Tengiltvinnbílar fá falleinkun í nýrri rannsókn

Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).

Noregur: 3% samdráttur milli ára í losun GHL

Árið 2019 nam losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) í Noregi samtals 51 milljón tonna CO2ígilda og hafði þá dregist saman um 3% frá árinu 2018. Mestu munar um 7% samdrátt í losun frá samgöngum á landi vegna minnkandi sölu á bensíni og dísli og vegna aukinnar íblöndunar lífeldsneytis í þessar vörur. Losun vegna flugsamgangna minnkaði um 6% milli ára og um 4% í sjóflutningum. Þá minnkaði losun frá olíu- og gasvinnslu um 2% vegna minni framleiðslu. Heildarlosunin hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 2007 og fara þarf aftur til ársins 1993 til að finna jafnlága heildartölu og 2019. Frá 1990 hefur losunin minnkað um 2%.
(Sjá fréttatilkynningu norsku hagstofunnar 2. nóvember).

Bresk fyrirtæki og samtök þrýsta á stjórnvöld að móta mínuslosunarstefnu

Bresku bændasamtökin (NFU), Heathrow flugvöllur og fleiri aðilar hafa tekið höndum saman um að þrýsta á ríkisstjórn Bretlands að móta skýra stefnu um föngun kolefnis og aðrar aðgerðir til að ná fram neikvæðri losun gróðurhúsalofttegunda. Hópurinn bendir á að móta þurfi slíka stefnu strax til að tími gefist til að þróa tækni sem beita má í þessu skyni, með sérstakri áherslu á þær atvinnugreinar þar sem losun er mest. Skjót viðbrögð í þessa átt séu forsenda þess að Bretland geti náð markmiði sínu um kolefnishlutleysi. Góð viðleitni til að draga úr losun frá flugi, stóriðju, landbúnaði o.s.frv. muni ekki duga ein og sér, og því séu mínuslosunarverkefni óhjákvæmilegur hluti þeirra aðgerða sem grípa þurfi til. Um leið snúist málið um samkeppnishæfni Bretlands og virkjun tækifæra sem liggja í nýsköpun á þessu sviði.
(Sjá frétt Business Green 12. október).

Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030

Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).

Ný nanótækni breytir koldíoxíði í etýlen

Vísindamenn í Los Angeles hafa þróað sérstaka nanóvíra úr kopar sem nýtast sem hvatar í efnahvarfi sem breytir koldíoxíði í etýlen. Etýlen hefur hingað til verið framleitt úr jarðefnaeldsneyti, en efnið er m.a. notað í framleiðslu á plasti. Notkun nanóvíra úr kopar í þessu skyni er ekki ný uppfinning, en með breyttri lögun og áferð víranna hefur tekist að auka nýtingarhlutfallið úr 10% í 70%, auk þess sem minna myndast af aukaefnum á borð við vetni og metan. Aðferðin kann því að nýtast til að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og breyta því í verðmæta vöru.
(Sjá frétt Science Daily 17. september).

Gróðurhúsalofttegund breytt í fljótandi eldsneyti

Vísindamönnum við Rice háskólann hefur tekist að nota raforku til að breyta koldíoxíði í maurasýru í hvarftanki án þess að nota saltlausn og þar með án þess að þurfa að fara í gegnum orkufrekt og kostnaðarsamt hreinsunarferli. Sýruna er síðan hægt að nota sem hráefni eða breyta henni aftur í rafmagn í efnahverflum, rétt eins og nú er gert með vetni. Maurasýran hefur það fram yfir vetnið að geta geymt 1.000 sinnum meiri orku í sama rúmmáli. Vissulega losnar koldíoxíð þegar sýran er klofin á nýjan leik en það koldíoxíð er hægt að nýta aftur og aftur. Sé endurnýjanleg raforka notuð í ferlinu getur ávinningurinn verið verulegur í samanburði við þær aðferðir sem beitt hefur verið hingað til. Orkunýtingarhlutfallið í hvarftankinum er um 42% sem þýðir að 42% af raforkunni sem notuð er í ferlinu skilar sér í nýtanlegri orku í maurasýrunni. Nýjungin í þessu byggir á tvennu; annars vegar að nota bismút (Bi) sem hvata og hins vegar að þróa raflausn í föstu formi í stað saltlausnar.
(Sjá frétt Science Daily 3. september).

Þang til að minnka metanlosun frá mjólkurkúm

Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).

Bandaríkin tapa mest á loftslagsbreytingum

Vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu hafa fyrstir manna skipt áætluðum kostnaði samfélagsins vegna loftslagsbreytinga („social cost of carbon“ (SCC)) niður á einstök þjóðlönd. Niðurstaðan er sú að kostnaður Bandaríkjanna verði mestur, eða um 250 milljarðar dollara á ári (um 28.000 milljarðar ísl. kr.). Kostnaður á hvert tonn sem losað er í Bandaríkjunum verður um 50 dollarar, sem er hærra en miðað hefur verið við í flestum greiningum hingað til (12-62 dollarar á tonn). Kostnaður á hvert tonn á heimsvísu verður þó miklu hærri samkvæmt útreikningum vísindamannanna eða 180-800 dollarar. Indland og Sádí-Arabía eru næst Bandaríkjanum hvað varðar heildarkostnað, en Evrópusambandið sleppur mun betur. Vísindamennirnir draga þá ályktun af niðurstöðum sínum að stjórnvöld í ríkjum heims hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og að þær þjóðir sem munu bera stærstan hluta kostnaðarins hljóti að verða að sýna meira frumkvæði en þær hafa gert.
(Sjá frétt Science Daily 24. september).

Nýtt eldsneyti hjá Virgin Atlantic

Í næsta mánuði mun Boing 747 vél frá flugfélaginu Virgin Atlantic fljúga með farþega frá Orlando í Flórída til Gatwick-flugvallar við London á eldsneyti sem framleitt er úr kolefnisríku afgasi frá stálverksmiðjum. Framleiðsla eldsneytisins er árangur 7 ára þróunarstarfs LanzaTech í samvinnu við Virgin Airline. Þegar þessu eldsneyti er brennt sleppur um 70% minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en við brennslu á hefðbundnu flugvélaeldsneyti, þar sem kolefnið sem um ræðir hefði að öðrum kosti sloppið beint út frá stálverksmiðjunum. Framleiðsla eldsneytisins er auk heldur hvorki í samkeppni við fæðuframleiðslu né aðra landnotkun. Að mati LanzaTech væri hægt að framleiða eldsneyti af þessu tagi við 65% af öllum stálverksmiðjum í heimi og afurðirnar myndu duga til að knýja einn fimmta af allri flugumferð á samkeppnishæfu verði.
(Sjá frétt Green Air Online 14. september).

E. coli nýtt til að binda kolefni

Vísindamenn við háskólann í Dundee í Skotlandi hafa komist að því að hinn algengi saurgerill E. coli getur breytt koltvísýringi úr andrúmsloftinu í maurasýru. Við súrefnissnauðar aðstæður myndar bakterían svonefnt FHL-ensím sem gerir þetta efnahvarf mögulegt. Þetta ferli gengur afar hægt fyrir sig við venjulegar aðstæður en sé bakterían sett í blöndu af koltvísýringi og vetni við 10 loftþyngda þrýsting hvarfast allur tiltækur koltvísýringur í maurasýru á skömmum tíma. Þessi uppgötvun kann að opna nýjar leiðir í kolefnisbindingu, enda er maurasýra vökvi sem auðvelt er að geyma og er auk þess nýtanlegur á ýmsan hátt.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Dundee 8. janúar).