Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku

Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).

Danir kaupa sífellt fleiri tegundir af lífrænum vörum

Danir hafa lengi keypt meira af lífrænt vottuðum vörum en aðrar þjóðir, sérstaklega vörum á borð við mjólk, egg, gulrætur og aðra ferskvöru. Nú virðist eftirspurnin hins vegar vera farin að ná til fleiri vöruflokka en áður, því að á nýliðnu ári varð gríðarleg aukning í sölu á unnum matvælum með lífræna vottun, svo sem ávaxtasafa, víni, ís, sælgæti og tilbúnum réttum. Söluaukningin í þessum vörutegundum nam allt frá 30% upp í nokkur hundruð prósent. Vísindamenn við háskólann í Árósum segja þessa þróun vera dæmi um svonefnd rúllustigaáhrif, sem lýsa sér í því að þegar neytendur eru einu sinni komnir á bragðið liggur leiðin aðeins upp á við. Hvatinn á bak við þessa öru þróun er m.a. talinn vera vilji neytenda til að forðast „E-efni“ sem ekki eru leyfð í lífrænni framleiðslu.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk landsforening 16. janúar).

Sjálfkeyrandi sendibíll dreifir vörum í verslanir

Verslunarkeðjan Lidl í Svíþjóð stefnir að því að taka rafknúinn sjálfkeyrandi sendibíl í notkun í Halmstad næsta haust. Um er að ræða tilraunaverkefni og er ætlunin að bíllinn (sem kallast T-pod) flytji vörur um 4 km leið frá vöruhúsi Lidl út í verslanir bæjarins. Samið hefur verið við fyrirtækið Einride um hina tæknilegu hlið verkefnisins. Bíllinn mun einkum verða á ferðinni á næturnar, en leið hans liggur m.a. um tvö hringtorg, tvennar krossgötur og eina hægri beygju. Starfsmenn vöruhússins fylla á bílinn í lok dags og síðan tæma starfsmenn verslunar bílinn morguninn eftir. Bíllinn verður búinn kæli- og frystitækjum og tekur u.þ.b. 15 vörubretti í hverri ferð. Fyrst um sinn verður aðeins farin ein ferð á sólarhring. Sótt verður um rekstrarleyfi til Samgöngustofu Svíþjóðar (Transportstyrelsen) í nóvember 2017.
(Sjá frétt TransportNytt 25. október).

Gjaldtaka af plastpokum stórminnkar notkun

Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).

Umbúðalaus verslun opnuð í Kaupmannahöfn

crate-895939-960-720Fyrsta umbúðalausa verslunin á Norðurlöndunum verður opnuð í Kaupmannahöfn á næstu vikum, en búðin er fjármögnuð með hópfjármögnun (e. crowdfunding). Hingað til hefur yfirleitt aðeins verið hægt að kaupa þurrvöru svo sem grjón, kornmeti o.þ.h. án umbúða, en nýja verslunin mun einnig selja vörur á borð við hunang, vín, sápu og matarolíu án umbúða. Viðskiptavinir taka þá margnotaumbúðir með sér að heiman eða taka þátt í skilagjaldskerfi búðarinnar þar sem þeir geta keypt flösku og skilað henni fyrir hreina flösku við næstu heimsókn. Árlega falla til um 156 kg af umbúðaúrgangi á hvern íbúa innan ESB og er markmið verslunarinnar að lækka þessa tölu. Um leið er gert ráð fyrir að matarsóun minnki með hentugri stærðareiningum, auk þess sem hægt verður að lækka kílóverð lífrænna vara með því að selja þær í stærri einingum.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Sainsbury’s hættir með „tveir-fyrir-einn“ tiboð

SainsburyRisaverslunarkeðjan Sainsbury’s hefur ákveðið að draga úr svokölluðum „tveir-fyrir-einn“ tilboðum og leggja þannig áherslu á almennt lægra vöruverð og minni sóun. Talsmenn keðjunnar segja að neysluvenjur fólks hafi breyst mikið og að viðskiptavinir kvarti nú yfir að slík tilboð hafi í för með sér mikla sóun á mat og drykk, þar sem þau hvetji til óhóflegrar neyslu og óþarfra innkaupa. Þá hafi tilboð af þessu tagi í för með sér vandamál á heimilum þar sem geymslupláss verður of lítið og úrgangsmagn eykst. Yfirvöld hafa sömuleiðis gagnrýnt slík tilboð, m.a. vegna þess að þau gilda oftar en ekki um vöruflokka sem innihalda mikinn sykur og eru því ógn við lýðheilsu. Hætt verður að mestu með þessi tilboð í verslunum Sainsbury’s í ágúst 2016.
(Sjá frétt the Guardian 11. febrúar).