Bandaríski eiturefnaframleiðandinn Corteva tilkynnti í gær að framleiðslu á dýraeitrinu klórpýrifos verði hætt í lok þessa árs, þrátt fyrir að Trump-stjórnin hafi tilkynnt að ekkert verði af fyrirhuguðu banni við sölu efnisins í Bandaríkjunum. Corteva er stærsti framleiðandi efnisins í heiminum, en efnið hefur verið mikið notað í ræktun á maís, sojabaunum, hnetum, sítrusávöxtum, vínberjum o.fl. gegn skordýrum, ormum og öðrum dýrum sem litið er á sem meindýr í þessari ræktun. Klórpýrifos er taugaeitur sem rannsóknir benda til að geti haft alvarleg áhrif á heilsu barna, m.a. með því að trufla þroskun heilans. Ástæða þess að Corteva ætlar að hætta að framleiða efnið er einfaldlega sú að sala þess hefur dregist saman um 80% frá því sem var á árunum eftir 1990. Þeir sem berjast fyrir því að efnið verði bannað hyggjast halda baráttunni áfram þrátt fyrir ákvörðun Corteva, enda verður klórpýrifos frá öðrum framleiðendum áfram til sölu að óbreyttu.
(Sjá frétt The Guardian 6. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: eiturefni
Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða
Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Fleiri greinar, meiri uppskera
Japanskir vísindamenn hafa hugsanlega fundið efni sem nýta mætti til að fjölga greinum plantna og auka þannig uppskeru. Vitað er að plöntugenið D14 á þátt í að takmarka fjölgun greina á plöntum á borð við eplatré. Við prófanir á áhrifum 800 mismunandi sameinda á virkni gensins kom í ljós að 18 þeirra bældu virknina um 70% eða meira. Sameindin DL1 skar sig úr hvað þetta varðar og virtist valda talsvert aukinni greinamyndun bæði hjá tilteknum blómplöntum og hrísgrjónum. Efnið kann því að nýtast til að auka uppskeru. Hafnar eru rannsóknir á því hversu lengi efnið endist í jarðvegi og hvort það hafi eituráhrif á fólk.
(Sjá frétt Science Daily 7. febrúar).
Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur
Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).
Blýlaust bensín sannar mikilvægi sitt
Styrkur blýs í líkömum sænskra barna hefur minnkað sexfalt frá árinu 1994 þegar blýlaust bensín komst í almenna notkun þarlendis. Þetta kemur fram í sænskri handbók um eiturefnafræði málma (Handbook on the Toxicology of Metals). Sænski eiturefnafræðingurinn Staffan Skerfving segir þróunina frá blýblönduðu bensíni vera dæmi um farsælt verkefni sem hefur bætt heilsufar íbúa. Þróunin hefur verið svipuð í öðrum löndum eftir að bannað var að blanda blýi í bensín. Blýið er lengi til staðar í umhverfinu, en Staffan telur að á þeim 20 árum sem liðin eru hafi stór hluti þess bundist í jarðvegi og hafi því sífellt minni áhrif á heilsu manna. Á síðustu árum hafa mörg þróunarríki einnig hætt notkun blýblandaðs bensíns og er talið að það sé nú einungis selt í sex ríkjum. Blý getur m.a. haft skaðleg áhrif á þróun heilastarfsemi hjá börnum.
(Sjá frétt Sveriges Radio 20. mars).
Lífræn flúorsambönd leka frá æfingasvæðum slökkviliða
Verulegt magn lífrænna flúorsambanda hefur fundist í drykkjarvatni og í fiskum á svæðum nálægt æfingasvæðum slökkviliða í Svíþjóð. Í rannsóknarverkefninu Re-Path á vegum sænska fyrirtækisins IVL kom í ljós að flúorsambandið PFOS (perflúoroktýlsúlfónat), sem notað var í slökkvifroðu á 8. og 9. áratug síðustu aldar, hefur borist í yfirborðsvatn í grennd við æfingasvæði slökkviliða. Í sveitarfélaginu Ronneby var vatnsbóli lokað af þessum sökum, enda er efnið talið vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi og geta valdið lifrarbilun. PFOS hefur einnig fundist í fiski í stöðuvötnum í kringum Stokkhólm, og var styrkur efnisins í mörgum tilfellum langt yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins. Efnið brotnar ekki niður í fiskum og í mönnum er helmingunartími um 8 ár.
(Sjá frétt á heimasíðu IVL 17. febrúar).
Með mengun í blóðinu
Í rannsókn sem gerð var nýlega á fjórum ungum konum sem þekktar eru úr sviðsljósi norskra fjölmiðla kom í ljós að allar höfðu þær nokkurt magn mengunarefna í blóðinu. Rannsóknin var gerð í samvinnu við Svaninn og tímaritið Cygnus. Þó að styrkur efnanna hafi í flestum tilvikum verið lágur, vekur þetta upp spurningar um hugsanleg áhrif, þ.á.m. samverkandi áhrif til langs tíma. Vaxandi magn ýmissa mengunarefna í blóði fólks kann m.a. að stuðla að minnkandi frjósemi og aukinni tíðni ofnæmis og krabbameins. Mörg þessara efna safnast upp í líkamanum á langri ævi og skila sér auk þess til ungbarna með móðurmjólkinni. Ekki er auðvelt að greina uppruna efnanna, en þau getur m.a. verið að finna í vörum sem fólk notar þegar það þvær hendur sínar og hár, farðar sig eða burstar tennur.
(Sjá frétt í Dagbladet 23. nóvember).