Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu

Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)

Breskar samlokur hafa stærra kolefnisspor en 8 milljón bílar

Árlega sporðrenna Bretar um 11,5 milljörðum samloka og losa með því um 9,5 milljón tonn af koltvísýringsígildum út í andrúmsloftið, að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Sustainable Production and Consumption. Þetta samsvarar losun frá 8,6 milljónum bíla. Stærsta kolefnissporið í rannsókninni átti samloka með eggi, beikoni og pylsu, eða 1,44 kg. Það jafngildir því að bíl sé ekið u.þ.b. 19 km. Samloka með eggi og kirsi kom best út í flokki búðarsamloka með 0,74 kg. Kolefnisspor heimagerðra samloka er yfirleitt mun minna. Framleiðsla og úrvinnsla áleggs reyndist eiga stærstan þátt í kolefnisspori búðarsamloka, eða um 37-67%, umbúðir orsökuðu um 8,5% og flutningur og kæling um 4%. Kæligeymslur verslana geta átt allt að 25% hlutdeild í heildarsporinu. Höfundar rannsóknarinnar benda á að með breytingum á uppskriftum, umbúðum og úrgangsmeðhöndlun megi draga úr losun um u.þ.b. helming og að hægt væri að minnka matarsóun um meira en 2.000 tonn á ári með því að lengja endingartímann.
(Sjá frétt Independent 25. janúar).

Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum

Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).

Dönsk fyrirtæki gætu grætt milljarða á hringrásarhagkerfinu

money-tree_1170x659Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi gæti aukið þjóðarframleiðslu í Danmörku um 0,8-1,4%, skapað 7.000-13.000 ný störf og aukið nettóútflutning um 3-6% miðað við árið 2035, að því er fram kemur í nýrri úttekt frá Ellen MacArthur stofnuninni. Áherslur af þessu tagi gætu m.a. aukið tekjur matvælafyrirtækja um samtals 3-6 milljarða danskra króna á ári (56-112 milljarða ísl. kr.). Samhliða þessu myndi notkun nýrra hráefna minnka og kolefnisfótspor Dana sömuleiðis. Hringrásarhagkerfið miðar að því að hámarka verðmæti aðfanga. Þetta er m.a. hægt að gera með aukinni endurnotkun og endurvinnslu, bættri vöruhönnun og áherslu á ný viðskiptalíkön sem byggja á samnýtingu og kaupleigu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 26. nóvember).