Vísindamenn við háskólann í Portsmouth í Englandi hafa búið til nýtt ensím sem getur brotið niður plastflöskur á nokkrum dögum. Þetta var gert með því að tengja saman tvö ensím úr bakteríu sem japanskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2016. Þessi baktería nærðist á plasti og gat brotið það niður á u.þ.b. 6 vikum. Með því að tengja þessi tvö ensím saman fer niðurbrotstími pólýetýlenplasts (PET) hins vegar niður í nokkra daga. Vísindamennirnir í Portsmouth gera sér vonir um að hægt verði að nýta uppgötvun þeirra í endurvinnsluiðnaði innan tveggja ára og benda jafnframt á að þetta sé enn eitt dæmið um mikilvægi þess að vinna með náttúrunni að lausnum á vandamálum samtímans.
(Sjá frétt PlanetArk 7. október).
Greinasafn fyrir flokkinn: Úrgangur
Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum
Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Matarsóun í verslunum meiri en talið var
Ný rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Svíþjóðar (Naturvårdsverket) bendir til að matarsóun í verslunum sé mun meiri en áður var talið. Áætlað er að matarsóun í matvöruverslunum í Svíþjóð hafi numið um 100.000 tonnum á árinu 2018, en það samsvarar um 10 kg. á hvern íbúa landsins. Þetta nýja mat byggir á tölum frá samtökum verslana, en fyrri rannsóknir hafa byggt á úrgangstölum sveitarfélaga, fyrirtækjaskrá og stikkprufum. Magn matarúrgangs frá heimilum virðist hins vegar hafa minnkað nokkuð, þ.e. úr 100 kg. á íbúa 2014 niður í 95 kg. 2018. Þar af er áætlað að 45 kg. á íbúa hafi verið ætur matur, þ.e. eiginleg matarsóun.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 20. febrúar).
Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla
Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).
Ný aðferð við endurvinnslu á plasti
Vísindamenn við háskólana í Bath og Birmingham hafa þróað nýja aðferð til að endurvinna plast. Með aðferðinni er mögulegt að brjóta plastið niður í grunnsameindir sínar, sem síðan er hægt að breyta í nýtt plast af sömu gerð og í sömu gæðum og upphaflega plastið. Hingað til hefur endurvinnsla á plasti byggst á því að tæta plastið og bræða það en við það breytist eðli þess og efnasamsetning. Nýja aðferðin krefst minni orku og minna magns af skaðlegum efnahvötum en fyrri aðferðir og með henni er fræðilega séð hægt að endurvinna sama plastið aftur og aftur.
(Lesið frétt á heimasíðu Háskólans í Bath 30. janúar).
Úrgangi breytt í verðmætt grafen
Vísindamenn við Rice háskólann hafa fundið leið til að breyta hvaða kolefnisríka úrgangi sem er í grafen með eldsnöggri hitun í hvarftanki upp í rúmlega 2.700°C. Afurðin kallast „blossagrafen“ (e. flash graphene) og hefur m.a. þann kost að auðvelt er að aðskilja grafenlögin og fá þannig grafennet sem er aðeins ein sameind á þykkt. Efnið er firnasterkt og getur m.a. nýst sem styrktarefni í steinsteypu. Að sögn vísindamannanna þarf ekki nema 0,1% af grafeni í steypuna til að minnka kolefnisspor hennar um þriðjung, þar sem með þessu minnkar verulega þörfin fyrir framleiðslu og flutning á sementi. Sementframleiðsla orsakar nú um 8% af allri koldíoxíðlosun af mannavöldum í heiminum. Blossagrafenið er mun ódýrara en það grafen sem nú þekkist. Orkutap frá framleiðslunni er óverulegt þar sem varmaorkan binst nær öll í efninu. Önnur efni en kolefni losna frá hvarftankinum í loftkenndu formi og þau efni, þ.m.t. súefni og köfnunarefni, má auðveldlega fanga og jafnvel nýta.
(Sjá frétt ScienceDaily 27. janúar).
Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust
Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).
Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti
Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).
Baktería sem brýtur niður PFAS
Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).
Örplast heftir vöxt ánamaðka
Örplast í jarðvegi heftir vöxt ánamaðka og leiðir þannig líklega til minni framleiðni viðkomandi vistkerfis. Þetta kemur fram í rannsókn breskra vísindamanna sem birt verður í tímaritinu Environmental Science & Technology. Í rannsókninni var borinn saman vaxtarhraði ánamaðka sem lifðu í mold sem innihélt örplast (HDPE-agnir) og orma sem lifðu í mold án plastagna. Þar sem örplastið var til staðar léttust maðkarnir að meðaltali um 3,1% á 30 daga tímabili, en hinir maðkarnir þyngdust að meðaltali um 5,1% á sama tíma. Ekki er fullljóst hvernig örplastið hefur þessi áhrif en höfundar rannsóknarinnar telja líklegt að plastið trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi og leiði þannig til þyngdartaps. Leiða má að því getum að þetta hafi keðjuverkandi áhrif í vistkerfinu, þar sem maðkarnir gegna mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna og í loftun jarðvegs.
(Sjá frétt Science Daily 11. september).