Þýsk stjórnvöld íhuga að taka upp gjaldfrjálsar almenningssamgöngur að því er fram kemur í bréfi sem Barbara Hendricks, umhverfisráðherra Þýskalands, og tveir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn landsins sendu til Karmenu Vella, umhverfisstjóra ESB, í síðustu viku. Til að byrja með er ætlunin að prófa þetta fyrirkomulag í fimm borgum í Þýskalandi. Þessi áform eru hluti af úrbótaáætlun sem þýsk stjórnvöld leggja fram að kröfu ESB, en Þýskaland var eitt af níu ríkjum sambandsins sem ekki tókst að draga nægjanlega úr mengun af völdum köfnunarefnissambanda og svifryks áður en frestur til þess rann út 30. janúar sl. Talið er að loftmengun í borgum Evrópu verði 400.000 manns að aldurtila á hverju ári og kosti heilbrigðiskerfi sambandslandanna árlega um 20 milljarða evra (um 2.500 milljarða ísl. kr.).
(Sjá frétt The Guardian 14. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: almenningssamgöngur
Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann
Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).
Eru kaffidrifnir strætisvagnar framtíðin?
Olía sem unnin er úr kaffikorgi er nú notuð á nokkra strætisvagna í London. Á hverjum degi eru drukknir um 55 milljón bollar af kaffi í Bretlandi og samtals falla þar til um 200.000 tonn af kaffikorgi á ári. Fyrirtækið Bio-bean safnar korgi og vinnur úr honum olíu sem síðan er blandað í venjulega dísilolíu í hlutföllunum 20/80 (B20-lífdísill). Engar breytingar þarf að gera á olíuverki strætisvagnanna til að þeir geti nýtt þetta eldsneyti. Lífdísill úr notaðri matarolíu og tólg hefur um nokkurt skeið verið notaður með þessum hætti í almenningsfarartækjum í London, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem kaffikorgur kemur að notum sem orkugjafi á þeim vettvangi.
(Sjá frétt BBC 19. nóvember).
Leigubílaöpp geta komið í stað einkabílsins
Sex af hverjum 10 íbúum Stokkhólms geta hugsað sér að hætta að eiga eigin bíl og treysta þess í stað á leigubílasmáforrit til að komast leiðar sinnar, að því er fram kemur í könnun sem fyrirtækið Uber stóð fyrir. Reyndar er þetta hlutfall enn hærra í nokkrum öðrum borgum Evrópu. Um 78% íbúa í Stokkhólmi vilja að bílum á götum borgarinnar fækki. Með því að nota almenningssamgöngur og sameinast um bíla, t.d. með hjálp smáforrita, gætu íbúar stytt biðraðir, bætt loftgæði og dregið úr þörf fyrir bílastæði.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).
Osló stefnir að helmingssamdrætti á fjórum árum
Borgaryfirvöld í Osló kynntu á dögunum „loftslagsfjárlög“ næstu ára þar sem fram kemur hvernig ná skuli losun gróðurhúsalofttegunda í borginni niður fyrir 600.000 tonn árið 2020 í samræmi við markmið sem borgin setti sér fyrr á þessu ári. Árið 2014 nam losunin 1,4 milljón tonna og er ekki vitað til að nokkur borg eða ríki hafi áður tekið svo róttæka ákvörðun um samdrátt í losun. Enn fremur er stefnt að því að Osló verði orðin kolefnishlutlaus árið 2030. Þessum skjóta árangri á m.a. að ná með því að hækka veggjöld á bíla sem aka inn í borgina, fækka bílastæðum, útrýma olíukyndingu á heimilum og skrifstofum, skipta út almenningsfarartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti og fjölga enn hjólreiðastígum. Nýlunda þykir að flétta aðgerðir til að draga úr losun inn í fjárhagsáætlun borga eins og gert er í Osló, en einn af aðstoðarborgarstjórum borgarinnar orðar það svo að „þau ætli að telja kolefni eins og aðrir telja peninga“. Ef markmiðið næst vonast borgaryfirvöld til að árangur Oslóar verði öðrum borgum hvatning.
(Sjá frétt PlanetArk 29. september).
Ekkert jarðefnaeldsneyti í almenningssamgöngum á Skáni
Þann 1. desember skiptu allir strætóar í Malmö úr jarðgasi yfir í lífgas, en aðgerðin var sú síðasta í röð verkefna sem miðuðu að því að ekkert jarðefnaeldsneyti yrði notað í almenningssamgöngum í bæjum á Skáni í árslok 2015. Allir innanbæjarstrætóar á Skáni keyra nú á lífgasi auk þess sem fimm sporvagnar í Landskrona ganga fyrir endurnýjanlegu rafmagni. Á Skáni er mikið framleitt af lífgasi í gas- og jarðgerðarstöðum. Jarðgas og lífgas er efnafræðilega sama efni (metan) og er dreift í sama dreifikerfi og því þurfa kaupendur upprunavottorð frá dreifingaraðila sem staðfestir að keypt hafi verið lífgas en ekki jarðgas. Óháður vottunaraðili gengur úr skugga um að dreifingaraðilar selji ekki sama vottorðið oftar en einu sinni. Næsta markmið er að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í almenningssamgöngum á milli sveitarfélaga. Þessu markmiði ætla Skánverjar að ná fyrir árið 2018.
(Sjá frétt Sydsvenskan í dag).
67% af almenningssamgöngum í Svíþjóð knúin með endurnýjanlegu eldsneyti
Hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í almenningssamgöngum í Svíþjóð er komið í 67% en árið 2006 var þetta hlutfall aðeins 6%. Á síðasta ári var hlutfallið 58%. Þá var Stokkhólmslén sá landshluti þar sem hlutfallið var hæst, en árið 2014 voru 85,7% af öllum kílómetrum í almenningssamgöngum á því svæði eknir á endurnýjanlegu eldsneyti. Lífdísill er langmest notaða endurnýjanlega eldsneytið, metan af endurnýjanlegum uppruna (lífgas) er víðast hvar í öðru sæti og í Stokkhólmi og víðar er einnig nokkuð notað af etanóli (ED95).
(Sjá frétt í Bussmagasinet í gær).
Volvo og Siemens byggja upp rafknúnar almenningssamgöngur
Stórfyrirtækin Volvo og Siemens hafa tekið upp samstarf á heimsvísu til að stuðla að rafvæðingu almenningssamgangna í borgum. Samkomulag fyrirtækjanna snýst um heildstæðar lausnir, þar sem Volvo sér um framleiðslu og sölu rafstrætisvagna og tvinnvagna en Siemens þróar og setur upp hraðhleðslustöðvar þar sem hægt verður að hlaða vagnana á aðeins 6 mínútum. Fyrirtækin sjá mikil sóknarfæri í samstarfinu, enda sé hagkvæmt fyrir yfirvöld að innviðir séu staðlaðir og að sömu aðilar komi að þróun strætisvagna og uppsetningu innviða. Borgaryfirvöld í Hamborg í Þýskalandi hafa nú þegar keypt þrjá tvinnvagna og fjórar hleðslustöðvar frá Volvo og Siemens og á næstunni verða sett upp rafvagnakerfi í Stokkhólmi og Gautaborg. Samtals hefur Volvo selt um 5.000 tvinn- og rafstrætisvagna síðan 2009.
(Sjá frétt á heimasíðu Siemens 29. janúar).