Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir flokkinn: Loftslagsmál
Jarðeldsneytisbílabann 2030 dugar ekki
Gert er ráð fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynni í þessari viku 10 aðgerðir sem ætlað er að styðja við loftslagsmarkmið þarlendra stjórnvalda. Ein þessara aðgerða verður væntanlega bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar New Automotive gæti þetta bann minnkað losun frá umferð úr núverandi 68 milljónum tonna koldíoxíðígilda niður í 46 milljónir tonna árið 2030, sem er eftir sem áður langt frá þeim 32,8 milljónum tonna sem stefnt er að.Til þess að hafa tilætluð áhrif þyrfti bannið að taka gildi árið 2026, eða þá að grípa þyrfti til annarra aðgerða til að minnka notkun bíla af þessu tagi. Bann 2030 myndi þýða að í mörg ár eftir það verði stór floti bensín- og dísilbíla á götunum.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Matarumbúðir úr pappa hafa minnsta kolefnissporið
Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Metvöxtur í endurnýjanlegri orku
Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Kolefnisskattur á rautt kjöt?
Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Noregur: 3% samdráttur milli ára í losun GHL
Árið 2019 nam losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) í Noregi samtals 51 milljón tonna CO2ígilda og hafði þá dregist saman um 3% frá árinu 2018. Mestu munar um 7% samdrátt í losun frá samgöngum á landi vegna minnkandi sölu á bensíni og dísli og vegna aukinnar íblöndunar lífeldsneytis í þessar vörur. Losun vegna flugsamgangna minnkaði um 6% milli ára og um 4% í sjóflutningum. Þá minnkaði losun frá olíu- og gasvinnslu um 2% vegna minni framleiðslu. Heildarlosunin hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 2007 og fara þarf aftur til ársins 1993 til að finna jafnlága heildartölu og 2019. Frá 1990 hefur losunin minnkað um 2%.
(Sjá fréttatilkynningu norsku hagstofunnar 2. nóvember).
Amazon kynnir loftslagsmerki
Á dögunum hleypti vefverslunin Amazon af stokkunum nýju verkefni sem ætlað er að gera kaupendum auðveldara fyrir að velja vörur sem samræmast markmiðum í loftslagsmálum. Verkefnið nefnist „Climate Pledge Friendly“ (eða „Loftslagsviljavænt“ í mjög lauslegri íslenskri þýðingu). Með þessu verkefni er vakin sérstök athygli á umhverfisvottuðum vörum með því að auðkenna þær með merki verkefnisins. Til að byrja með spannar verkefnið rúmlega 40.000 vörur með 18 mismunandi umhverfismerki eða önnur merki af svipuðum toga, þ.á m. Norræna Svaninn og Umhverfismerki ESB. Í fyrstu verður verkefnið sýnilegt fyrir kaupendur í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi.
(Sjá frétt á heimasíðu Amazon 28. október).
Bresk fyrirtæki og samtök þrýsta á stjórnvöld að móta mínuslosunarstefnu
Bresku bændasamtökin (NFU), Heathrow flugvöllur og fleiri aðilar hafa tekið höndum saman um að þrýsta á ríkisstjórn Bretlands að móta skýra stefnu um föngun kolefnis og aðrar aðgerðir til að ná fram neikvæðri losun gróðurhúsalofttegunda. Hópurinn bendir á að móta þurfi slíka stefnu strax til að tími gefist til að þróa tækni sem beita má í þessu skyni, með sérstakri áherslu á þær atvinnugreinar þar sem losun er mest. Skjót viðbrögð í þessa átt séu forsenda þess að Bretland geti náð markmiði sínu um kolefnishlutleysi. Góð viðleitni til að draga úr losun frá flugi, stóriðju, landbúnaði o.s.frv. muni ekki duga ein og sér, og því séu mínuslosunarverkefni óhjákvæmilegur hluti þeirra aðgerða sem grípa þurfi til. Um leið snúist málið um samkeppnishæfni Bretlands og virkjun tækifæra sem liggja í nýsköpun á þessu sviði.
(Sjá frétt Business Green 12. október).
Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030
Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).
Stórátak í kolefnisbindingu í Noregi
Í fyrradag kynnti ríkisstjórn Noregs tillögu sína til Stórþingsins um stórátak í föngun, flutningi og bindingu koldíoxíðs. Verkefnið er margþætt, en það felst m.a. í söfnun koldíoxíðs frá sementsverksmiðju í Brevik og frá sorporkuveri í Osló, svo og í stuðningi við svonefnt Norðurljósaverkefni, sem unnið er í samstarfi fyrirtækjanna Equinor, Shell og Total. Norðurljósaverkefnið snýst um flutning fljótandi koldíoxíðs frá söfnunarstöðum til móttökustöðvar í Øygarden, en þaðan verður vökvanum dælt niður í hólf undir hafsbotni. Þetta nýja átak, sem fengið hefur nafnið Langskip, er sagt vera stærsta loftslagsverkefni norsks atvinnulífs frá upphafi. Því er ekki aðeins ætlað að auðvelda Norðmönnum að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum, heldur mun það einnig skapa allmörg ný störf. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljarðar norskra króna (um 370 milljarðar ISK), þar af 17 milljarðar í stofnkostnað og 8 milljarðar í rekstur fyrstu 10 árin. Gert er ráð fyrir að norska ríkið beri um 67% af kostnaðinum.
(Sjá fréttatilkynningu norsku ríkisstjórnarinnar í fyrradag).