Matarsóun í verslunum meiri en talið var

Ný rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Svíþjóðar (Naturvårdsverket) bendir til að matarsóun í verslunum sé mun meiri en áður var talið. Áætlað er að matarsóun í matvöruverslunum í Svíþjóð hafi numið um 100.000 tonnum á árinu 2018, en það samsvarar um 10 kg. á hvern íbúa landsins. Þetta nýja mat byggir á tölum frá samtökum verslana, en fyrri rannsóknir hafa byggt á úrgangstölum sveitarfélaga, fyrirtækjaskrá og stikkprufum. Magn matarúrgangs frá heimilum virðist hins vegar hafa minnkað nokkuð, þ.e. úr 100 kg. á íbúa 2014 niður í 95 kg. 2018. Þar af er áætlað að 45 kg. á íbúa hafi verið ætur matur, þ.e. eiginleg matarsóun.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 20. febrúar).

Oft góð eftir „Best fyrir“

Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)

Breskar samlokur hafa stærra kolefnisspor en 8 milljón bílar

Árlega sporðrenna Bretar um 11,5 milljörðum samloka og losa með því um 9,5 milljón tonn af koltvísýringsígildum út í andrúmsloftið, að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Sustainable Production and Consumption. Þetta samsvarar losun frá 8,6 milljónum bíla. Stærsta kolefnissporið í rannsókninni átti samloka með eggi, beikoni og pylsu, eða 1,44 kg. Það jafngildir því að bíl sé ekið u.þ.b. 19 km. Samloka með eggi og kirsi kom best út í flokki búðarsamloka með 0,74 kg. Kolefnisspor heimagerðra samloka er yfirleitt mun minna. Framleiðsla og úrvinnsla áleggs reyndist eiga stærstan þátt í kolefnisspori búðarsamloka, eða um 37-67%, umbúðir orsökuðu um 8,5% og flutningur og kæling um 4%. Kæligeymslur verslana geta átt allt að 25% hlutdeild í heildarsporinu. Höfundar rannsóknarinnar benda á að með breytingum á uppskriftum, umbúðum og úrgangsmeðhöndlun megi draga úr losun um u.þ.b. helming og að hægt væri að minnka matarsóun um meira en 2.000 tonn á ári með því að lengja endingartímann.
(Sjá frétt Independent 25. janúar).

Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Matarsóun fer heldur vaxandi

6048-160x96Á árinu 2015 var 4,4 milljónum tonna af ætilegum matvörum hent á breskum heimilum samkvæmt nýjum tölum frá WRAP (Waste and Resources Action Programme). Árið 2012 var þessi tala 4,2 milljónir tonna, sem þýðir að lítið hefur áunnist á allra síðustu árum þrátt fyrir margs konar viðleitni til að bæta úr. Á árunum 2007-2012 minnkaði þessi sóun hins vegar um 21%. Matarsóunin 2015 jafngildir því að hvert breskt heimili hafi hent ætilegum mat fyrir 470 sterlingspund (rúmlega 65 þús. ísl. kr.). Þegar horft er á allan lífsferill matvörunnar sluppu samtals um 19 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið vegna þessarar sóunar, en það jafngildir um fjórðungi allrar losunar frá bílaumferð í Bretlandi. Athygli vekur að árangur í viðleitninni til að draga úr matarsóun er svæðisbundinn. Þannig hefur dregið töluvert úr matarsóun í Wales á sama tíma og stöðnun hefur orðið á öðrum landssvæðum. Þarna kann að skipta máli hvaða aðferðum er beitt.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Umbúðalaus verslun opnuð í Kaupmannahöfn

crate-895939-960-720Fyrsta umbúðalausa verslunin á Norðurlöndunum verður opnuð í Kaupmannahöfn á næstu vikum, en búðin er fjármögnuð með hópfjármögnun (e. crowdfunding). Hingað til hefur yfirleitt aðeins verið hægt að kaupa þurrvöru svo sem grjón, kornmeti o.þ.h. án umbúða, en nýja verslunin mun einnig selja vörur á borð við hunang, vín, sápu og matarolíu án umbúða. Viðskiptavinir taka þá margnotaumbúðir með sér að heiman eða taka þátt í skilagjaldskerfi búðarinnar þar sem þeir geta keypt flösku og skilað henni fyrir hreina flösku við næstu heimsókn. Árlega falla til um 156 kg af umbúðaúrgangi á hvern íbúa innan ESB og er markmið verslunarinnar að lækka þessa tölu. Um leið er gert ráð fyrir að matarsóun minnki með hentugri stærðareiningum, auk þess sem hægt verður að lækka kílóverð lífrænna vara með því að selja þær í stærri einingum.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Ýmsar leiðir færar til að draga úr matarsóun

