraskandi illgresiseyða
Evrópusambandið hefur bannað notkun illgresiseyða sem innihalda efnin amítról og ísóprótúrón þar sem þau eru talin geta orsakað skjaldkirtilskrabbamein, ófrjósemi og fæðingargalla. Bannið tekur gildi 30. september nk. Þetta er í fyrsta sinn sem sambandið bannar notkun illgresiseyða sem taldir eru hormónaraskandi, en dönsk stjórnvöld o.fl. hafa þrýst á að fleiri slík efni verði tekin úr umferð. Talsmaður grasrótarsamtakanna Pesticide Action Network segist fagna niðurstöðunni en leggur um leið áherslu á að nú þegar liggi fyrir hjá ESB fjölmargar tillögur um bann eða takmörkun á notkun hormónaraskandi efna í varnarefnum og að sambandið hafi jafnan frestað ákvarðanatöku þar um. Amítról er mikið notað í 10 löndum ESB og illgresiseyðar sem innihalda ísóprótúrón eru seldir í 22 ríkjum enda þótt fyrir liggi niðurstöður Matvælaöryggisstofnunar Evrópu um skaðsemi efnisins.
(Sjá frétt the Guardian 19. apríl).
Skordýraeitur en ekki zika-veira orsök dverghöfuðs?
Hópar argentínskra og brasilískra lækna telja að ekki sé hægt að kenna zika-veirunni um fósturskaðafaraldurinn sem nú geisar í Brasilíu, þar sem fjöldi barna hefur fæðst með dverghöfuð (e. microcephaly). Ekki hafi verið sýnt fram á tengsl veirunnar við fósturskaðann, enda hafi veiran aðeins greinst í 17 dverghöfuðtilfellum af 404 sem skoðuð hafi verið. Þá hafi ekki komið upp eitt einasta dverghöfuðtilfelli hjá þeim 3.177 verðandi mæðrum sem greindar hafi verið með zika-veiru í Kólumbíu, og jafnvel á svæðum þar sem 75% íbúa eru smituð af zika-veirunni hafi engin fæðst með dverghöfuð. Læknarnir telja líklegra að fósturskaðann megi rekja til skordýraeitursins pýriproxýfens, sem notað hefur verið í stórum stíl á þeim svæðum þar sem flest dverghöfuðtilfellin hafa komið upp. Þar hefur efninu m.a. verið blandað í drykkjarvatn frá því á árinu 2014 í þeim tilgangi að drepa lirfur moskítóflugunnar.
(Lesið frétt The Ecologist 10. febrúar).
Varnarefnaleifar í meira en helmingi innfluttra ávaxta og grænmetis
Varnarefnaleifar eru til staðar í 73% ávaxta og 52% grænmetis sem framleitt er í löndum Evrópusambandsins og selt á dönskum markaði, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matvælastofnunar Danmerkur (Fødevarestyrelsen). Hlutfallið er nokkru lægra (69% og 46%) í ávöxtum og grænmeti frá löndum utan sambandsins og enn lægra (45% og 25%) í dönskum ávöxtum og grænmeti, Styrkur varnarefna í grænmeti og ávöxtum er þó sjaldan yfir viðmiðunarmörkum. Hæst er þetta hlutfall í grænmeti frá löndum utan ESB, eða um 4%. Þessar niðurstöður byggja á 2.510 sýnum sem tekin voru úr umræddum vörum. Þar af voru 179 sýni úr lífrænum vörum, en þar fundust engar varnarefnaleifar.
(Sjá frétt á heimasíðu Fødevarestyrelsen í dag).
Fjöldamálsóknir vegna Roundup undirbúnar vestra
Lögfræðistofur víða um Bandaríkin safna nú liði fyrir fjöldamálsóknir gegn efnavörurisanum Monsanto á þeim forsendum að plöntueitrið Roundup sem fyrirtækið framleiðir hafi valdið krabbameini í sækjendum, þ.á.m. non-Hodgkin eitlafrumukrabba (NHL). Ætlunin er að sýna fram á það fyrir dómi að Monsanto hafi ranglega haldið því fram að virka efnið í Roundup (glýfosat) væri skaðlaust, þó að fyrirtækinu hafi þá þegar verið ljóst að það gæti valdið krabbameini. Málaferlin koma í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í marsmánuði síðastliðnum um að glýfosat væri líklegur krabbameinsvaldur. Roundup er notað um allan heim í landbúnaði og garðrækt og hefur skapað Monsanto tekjur upp á 4,8 milljarða dollara (um 600 milljarða ísl. kr.) á síðustu 12 mánuðum. Um þessar mundir stendur Monsanto einnig frammi fyrir a.m.k. 700 málsóknum vegna ásakana um að PCB sem fyrirtækið framleiddi á sínum tíma hafi valdið non-Hodgkin eitlafrumukrabbameini.
(Sjá frétt PlanetArk 16. október).
5.000 danskir garðeigendur hættir að eitra
Á síðustu fjórum mánuðum hafa um 5.000 garðeigendur í Danmörku hætt að nota Roundup og önnur eiturefni í garðræktinni og tilkynnt þátttöku sína í átakinu Eiturlausir garðar („Giftfri Have“), sem Náttúruverndarsamtök Danmerkur (DN) standa að í samvinnu við fleiri aðila. Tilkynning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á liðnu vori um að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini, hefur væntanlega ýtt undir þessa þróun, en frá því að þetta var upplýst hefur Roundup víða verið bannað eða fjarlægt úr búðarhillum. Þannig hefur sala efnisins til einkaaðila verið stöðvuð í Frakklandi og Hollandi og á Sri Lanka hefur verið komið á innflutningsbanni, auk þess sem þar hefur verið bannað að dreifa því glýfosati sem þegar hefur verið keypt. Þá hefur efnið verið tekið úr sölu í a.m.k. 1500-2000 verslunum í Sviss, Þýskalandi og Danmörku, svo dæmi séu tekin.
(Sjá frétt á heimasíðu DN 5. október).