Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir flokkinn: Orka
Suður-Ástralía keyrð á 100% sólarorku í fyrsta sinn
Síðastliðinn sunnudag var öll raforka sem notuð var í Suður-Ástralíu framleidd með sólarorku og hægt var að selja umframorku til Viktoríufylkis. Suður-Ástralía hefur verið leiðandi í nýtingu sólarorku, en þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan dugar til að sjá öllu fylkinu fyrir orku í heilan dag. Suður-Ástralía hefur einnig verið leiðandi í þróun rafgeyma sem taka við orku þegar framboð er meira en eftirspurn og gefa hana frá sér aftur þegar dæmið snýst við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Örsmá vindorkuver á teikniborðinu
Kínverskir vísindamenn hafa þróað búnað sem getur breytt vindorku í rafmagn, jafnvel þótt vindhraðinn sé ekki nema 1,6 m/sek. Um er að ræða hylki með tveimur plastborðum innan í, sem flaksast til í vindinum. Slík hylki gætu jafnvel framleitt rafmagn úr loftstraumum sem myndast þegar göngufólk sveiflar höndunum. Vonir standa til að hægt verði að nota búnað af þessu tagi til að knýja öryggismyndavélar, skynjara og jafnvel veðurstöðvar á afskekktum stöðum.
(Sjá frétt The Guardian 23. september).
Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar
Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).
Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum
Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).
Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku
Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).
Croissantbakstur lykillinn að orkugeymslum framtíðar?
Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa hugsanlega fundið nýja og afar árangursríka leið til að geyma orku í orkukerfum. Hugmyndin byggir á sömu aðferðum og notaðar eru við croissantbakstur, þar sem deigið er þjappað og flatt út í þunn lög. Vísindamennirnir beittu svipaðri aðferð til að búa til örþunna fjölliðuhúðaða torleiðaraþétta (e. dielectric capacitors), en slíkir þéttar hafa hingað til, auk venjulegra rafhlaðna og rafefnaþétta (e. electrochemical capacitors), verið eitt af þremur helstu tólunum til að geyma raforku. Nýjungin sem hér um ræðir byggir á að þjappa filmunni í þunn lög, en þannig reyndist mögulegt að geyma 30 sinnum meiri raforku en í bestu torleiðaraþéttum sem fengist hafa hingað til. Þéttar af þessu tagi henta einkar vel til að taka við raforku í óreglulegum skömmtum, svo sem frá sólar- og vindorkuverum, og skila henni mjög hratt út í kerfið á nýjan leik þegar orkuþörfin er meiri.
(Sjá frétt Science Daily 18. október).
Þvegið úr köldu vatni án þvottaefnis
Íbúar í stúdentablokkinni Tensta Torn í útjaðri Stokkhólms geta fljótlega þvegið fötin sín úr köldu vatni og án þess að nota þvottaefni. Þetta hefur reyndar alltaf verið hægt, en nýjungin í Tensta Torn felst í því að fötin verða a.m.k. jafnhrein og eftir venjulegan þvott. Sænska fyrirtækið Swatap hefur fengið einkarétt á þessari nýrri tækni, sem kallast DIRO og byggir á því að áður en þvottavatnið streymir í þvottavélina er það leitt í gegnum kolasíur, bakteríur og veirur eru fjarlægðar með öfugri osmósu og vatnið síðan afjónað þannig að það innihaldi fyrirfram ákveðið magn vetnis- og hýdróxíðjóna. Með þessari nýju tækni ætti að vera hægt að spara talsverða orku, þvottaefniskaup og viðhald á þvottavélum, auk þess sem minni þvottaefnisnotkun stuðlar að bættri heilsu. Þvottahúsið í Tensta Torn verður tekið í notkun 19. september nk. og mun þá jafnframt nýtast sem sýningarrými fyrir þá sem vilja kynna sér málið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. ágúst).
Svartur kísill gæti lækkað verð á sólarskjöldum um 10%
Joshua Pearce, prófessor við Tækniháskólann í Michigan, hefur fundið leið til nota þurrætingu við framleiðslu á svörtum kísil í sólarsellur, sem skilar sér í 10% lækkun framleiðslukostnaðar á hverja orkueiningu. Þessi svarti kísill er reyndar nær fjórðungi dýrari í framleiðslu en hefðbundnari blár kísill, en hann nær að fanga sólarorkuna mun betur og auka þannig hagkvæmnina. Framleiðsla á sólarorku er þú þegar á pari við aðra endurnýjanlega orku hvað hagkvæmni varðar og 10% lækkun framleiðslukostnaður myndi bæta stöðu greinarinnar enn frekar. Joshua Pearce telur með öllu útilokað að kolaorkuver geti keppt við sólarorkuver í náinni framtíð.
(Sjá frétt Science Daily 4. september).
Hvaðan sem vindurinn blæs!
Tveir MSc-stúdentar við Háskólann í Lancaster hafa þróað nýja gerð af vindmyllu sem getur nýtt vind úr hvaða átt sem er, lóðréttri sem láréttri. Þetta getur opnað möguleika á að nýta vindstrengi í borgum, t.d. við háhýsi, til raforkuframleiðslu. Um leið verður það fýsilegra en áður að framleiða raforku í smáum stíl, annað hvort til eigin nota eða til sölu inn á raforkunetið, t.d. með því að koma vindmyllum fyrir utan á byggingum þar sem uppstreymi eða niðurstreymi er mikið. Nýja vindmyllan, sem kallast „The O-Wind Turbine“ fékk nýlega bresku James Dyson nýsköpunarverðlaunin og í nóvember mun koma í ljós hvernig hugmyndinni reiðir af þegar alþjóðlegu James Dyson verðlaunin verða afhent. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 5 ár muni líða þar til O-myllan verður komin á markað.
(Sjá frétt The Guardian í dag).