Þúsundir farfugla hafa fallið dauðir af himnum ofan í suðvesturríkjum Bandaríkjanna síðustu daga. Líklegt þykir að þetta tengist afbrigðilegu tíðarfari vegna loftslagsbreytinga, m.a. langvarandi þurrkum á mikilvægum viðkomustöðum fuglanna á leið sinni norðan frá Kanada og Alaska til suðlægari slóða. Þar hefur því e.t.v. ekki verið hægt að ná í þá fæðu sem fuglarnir þurfa til að ljúka flugferðinni. Þá kunna gróðureldar í Kaliforníu að hafa neytt þá til að breyta flugleiðinni, auk þess sem breyttar aðstæður vegna loftslagsbreytinga í sumarhögunum gætu hafa leitt til þess að ekki náðist að safna nægum forða fyrir flugið. Skammvinnt kuldakast þar norður frá gæti einnig hafa orðið til þess að fuglarnir lögðu fyrr af stað en ella, án þess að vera nægjanlega undir ferðalagið búnir. Flest þykir sem sagt benda til að fuglarnir hafi drepist úr hungri á fluginu, en reykur frá gróðureldum kann einnig að hafa haft áhrif. Fugladauði af þessu tagi er ekki alveg óþekktur, en umfangið virðist með allra mesta móti.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir merki: Bandaríkin
Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum
Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).
Klórpýrifos tekið úr sölu þrátt fyrir tilslökun Trump-stjórnarinnar
Bandaríski eiturefnaframleiðandinn Corteva tilkynnti í gær að framleiðslu á dýraeitrinu klórpýrifos verði hætt í lok þessa árs, þrátt fyrir að Trump-stjórnin hafi tilkynnt að ekkert verði af fyrirhuguðu banni við sölu efnisins í Bandaríkjunum. Corteva er stærsti framleiðandi efnisins í heiminum, en efnið hefur verið mikið notað í ræktun á maís, sojabaunum, hnetum, sítrusávöxtum, vínberjum o.fl. gegn skordýrum, ormum og öðrum dýrum sem litið er á sem meindýr í þessari ræktun. Klórpýrifos er taugaeitur sem rannsóknir benda til að geti haft alvarleg áhrif á heilsu barna, m.a. með því að trufla þroskun heilans. Ástæða þess að Corteva ætlar að hætta að framleiða efnið er einfaldlega sú að sala þess hefur dregist saman um 80% frá því sem var á árunum eftir 1990. Þeir sem berjast fyrir því að efnið verði bannað hyggjast halda baráttunni áfram þrátt fyrir ákvörðun Corteva, enda verður klórpýrifos frá öðrum framleiðendum áfram til sölu að óbreyttu.
(Sjá frétt The Guardian 6. febrúar).
Bandaríkin tapa mest á loftslagsbreytingum
Vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu hafa fyrstir manna skipt áætluðum kostnaði samfélagsins vegna loftslagsbreytinga („social cost of carbon“ (SCC)) niður á einstök þjóðlönd. Niðurstaðan er sú að kostnaður Bandaríkjanna verði mestur, eða um 250 milljarðar dollara á ári (um 28.000 milljarðar ísl. kr.). Kostnaður á hvert tonn sem losað er í Bandaríkjunum verður um 50 dollarar, sem er hærra en miðað hefur verið við í flestum greiningum hingað til (12-62 dollarar á tonn). Kostnaður á hvert tonn á heimsvísu verður þó miklu hærri samkvæmt útreikningum vísindamannanna eða 180-800 dollarar. Indland og Sádí-Arabía eru næst Bandaríkjanum hvað varðar heildarkostnað, en Evrópusambandið sleppur mun betur. Vísindamennirnir draga þá ályktun af niðurstöðum sínum að stjórnvöld í ríkjum heims hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og að þær þjóðir sem munu bera stærstan hluta kostnaðarins hljóti að verða að sýna meira frumkvæði en þær hafa gert.
(Sjá frétt Science Daily 24. september).
Býflugum fækkar vegna sveppaeiturs
Sveppaeitur sem dreift er á ræktað land virðist eiga stóran þátt í þeirri fækkun býflugna sem mikið hefur verið í umræðunni á síðustu misserum. Þetta kom í ljós í nýrri greiningu sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B. Niðurstöðurnar voru fengar með tölfræðilegri greiningu á niðurstöðum rannsókna frá 284 stöðum í Bandaríkjunum og samtals voru skoðuð áhrif 24 mismunandi þátta á afkomumöguleika fjögurra býflugnategunda. Meðal þessara þátta voru hnattstaða, hæð yfir sjó, gerð og ástand búsvæða, þéttleiki byggðar og notkun varnarefna. Það kom nokkuð á óvart að sveppaeitrið klóróþalóníl reyndist stærsti áhrifavaldurinn. Talið er líklegt að þetta stafi af því að eitrið drepi örverur í meltingarvegi býflugnanna og auki þannig líkur á þarmaveiki af völdum Nosema-sníkilsins. Áður var vitað að notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð hefur skaðað býflugnastofna. Býflugur og aðrir frjóberar sjá um að frjóvga um 75% allra matjurta í heiminum og því er fækkun þeirra mikið áhyggjuefni.
(Sjá frétt The Guardian 29. desember).
Opna bakteríur nýjar dyr?
