Hópur breskra vísindamanna hefur sýnt fram á að býflugur sem geta valið á milli hreinnar fæðu og fæðu sem er menguð af skordýraeitrinu neónikótínoíð virðast forðast eitrið í fyrstu en fara svo smám saman að taka eitraða fóðrið framyfir hitt. Þetta bendir til að flugurnar þrói með sér einhvers konar fíkn, sambærilega fíkn reykingamanna í nikótín í tóbaki, enda um skyld efni að ræða. Þetta gæti verið vísbending um að skordýraeitrið sé enn skaðlegra býflugum en áður var talið.
(Sjá frétt Guardian í gær).
Greinasafn fyrir merki: býflugur
Líkur á algjöru banni gegn notkun neónikótínoíða
Miklar líkur eru taldar á að skordýraeitur sem inniheldur neónikótínoíð verði alfarið bannað í löndum ESB í framhaldi af nýrri skýrslu sem virðist taka af öll tvímæli um stóran þátt þessari efna í hruni býflugnastofna, jafnt villtra sem í býflugnabúum. Takmarkað bann hefur verið í gildi frá 2013, en þá var bannað að nota þrjú tiltekin efni úr þessum flokki við ræktun á blómstrandi plöntun á borð við repju. Í nýrri skýrslu sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) gaf út í gær kemur fram að skaðleg áhrif á býflugur stafi ekki endilega beint af notkun efnanna á akra heldur af því að efnin berist þaðan í vatn og jarðveg og komist þannig í villtar blómplöntur. Býflugur og önnur skordýr eiga þátt í frævun um tveggja þriðjuhluta af öllum nytjaplöntum heimsins. Fram hafa komið fjölmargar vísbendingar um stóran þátt neónikótínoíða í fækkun býflugna, en hingað til hefur ekki náðst breið samstaða um algjört bann við notkun efnanna.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Býflugum fækkar vegna sveppaeiturs
Sveppaeitur sem dreift er á ræktað land virðist eiga stóran þátt í þeirri fækkun býflugna sem mikið hefur verið í umræðunni á síðustu misserum. Þetta kom í ljós í nýrri greiningu sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B. Niðurstöðurnar voru fengar með tölfræðilegri greiningu á niðurstöðum rannsókna frá 284 stöðum í Bandaríkjunum og samtals voru skoðuð áhrif 24 mismunandi þátta á afkomumöguleika fjögurra býflugnategunda. Meðal þessara þátta voru hnattstaða, hæð yfir sjó, gerð og ástand búsvæða, þéttleiki byggðar og notkun varnarefna. Það kom nokkuð á óvart að sveppaeitrið klóróþalóníl reyndist stærsti áhrifavaldurinn. Talið er líklegt að þetta stafi af því að eitrið drepi örverur í meltingarvegi býflugnanna og auki þannig líkur á þarmaveiki af völdum Nosema-sníkilsins. Áður var vitað að notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð hefur skaðað býflugnastofna. Býflugur og aðrir frjóberar sjá um að frjóvga um 75% allra matjurta í heiminum og því er fækkun þeirra mikið áhyggjuefni.
(Sjá frétt The Guardian 29. desember).
Fjöldi eiturefna, en ekki bara styrkur þeirra, tengdur við býflugnadauða
Hópur vísindamanna við Háskólann í Maryland hefur sýnt fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og fjölda eiturefna sem til staðar eru í búinu. Margar rannsóknir hafa áður bent til þess að tiltekin eiturefni valdi hruni í býflugnastofnum en samverkandi áhrif efnanna hafa ekki áður verið könnuð með þeim hætti sem gert var í þessari rannsókn. Svo virðist sem flugurnar missi hæfileikann til afeitrunar þegar fleiri efni bætast við, jafnvel þótt hvert efni um sig sé í mjög lágum styrk. Sérstaka athygli vakti að tiltekin sveppaeiturefni, sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir býflugur, virðast hafa mikið að segja í þessu sambandi.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).
Hvíta húsið til bjargar býflugum
Hvíta húsið gaf í dag út Landsáætlun um heilsueflingu býflugna og annarra frjóbera sem á að stuðla að endurheimt frjóberastofna í Bandaríkjunum. Áætlunin kemur út samhliða rannsóknaniðurstöðum sem sýna að býflugnabændur í Bandaríkjunum hafa á einu ári misst um 42% af býflugnabúum sínum. Býflugur, fuglar, leðurblökur og fiðrildi gegna lykilhlutverki í frævun ávaxta- og grænmetisplantna auk annarra plantna sem eru undirstaða fæðuöflunar. Verðmæti þeirrar vistkerfaþjónustu sem þessir frjóberar veita er áætlað um 15 milljarðar Bandaríkjadala á ári (um 2.000 milljarðar ísl. kr.). Landsáætlunin felur meðal annars í sér tillögur um hvernig best sé að endurheimta skóglendi eftir skógarelda, hvernig hanna skuli opinberar byggingar með heilbrigði frjóbera í huga og hvernig haga skuli verndun vegkanta sem eru mikilvæg búsvæði frjóbera. Þá er stefnt að því að endurheimta eða bæta tæplega 3 milljónir hektara af landi fyrir frjóbera á næstu 5 árum.
