Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: Miljøstyrelsen
Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla
Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).
Vel heppnuð endurvinnsla á frauðplasti
Danir hafa fundið færa leið til að endurvinna frauðplast (blásið pólýstýren (EPS)). Þetta er afrakstur tilraunaverkefnis sem staðið hefur í nokkurn tíma á gámastöð í Tårnby í útjaðri Kaupmannahafnar. Þar hefur verið þróaður og settur upp pressugámur sem pressar loftið úr plastinu og minnkar umfang þess, þannig að 6 tonn af frauðplasti sem áður fylltu 46 vörubíla komast nú á einn vörubíl. Plastið er síðan hitað og meðhöndlað með efnum og unnar úr því pólýstýrenperlur sem nýtast í framleiðslu á nýju frauðplasti af svipuðum gæðum og upphaflega plastið. Fyrir hvert tonn af plasti sem endurunnið er með þessum hætti minnkar losun koldíoxíðs um 1,75 tonn.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur 17. september).
Örplast verði hreinsað úr frárennsli þvottahúsa
Umhverfis- og matvælaráðuneyti Danmerkur (Miljø- og Fødevareministeriet) hefur veitt styrk úr svonefndri MUDP-áætlun til að þróa aðferð til að hreinsa örplast úr frárennsli þvottahúsa. Verkefnið verður unnið í samvinnu við mottuþvottahúsið Berendsen Textil Service í Karup, en þar eru á hverjum degi þvegin um 50 tonn af gólfmottum úr stofnunum og fyrirtækjum. Samkvæmt skýrslu frá Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) koma um 2% af því örplasti sem fyrirfinnst í dönsku fráveituvatni frá þvottahúsum og í hvert skipti sem mottur eru þvegnar skolast út drjúgir skammtar af örplasti úr ryki, skósólum og úr mottunum sjálfum. Styrkurinn frá MUDP nemur tæplega milljón danskra króna (um 15 millj. ísl. kr.) og standa vonir til að verkefnið leiði af sér aðferð sem dugar til að ná 80% af plastögnunum sem annars myndu skolast út.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. febrúar).
Ný aðferð til að mæla örplast í drykkjarvatni
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) fékk nýlega Háskólann í Árósum til að þróa nýja aðferð til að taka sýni úr drykkjarvatni til greiningar á fjölda örplastagna. Mælingar sem gerðar voru sl. haust bentu til að verulegt magn örplasts væri að finna í dönsku drykkjarvatni, en mikil óvissa í mælingunum var talin veikja niðurstöðurnar. Þannig þótti ekki tryggt að utanaðkomandi mengun, t.d. úr lofti, hefði ekki spillt sýnunum. Aðferð Háskólans í Árósum gengur út á sýnatöku í lokuðu kerfi sem ætti að útiloka ytri mengunarþætti. Fyrstu prófanir með nýja búnaðinum benda til að örplastmengun í drykkjarvatni sé mun minni en fyrri mælingar gáfu vísbendingar um. Þannig fannst aðeins ein örplastögn í þremur 50 lítra sýnum sem skoðuð voru í tilraunaskyni. Ætlunin er að prófa búnaðinn með mun víðtækari rannsóknum á næstunni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa
Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).
Danskir neytendur hugsa grænt
Um 60% danskra neytenda taka mið af umhverfismerkjum þegar þeir kaupa vörur. Vörur sem merktar eru t.d. með Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB eða danska Ø-merkinu fyrir lífræna framleiðslu eiga því greiðari leið ofan í innkaupakörfurnar en aðrar vörur. Þetta á sérstaklega við um vörur til daglegra nota, svo sem matvörur, hreinsivörur og húðvörur, en hins vegar virðast umhverfisþættir ekki vega eins þungt við innkaup á heimilistækjum og húsgögnum. Þar eru neytendur e.t.v. ekki orðnir eins vanir því að vörurnar fáist umhverfismerktar.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 19. september).
Nýtt námsefni um hættuleg efni
Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur látið útbúa nýtt námsefni sem ætlað er að auðvelda nemendur 2.-6. bekkjar grunnskóla að kynna sér varúðarmerkingar á hættulegum efnum, skilja hvers vegna efnin eru hættuleg og læra hvernig hægt sé að verja sig gegn þessum hættum. Námsefnið nefnist „Húsið hennar Hönnu – og hinar leyndu hættur“ og er öllum aðgengilegt á netinu, án aðgangsorðs.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 18. september).
Flokkun lífræns úrgangs komin í tísku
Níu af hverjum tíu Dönum sem eiga þess kost að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi sem til fellur á heimilinu eru ánægðir með fyrirkomulagið samkvæmt niðurstöðum könnunar Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Enn hafa aðeins um 30% þjóðarinnar aðstöðu til slíkrar flokkunar en um helmingur hinna 70 prósentanna segist gjarnan vilja hafa þennan möguleika. Aðeins um 15% segja flokkun úrgangs vera erfiða og um 3% vilja hafa færri flokkunarmöguleika en þeir hafa í í dag. Lífrænn heimilisúrgangur er rúmlega 40% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Kaupmannahöfn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. september).
Vökvað með skólpi á Samsø
Á dönsku eyjunni Samsø er verið að gera tilraun með að nýta fráveituvatn til vökvunar. Venjulega leiðin í þessu er að vinna köfnunarefni og fosfór úr vatninu áður en því er sleppt út í viðtaka og nýta þessi efni síðan í áburðarframleiðslu af einhverju tagi. Nýjungin sem hér um ræðir felst í að nota fráveituvatnið beinlínis sem áburð en fyrst eru þó hreinsuð úr því hættuleg efni. Með þessu sparast orka sem annars fer í fyrsta lagi í að ná næringarefnunum úr vatninu og í öðru lagi í að framleiða áburð úr þeim. Fyrst um sinn verður þetta vatn aðeins notað á tún og önnur svæði sem ekki eru nýtt beint í matvælaframleiðslu, en í framtíðinni standa vonir til að hægt verði að útvíkka notkunina. Hópur sem nefnir sig Minor Change Group stendur að verkefninu með stuðningi Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. ágúst).