Metvöxtur í endurnýjanlegri orku

Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum

Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).

Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann

Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).