Matarumbúðir úr pappa hafa minnsta kolefnissporið

Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Kolefnisskattur á rautt kjöt?

Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Sérstök merking matvæla með lítið kolefnisspor

Sænski matvælaframleiðandinn Felix hefur tekið upp nýtt merki til að einkenna þær matvörur frá fyrirtækinu sem hafa minnst kolefnisspor. Nýja merkið, ”Lågt klimatavtryck” byggist á útreikningum sem styðjast við gagnagrunn rannsóknastofnunarinnar RISE. Tilgangurinn með merkingunni er að auðvelda fólki að velja matvörur sem samræmast 1,5° markmiði Sameinuðu þjóðanna. Fyrst um sinn verður merkingin notuð á tilbúna frysta rétti og frosnar kartöflur. Á heimasíðu fyrirtækisins (Felix.se) má nú finna upplýsingar um kolefnisspor vörutegunda sem þar eru framleiddar, rétt eins og upplýsingar um næringarefnainnihald og ofnæmisvalda.
(Sjá frétt Livsmedelsnyheter 17. september).

Vaxandi sala á lífrænum matvörum í Bretlandi

Sala á lífrænt vottuðum matvörum í Bretlandi var 4% meiri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að matvörumarkaðurinn hafi almennt átt mjög erfitt uppdráttar vegna mikilla þurrka og uppskerubrests. Þetta er 7. árið í röð sem sala á lífrænum matvörum vex og er heildarvelta þessarar sölu í breskum stórmörkuðum nú um 2,2 milljarðar sterlingspunda á ári (rúmlega 300 milljarðar ísl. kr.). Mest var söluaukningin í alls konar lífrænt vottuðu sælgæti og sérvöru, 27,8%, en þar á eftir kom lífrænt vottað vín og bjór með 8,7% aukningu.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Oft góð eftir „Best fyrir“

Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)

Fleiri greinar, meiri uppskera

Japanskir vísindamenn hafa hugsanlega fundið efni sem nýta mætti til að fjölga greinum plantna og auka þannig uppskeru. Vitað er að plöntugenið D14 á þátt í að takmarka fjölgun greina á plöntum á borð við eplatré. Við prófanir á áhrifum 800 mismunandi sameinda á virkni gensins kom í ljós að 18 þeirra bældu virknina um 70% eða meira. Sameindin DL1 skar sig úr hvað þetta varðar og virtist valda talsvert aukinni greinamyndun bæði hjá tilteknum blómplöntum og hrísgrjónum. Efnið kann því að nýtast til að auka uppskeru. Hafnar eru rannsóknir á því hversu lengi efnið endist í jarðvegi og hvort það hafi eituráhrif á fólk.
(Sjá frétt Science Daily 7. febrúar).

Breskar samlokur hafa stærra kolefnisspor en 8 milljón bílar

Árlega sporðrenna Bretar um 11,5 milljörðum samloka og losa með því um 9,5 milljón tonn af koltvísýringsígildum út í andrúmsloftið, að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Sustainable Production and Consumption. Þetta samsvarar losun frá 8,6 milljónum bíla. Stærsta kolefnissporið í rannsókninni átti samloka með eggi, beikoni og pylsu, eða 1,44 kg. Það jafngildir því að bíl sé ekið u.þ.b. 19 km. Samloka með eggi og kirsi kom best út í flokki búðarsamloka með 0,74 kg. Kolefnisspor heimagerðra samloka er yfirleitt mun minna. Framleiðsla og úrvinnsla áleggs reyndist eiga stærstan þátt í kolefnisspori búðarsamloka, eða um 37-67%, umbúðir orsökuðu um 8,5% og flutningur og kæling um 4%. Kæligeymslur verslana geta átt allt að 25% hlutdeild í heildarsporinu. Höfundar rannsóknarinnar benda á að með breytingum á uppskriftum, umbúðum og úrgangsmeðhöndlun megi draga úr losun um u.þ.b. helming og að hægt væri að minnka matarsóun um meira en 2.000 tonn á ári með því að lengja endingartímann.
(Sjá frétt Independent 25. janúar).

Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa

Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).

Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Hungursneyð fer vaxandi á ný

Um 815 milljónir manna, eða um 11% jarðarbúa, þjáðust af hungri á árinu 2016 að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hungruðum fer nú fjölgandi, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur síðasta áratuginn þegar hungruðum fækkaði jafnt og þétt. Vaxandi hungursneyð á sér einkum tvær orsakir samkvæmt skýrslunni, þ.e.a.s. hernaðarátök og loftslagsbreytingar. Verst er ástandið í austanverðri Afríku þar sem 33,9% íbúa þjást af hungri. Í skýrslunni kemur fram að til þess að ná heimsmarkmiðinu um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030 þurfi að ráðast að öllum þeim þáttum sem grafa undan fæðuöryggi í heiminum.
(Sjá frétt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) 15. september).