Vísindamenn við bandaríska rannsóknarstofnun hafa uppgötvað þann sjaldgæfa eiginleika bakteríunnar Clostridium thermocellum að binda koltvísýring úr andrúmslofti á sama tíma og hún brýtur sellulósa (beðmi) niður í nýtanleg kolvetni. Þessi uppgötvun gæti opnað nýja möguleika í framleiðslu lífeldsneytis úr sellulósa og kolefni andrúmsloftsins.
(Sjá frétt Science Daily í dag)
Milljónir trjáa deyja vestanhafs
Á síðustu misserum hafa milljónir trjáa drepist í Bandaríkjunum. Trjádauðinn er ekki bundinn við einstök ríki, heldur hefur hans orðið vart víða um land. Ástæðurnar eru ólíkar, svo sem þurrkur, sjúkdómar, skordýr og skógareldar, en þær má í raun allar rekja til loftslagsbreytinga. Jafnvel elsta hvíta eikin í Bandaríkjunum gæti orðið þessum plágum að bráð, en eikin sú hefur staðið sem fastast í New Jersey í 600 ár og var búin að skjóta rótum áður en Kólumbus kom vestur um haf. Á Síerra Nevada svæðinu í Kaliforníu hafa 66 milljónir trjáa drepist síðan árið 2010, að því er talið er vegna þurrka og hraðrar útbreiðslu barrbjöllutegunda. Í norðurhluta Kaliforníu hefur sveppasjúkdómurinn „Sudden Oak Death“ náð talsverðri útbreiðslu í ýmsum trjátegundum, en sveppurinn þrífst best í bleytu. Í suðvesturríkjum Bandaríkjanna gætu öll sígræn barrtré verið horfin innan 100 ára að mati sumra sérfræðinga.
(Sjá frétt ENN í dag).
Græn svæði draga úr líkum á langvinnum veikindum
Grænn gróður í nærumhverfi fólks dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum á borð við sykursýki og háan blóðþrýsting ef marka má nýja lýðheilsurannsókn Háskólans í Miami. Í rannsókninni var farið yfir sjúkrasögu 250.000 einstaklinga 65 ára og eldri og niðurstöðurnar bornar saman við greiningu á gróðurfari út frá gervihnattamyndum NASA. Fram kom mikill munur á heilsufari eldri borgara á svæðum þar sem mikið var um gróður, en þar voru líkur á sykursýki 14% lægri en annars staðar, líkur á háþrýstingi 13% lægri og líkur á of hárri blóðfitu 10% lægri. Þessi munur er talinn stafa af meiri útiveru, líkamlegri áreynslu, meiri samskiptum og streitulosun, en gróður getur einnig haft kælandi áhrif og bætt loftgæði. Mestur munur var í tekjulágum hverfum, en þar hafði gróður enn meiri jákvæð áhrif á heilsuna. Niðurstöðurnar styrkja fyrri rannsóknir og eru til þess fallnar að ýta enn frekar undir áherslu á græn svæði í þéttbýlisskipulagi og til þess að hvetja stofnanir og aðra fasteignaeigendur til að gera ráð fyrir gróðri og grænum svæðum við nýbyggingar.
(Sjá frétt Science Daily 21. apríl).
Unglingar kæra ríkið fyrir að vernda þá ekki fyrir loftslagsbreytingum
Hópur unglinga í Oregon-ríki í Bandaríkjunum hefur höfðað mál gegn alríkisstjórninni fyrir að brjóta á réttindum þeirra til lífs, frelsis, eignarhalds og jafnréttis með því að aðhafast ekkert til að vernda þau fyrir áhrifum loftslagbreytinga. Héraðsdómur Oregon þarf nú að ákveða hvort unglingarnir verði fyrir skaða sem rekja megi til aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum og þ.a.l. hvort málið haldi áfram á næsta dómsstig. Málið er rekið af samtökunum Our Children’s Trust og er eitt margra slíkra sem höfðuð hafa verið víðsvegar í Bandaríkjunum að undanförnu. Lögfræðingur hópsins segir málið ekki einungis snúast um athafnaleysi heldur vinni stjórnvöld gagngert gegn hagsmunum barna, m.a. með því að gefa út leyfi til olíu- og gasvinnslu. Ólíklegt þykir að málið komist upp úr héraðsdómi en það þrýstir engu að síður á stjórnvöld að búa til og fylgja aðgerðaáætlun til að sporna við loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt the Guardian 10. mars).
Engin úrgangur urðaður frá brugghúsum MillerCoors
Bjórframleiðandinn MillerCoors, sem framleiðir m.a. Miller bjórinn, tilkynnti á dögunum að sá árangur hefði náðst að ekkert af þeim úrgangi sem fellur til í brugghúsum fyrirtækisins í Bandaríkjunum sé urðaður. Fyrirtækið ákvað árið 2009 að hefja aðgerðir til að minnka úrgang og hefur nú náð úrgangsmagninu niður um 89%. Á sama tíma hafa þau unnið að því að finna endurvinnslufarveg fyrir þann úrgang sem verður til í brugghúsunum og nú fara næstum 100% alls úrgangs í efnisendurvinnslu en lítill hluti er sendur í orkuvinnslu. Fyrirtækið mun nú leggja áherslu á að gera aðra hluta framleiðslukeðjunnar urðunarlausa til að draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins í heild.
(Sjá frétt CNBC 17. febrúar).