LífræntDKBetri umbúðahönnun, litakóðar fyrir réttar geymsluaðferðir og nýting „ljótra“ matvæla í stóreldhúsum eru meðal þeirra aðgerða sem stungið er upp á í þremur nýjum skýrslum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) um matarsóun. Í skýrslunum er lögð áhersla á að matarsóun á sér stað á öllum stigum lífsferils matvöru og því henti mismunandi aðgerðir mismunandi aðilum (framleiðendum, heildsölum, veitingahúsum, heimilum o.s.frv.). Í sérstakri skýrslu um umbúðir er bent á hvernig umbúðir fyrir brauð, grænmeti og ávexti geta haft áhrif á matarsóun og kynntar 23 hugmyndir að hentugri umbúðum. Í annarri skýrslu eru kynntar niðurstöður rannsóknar á hagkvæmni þess að nota „ljót“ matvæli í veitingahúsum og stóreldhúsum. Síðasta skýrslan inniheldur niðurstöður rannsóknar á litakóðum fyrir geymsluaðferðir en samkvæmt þeim geta litakóðar auðveldað neytendum að velja réttar geymsluaðferðir og draga þannig úr sóun.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 11. apríl).

Páskafrí

12419331_1017950501607791_8157701367153057304_oUmhverfisfróðleikssíðan 2020.is er í páskafríi. Næsti fróðleiksmoli birtist á síðunni þriðjudaginn 29. mars 2016. Upplagt er að nýta tímann þangað til til að lesa eldri fróðleiksmola. Jafnframt er ærin ástæða til að forðast matarsóun um páskana. Gleðilega hátíð!

Sainsbury’s hættir með „tveir-fyrir-einn“ tiboð

SainsburyRisaverslunarkeðjan Sainsbury’s hefur ákveðið að draga úr svokölluðum „tveir-fyrir-einn“ tilboðum og leggja þannig áherslu á almennt lægra vöruverð og minni sóun. Talsmenn keðjunnar segja að neysluvenjur fólks hafi breyst mikið og að viðskiptavinir kvarti nú yfir að slík tilboð hafi í för með sér mikla sóun á mat og drykk, þar sem þau hvetji til óhóflegrar neyslu og óþarfra innkaupa. Þá hafi tilboð af þessu tagi í för með sér vandamál á heimilum þar sem geymslupláss verður of lítið og úrgangsmagn eykst. Yfirvöld hafa sömuleiðis gagnrýnt slík tilboð, m.a. vegna þess að þau gilda oftar en ekki um vöruflokka sem innihalda mikinn sykur og eru því ógn við lýðheilsu. Hætt verður að mestu með þessi tilboð í verslunum Sainsbury’s í ágúst 2016.
(Sjá frétt the Guardian 11. febrúar).

Endurnýjanleg orka úr 15.000 tonnum af jólamat

Biogen-Xmas-food-waste (160x80)Meira en 15.000 tonn af matarafgöngum frá nýafstöðnum jólum voru nýtt af fyrirtækinu Biogen í Bretlandi til að framleiða hátíðlega endurnýjanlega orku, en magnið samsvarar þyngd 45 Boeing 747 flugvéla. Þar sem um 30% meira af matarúrgangi fellur til yfir hátíðarnar en á öðrum tímum ákvað fyrirtækið að haga málum þannig að hægt væri að nýta stærstan hluta úrgangsins til raforkuframleiðslu og framleiðslu á jarðvegsbæti. Þetta var m.a. gert með auknu samstarfi við stóra viðskiptavini á borð við sveitarfélög, smásala og veitingahúsakeðjur, en þar að auki unnu starfsmenn yfir jólin við að meðhöndla þann úrgang sem til féll. Með því að nýta úrganginn var hægt að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda við urðun, auk þess sem fyrirtækið gat aukið framleiðslu sína og þar með hagnað.
(Sjá frétt Sustainable Review 11. janúar).