Suður-Ástralía keyrð á 100% sólarorku í fyrsta sinn

Síðastliðinn sunnudag var öll raforka sem notuð var í Suður-Ástralíu framleidd með sólarorku og hægt var að selja umframorku til Viktoríufylkis. Suður-Ástralía hefur verið leiðandi í nýtingu sólarorku, en þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan dugar til að sjá öllu fylkinu fyrir orku í heilan dag. Suður-Ástralía hefur einnig verið leiðandi í þróun rafgeyma sem taka við orku þegar framboð er meira en eftirspurn og gefa hana frá sér aftur þegar dæmið snýst við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Stórátak í kolefnisbindingu í Noregi

Í fyrradag kynnti ríkisstjórn Noregs tillögu sína til Stórþingsins um stórátak í föngun, flutningi og bindingu koldíoxíðs. Verkefnið er margþætt, en það felst m.a. í söfnun koldíoxíðs frá sementsverksmiðju í Brevik og frá sorporkuveri í Osló, svo og í stuðningi við svonefnt Norðurljósaverkefni, sem unnið er í samstarfi fyrirtækjanna Equinor, Shell og Total. Norðurljósaverkefnið snýst um flutning fljótandi koldíoxíðs frá söfnunarstöðum til móttökustöðvar í Øygarden, en þaðan verður vökvanum dælt niður í hólf undir hafsbotni. Þetta nýja átak, sem fengið hefur nafnið Langskip, er sagt vera stærsta loftslagsverkefni norsks atvinnulífs frá upphafi. Því er ekki aðeins ætlað að auðvelda Norðmönnum að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum, heldur mun það einnig skapa allmörg ný störf. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljarðar norskra króna (um 370 milljarðar ISK), þar af 17 milljarðar í stofnkostnað og 8 milljarðar í rekstur fyrstu 10 árin. Gert er ráð fyrir að norska ríkið beri um 67% af kostnaðinum.
(Sjá fréttatilkynningu norsku ríkisstjórnarinnar í fyrradag).

IKEA opnar verslun með notaðar vörur

Á næstu vikum opnar húsgagnarisinn IKEA verslun í Eskilstuna, þar sem eingöngu notaðar IKEA-vörur verða boðnar til kaups. Vörurnar mun IKEA sækja á nytjamarkaðinn ReTuna þar í bæ og lagfæra á verkstæði sínu, auk þess sem seldar verða ónotaðar vörur sem hafa skemmst og fengið andlitslyftingu á verkstæðinu. Verðið verður eðlilega mun lægra en á nýjum IKEA-vörum, en opnum verslunarinnar er liður í að laga rekstur IKEA að hringrásarhagkerfinu. Hjá IKEA er gert ráð fyrir að fram til ársins 2027 vaxi markaður fyrir notaðar vörur fjórfalt hraðar en markaður fyrir nýjar vörur.
(Sjá frétt í Aftonbladet 11. september).

Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar

Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).

Úrgangi breytt í verðmætt grafen

Vísindamenn við Rice háskólann hafa fundið leið til að breyta hvaða kolefnisríka úrgangi sem er í grafen með eldsnöggri hitun í hvarftanki upp í rúmlega 2.700°C. Afurðin kallast „blossagrafen“ (e. flash graphene) og hefur m.a. þann kost að auðvelt er að aðskilja grafenlögin og fá þannig grafennet sem er aðeins ein sameind á þykkt. Efnið er firnasterkt og getur m.a. nýst sem styrktarefni í steinsteypu. Að sögn vísindamannanna þarf ekki nema 0,1% af grafeni í steypuna til að minnka kolefnisspor hennar um þriðjung, þar sem með þessu minnkar verulega þörfin fyrir framleiðslu og flutning á sementi. Sementframleiðsla orsakar nú um 8% af allri koldíoxíðlosun af mannavöldum í heiminum. Blossagrafenið er mun ódýrara en það grafen sem nú þekkist. Orkutap frá framleiðslunni er óverulegt þar sem varmaorkan binst nær öll í efninu. Önnur efni en kolefni losna frá hvarftankinum í loftkenndu formi og þau efni, þ.m.t. súefni og köfnunarefni, má auðveldlega fanga og jafnvel nýta.
(Sjá frétt ScienceDaily 27. janúar).

Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu

Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)

Minni innkaup gera fólk hamingjusamara en grænni innkaup

Umhverfismeðvituðu ungu fólki sem kaupir lítið af vörum líður að meðaltali betur en umhverfismeðvituðum jafnöldrum þeirra sem kaupa umhverfisvænar vörur. Þetta kom fram í langtímarannsókn Sabrínu Helm og félaga við Háskólann í Arizona, sem sagt er frá í tímaritinu Young Consumers. Í rannsókninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir fólk af Þúsaldarkynslóðinni (f. 1980-2000) sem allt hafði tamið sér umhverfisvæn gildi. Að mati rannsakendanna má skipta þessum hópi í tvo undirhópa, annars vegar þau sem hafa dregið úr neyslu, m.a. með því að forðast óþörf innkaup og með því að gera við hluti til að láta þá endast lengur og hins vegar þau sem „kaupa grænt“, þ.e. kaupa hluti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrir hlutir til sömu nota. Fyrrnefndi hópurinn var hamingjusamari og upplifði minni streitu. Sabrína Helm og félagar draga m.a. þá ályktun af þessu að efnishyggju fylgi aukið álag, jafnvel þótt efnishyggjan sé „græn“. Álagið getur stafað af meiri skuldum og flóknara lífi sem fylgir eignarhaldi og rekstri hluta.
(Sjá frétt Science Daily 8. október).

Croissantbakstur lykillinn að orkugeymslum framtíðar?

Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa hugsanlega fundið nýja og afar árangursríka leið til að geyma orku í orkukerfum. Hugmyndin byggir á sömu aðferðum og notaðar eru við croissantbakstur, þar sem deigið er þjappað og flatt út í þunn lög. Vísindamennirnir beittu svipaðri aðferð til að búa til örþunna fjölliðuhúðaða torleiðaraþétta (e. dielectric capacitors), en slíkir þéttar hafa hingað til, auk venjulegra rafhlaðna og rafefnaþétta (e. electrochemical capacitors), verið eitt af þremur helstu tólunum til að geyma raforku. Nýjungin sem hér um ræðir byggir á að þjappa filmunni í þunn lög, en þannig reyndist mögulegt að geyma 30 sinnum meiri raforku en í bestu torleiðaraþéttum sem fengist hafa hingað til. Þéttar af þessu tagi henta einkar vel til að taka við raforku í óreglulegum skömmtum, svo sem frá sólar- og vindorkuverum, og skila henni mjög hratt út í kerfið á nýjan leik þegar orkuþörfin er meiri.
(Sjá frétt Science Daily 18. október).

Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust

Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).

Gróðurhúsalofttegund breytt í fljótandi eldsneyti

Vísindamönnum við Rice háskólann hefur tekist að nota raforku til að breyta koldíoxíði í maurasýru í hvarftanki án þess að nota saltlausn og þar með án þess að þurfa að fara í gegnum orkufrekt og kostnaðarsamt hreinsunarferli. Sýruna er síðan hægt að nota sem hráefni eða breyta henni aftur í rafmagn í efnahverflum, rétt eins og nú er gert með vetni. Maurasýran hefur það fram yfir vetnið að geta geymt 1.000 sinnum meiri orku í sama rúmmáli. Vissulega losnar koldíoxíð þegar sýran er klofin á nýjan leik en það koldíoxíð er hægt að nýta aftur og aftur. Sé endurnýjanleg raforka notuð í ferlinu getur ávinningurinn verið verulegur í samanburði við þær aðferðir sem beitt hefur verið hingað til. Orkunýtingarhlutfallið í hvarftankinum er um 42% sem þýðir að 42% af raforkunni sem notuð er í ferlinu skilar sér í nýtanlegri orku í maurasýrunni. Nýjungin í þessu byggir á tvennu; annars vegar að nota bismút (Bi) sem hvata og hins vegar að þróa raflausn í föstu formi í stað saltlausnar.
(Sjá frétt Science Daily 3. september).