Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu

Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Einnota plastpokar bannaðir á Vanuatu

Ríkisstjórn Kyrrahafsríkisins Vanuatu hefur ákveðið að banna innflutning á einnota plastpokum og frauðplastílátum frá og með febrúarmánuði næstkomandi. Þetta er liður í að fylgja eftir stefnu stjórnvalda í málefnum hafsins, en Vanuatu er einmitt fyrsta Kyrrahafsríkið sem samþykkir slíka stefnu. Í framhaldinu er stefnt að því að banna einnig innflutning á plasthnífapörum og drykkjarrörum úr plasti.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).

„Oxo-degradable“ plast verði bannað

Rúmlega 150 samtök og fyrirtæki, þ.á.m. Marcs & Spencer, Unilever og Pepsi, hafa sameinast um áskorun Ellen MacArthur stofnunarinnar til stjórnvalda um heim allan að banna notkun á ildislífbrjótanlegu plasti (e. oxo-degradable plastics), í það minnsta þar til óháðir rannsakendur hafi sýnt fram á að umrætt plast brotni fyllilega niður við ólíkar aðstæður á nógu skömmum tíma til að koma í veg fyrir uppsöfnun plastagna í umhverfinu. Plast af þessu tagi er notað í vaxandi mæli í plastpoka og aðrar umbúðir, en vísbendingar eru uppi um að staðhæfingar um niðurbrot þess eigi ekki við rök að styðjast. Að sögn talsmanns Ellen MacArthur stofnunarinnar er þetta efni hvorki endingargott né nothæft í endurvinnslu eða jarðgerð, og því eigi það ekki heima í hringrásarhagkerfinu. Þess má geta að ildislífbrjótanlegt plast hefur verið bannað í Frakklandi frá árinu 2015.
(Sjá frétt GreenBiz.com 7. nóvember).

Gjaldtaka af plastpokum stórminnkar notkun

Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).

Skilagjaldskerfi fyrir plastpoka

suw160Sænski frumkvöðullinn Suwar Mert hefur stofnað sprotafyrirtækið Pantapåsen sem starfrækja mun skilagjaldskerfi fyrir plastpoka. Kerfið á að virka þannig að verslanir leggi skilagjald á poka sem viðskiptavinir kaupa og að gjaldið fáist endurgreitt þegar pokanum er skilað, annað hvort í reiðufé, sem greiðsla inn á nýja vöru eða inn á smáforrit (app) í snjallsíma. Í framhaldinu verði einnig hægt að innleysa poka í sjálfvirkum stöðvum í matvöruverslunum o.þ.h. Suwar vonast til að sem flestar verslanir gerist aðilar að kerfinu, en viðbrögðin eiga eftir að koma í ljós. Tekjur fyrirtækisins eiga að koma frá sölu auglýsinga á annars ómerkta poka og frá sölu á plastinu sem safnast til endurvinnslu. Síðar á smáforritið einnig að skapa tekjur.
(Sjá frétt á Breakit.se 6. desember).

Gjald á plastpoka hefur margvísleg áhrif

4928Fimm pensa gjald (um 9 ísl. kr.) sem lagt var á plastpoka í breskum verslunum fyrir hálfu ári hefur haft margvísleg áhrif að því er fram kemur í nýrri samantekt The Guardian:
1. Plastpokanotkun í Bretlandi hefur dregist saman um 80% frá því að gjaldið var tekið upp.
2. Góðgerðarfélög í Bretlandi hafa hagnast mikið á gjaldinu.
3. Gjaldið hefur ekki haft áhrif á fjölda þjófnaða í verslunum.
4. Gjaldið hefur í einhverjum tilfellum leitt af sér slæma hegðun viðskiptavina svo sem stuld á kerrum, pokaþjófnað og að viðskiptavinir sniðgangi verslanir sem innheimta gjaldið.
5. Smásalar hafa fundið leiðir til að sleppa við gjaldið (sem er lögbundið), m.a. með því að klippa handföng af pokum þannig að þeir falli ekki undir lögin.
6. Ringulreið sem smásalar vöruðu við að verða myndi í kjölfar gjaldtökunnar hefur ekki gert vart við sig.
Sjá frétt the Guardian 6. apríl).

Þörungaplast kemur í stað umbúðaplasts

algae_plasticNýtt plastefni úr þörungum gæti komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum, en hópur hönnuða hefur unnið að þróun efnisins undanfarin ár. „Plastið“ er unnið úr hlaupkenndum agar sem finna má í rauðþörungum og hefur sama efni verið notað í læknavísindum. Hönnuðurnir vinna nú að frumgerð sem keppir til úrslita í Lexus Design hönnunarkeppninni og verður í framhaldi af því sýnd í hönnunarvikunni í Mílanó. Hugmyndin er að framleiða fyrst plastpoka og litlar plastumbúðir úr efninu, t.d. fyrir hótel. Efnið brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og hefur ekki áhrif á vistkerfi sjávar, auk þess sem niðurbrot þess í jörðu eykur vatnsheldni jarðvegs.
(Sjá frétt Plastics Today 15. mars).

Bestu burðarpokarnir eru þeir sem maður notar oftast

b6b7f6dee9d3b68b_800x800arUmhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru notaðir oftast, að því er fram kemur í nýrri úttekt Neytendafélags Stokkhólms (KfS). Þetta gildir um alla poka, hvort sem þeir eru gerðir úr plasti eða öðrum efnum. Bómullarpokar eru þannig ekki endilega bestir, enda er framleiðsla á bómull mjög frek á auðlindir. Slíkan poka þarf að nota mörghundruð sinnum til að hann komi betur út en lífplastpoki úr sykurreyr sem notaður er einu sinni. KfS mælir helst með pokum úr endurunnu pólýester, svo sem úr gosflöskum eða fatnaði. Slíkan poka þarf að nota 10-40 sinnum til að hann jafnist á við sykurreyrpokann. Þessir pokar eru efnislitlir og því auðvelt að brjóta þá saman og geyma í vasa eða veski. Þar með aukast líkurnar á að þeir séu notaðir aftur og aftur. Árlega nota Svíar um 1,3 milljarða burðarpoka úr plasti og um 60 milljónir poka úr öðrum efnum.
(Sjá fréttatilkynningu KfS 26. janúar).

70% minni plastpokasala í Wales eftir að gjaldtaka hófst

2216Í Wales hefur sala einnota burðarpoka úr plasti minnkað um 70% eftir að 5 pensa gjald (um 10 ísl. kr.) var lagt á pokana árið 2011. U.þ.b. þrír af hverjum fjórum neytendum eru ánægðir með gjaldtökuna og nær 90% verslunareigenda segja að hún haft jákvæð eða engin áhrif á viðskiptin. Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt hefur gjaldið gefið af sér um 20 milljónir sterlingspunda (um 4 milljarða ísl. kr.) sem runnið hafa til góðargerðarmála. Carl Sargeant, náttúruauðlindaráðherra Wales, segir að gjaldtakan hafi leitt til afgerandi breytinga á neyslumynstri fólks og haft mikilvæg jákvæð áhrif á umhverfið.
(Sjá frétt The Guardian 4. september).