(Sjá frétt Washington Post í dag).
Fækkun frjóbera eykur líkur á vannæringu
Ef svo heldur sem horfir er hætta á að meira en helmingur fólks í þróunarlöndunum muni þjást af vannæringu og/eða sjúkdómum sem rekja má beint til fækkunar frjóbera. Í nýrri rannsókn háskólanna í Vermont og Harvard kom fram að áframhaldandi fækkun frjóbera, þ.á m. býflugna, stuðli að aukinni tíðni A-vítamínskorts í fátækustu ríkjum heims, sem aftur eykur líkur á malaríu og blindu. Um 40% af allri fæðuframleiðslu heimsins er háð frjóberum og því hefur fækkun þeirra í för með sér „falið hungur“, þ.e. skort á næringarefnum og snefilefnum.
(Sjá frétt ENN 27. janúar).
Enn skýrari tengsl milli skordýraeiturs og skyndidauða býflugnabúa
Ný rannsókn vísindamanna við Harvard Lýðheilsuháskólann styrkir fyrri vísbendingar um þátt neónikótínoíða í skyndidauða býflugnabúa (e. colony collapse disorder (CCD)). Á síðasta ári sýndi þessi sami hópur fram á fylgni milli notkunar skordýraeitursins imídaklópríð og skyndidauða býflugnabúa, en í ár var rannsóknin endurtekin með áherslu á klóþíanídín, en bæði efnin innihalda neónikótínoíð. Skyndidauði af völdum þessara efna virðist stafa af því að flugurnar yfirgefi hýði sitt á veturna og deyi úr kulda. Fyrri rannsóknir á tengslum skordýraeiturs og skyndidauða hafa bent til að há dánartíðni orsakist af minnkandi sýklamótstöðu, en í rannsókn Harvard kom fram að sýklamótstaða samanburðarhóps var sambærileg því sem gerðist í tilraunahópnum. Því þykir ljóst að neónikótínoíð hafi einnig önnur líffræðileg áhrif, ekki síst á taugakerfi flugnanna. Frá árinu 2006 hefur skyndidauði býflugnabúa orðið sífellt algengari. Býflugur gegna lykilhlutverki í vistkerfum jarðar og því afar brýnt að finna orsakir dauðans.
(Sjá frétt Science Daily 9. maí).
Býfluguvænn lífstíll
Áætlað er að um 12 af þeim 206 býflugna- og humlutegundum sem fundist hafa í Noregi séu ekki lengur til staðar í náttúrunni. Býflugur leika afar stórt hlutverk í vistkerfum jarðar með því að sjá um frævun plantna, en talið er að um 9,5% af landbúnaðarframleiðslu heimsins séu háð þessari þjónustu. Í ljósi þessa hafa Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) og Norska garðyrkjufélagið (Hageselskapet) hleypt af stokkunum átakinu „Suðandi garðar“ (n.summende hager), sem kynnt var í gær. Verkefnið hefur það að markmiði að sýna íbúum hverju þeir geti breytt til að bjarga býflugum. Birtir eru listar yfir býfluguvænar plöntur og runna, varað við notkun skordýraeiturs og sett fram ráð um það hvernig byggja megi upp býfluguhótel og hirða garða að öðru leyti þannig að þeir verði meira aðlaðandi fyrir skordýr. Verkefnið hefur sína eigin Fésbókarsíðu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í gær).
Dísilreykur gæti truflað býflugur
Efni í dísilreyk geta torveldað býflugum að greina blómalykt og þannig haft neikvæð áhrif á frævun plantna og þar með á fæðuöryggi jarðarbúa, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við háskólann í Southampton. Svo virðist sem köfnunarefnisoxíð (NOx) í reyknum eyði tileknum lyktarefnum þannig að þau verði ekki lengur merkjanleg. Áhrifin eru því væntanlega ekki bundin við dísilreyk, heldur má gera ráð fyrir að sama gildi um reyk frá annarri brennslu. Rannsóknin sem um ræðir var gerð á tilraunastofu, þannig að eftir er að sýna fram á að hið sama gildi úti í náttúrunni.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Neónikótínoíð bönnuð í ESB
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað í gær að banna notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð. Bannið kemur í framhaldi af áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) frá því í janúar þess efnið að efnið stefni býflugum í óásættanlega hættu. Ekki var meirihluti fyrir banninu í sérfræðinganefnd sambandsins um fæðukeðjur og heilsu dýra, en framkvæmdastjórnin vísaði þeirri niðurstöðu til sérstakrar áfrýjunarnefndar. Þar greiddu 15 þjóðir atkvæði með banni en 8 voru á móti. Þar sem þetta telst ekki nægur meirihluti var málinu vísað aftur til framkvæmdastjórnarinnar sem tilkynnti ákvörðun sína í gær eins og fyrr segir. Litið er á bannið sem tímamótasigur fyrir umhverfisverndarsamtök en að sama skapi mikinn ósigur fyrir framleiðendur og stjórnvöld þeirra landa sem beittu sér hvað harðast gegn banni. Þar var Bretland framarlega í flokki.
(Sjá frétt The Guardian í gær).