Tengiltvinnbílar fá falleinkun í nýrri rannsókn

Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).

Kolefnisskattur á rautt kjöt?

Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla

Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).

Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

Gjaldtaka af plastpokum stórminnkar notkun

Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).

Hröð uppsveifla í endurnýjanlegri orku

Wind turbines in ChinaUm 22% af allri framleiddri orku í heiminum kemur nú frá endurnýjanlegum orkugjöfum að því er fram kemur í nýjustu samantekt Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Meiri vöxtur er í greininni en nokkru sinni fyrr og námu fjárfestingar í henni um 150 milljörðum breskra punda árið 2013 (um 29 þús. milljörðum ísl. kr.). Á síðustu árum hafa stjórnvöld margra ríkja endurskoðað og dregið úr hagrænum hvötum sem hafa verið ein helsta undirstaða uppbyggingar í greininni. IEA telur þó að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkuframleiðslu heimsins ætti að geta náð 26% árið 2020, enda fer stofn- og rekstrarkostnaður lækkandi. Um leið bendir stofnunin á að 27% markmiðið sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér fyrir 2030 sé ekki nógu metnaðarfullt. Hlutfallið verði komið í 30% árið 2030 ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Skotar leggja gjald á plastpoka

plastpokar_skotlandSkoska þingið hefur samþykkt að sérstakt gjald verði lagt á sölu einnota plastpoka frá og með 20. október næstkomandi. Gjaldið verður a.m.k. 5 bresk pens (um 10 ísl. kr.) á hvern poka og mun peningurinn renna til góðgerðarmála. Yfirvöld vona að gjaldtakan leiði til aukinnar umhverfisvitundar og fái fólk til að nota margnota poka eða nota hvern plastpoka oftar. Samtökin Zero Waste Scotland munu vinna með yfirvöldum og söluaðilum að innleiðingu gjaldsins.
(Sjá frétt EDIE í gær).

Framsækin stefna í úrgangsmálum skapar 750.000 ný störf

Úrgangsþríhyrningurinn 3 160Um 750.000 ný störf myndu skapast fram til ársins 2025 ef Evrópusambandið tæki upp framsækna stefnu í úrgangsmálum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópsku umhverfisskrifstofunnar (EEB). EEB telur að með stefnu sem stuðlar að úrgangsforvörnum og endurvinnslu skapist fjölmörg græn störf, losun koltvísýrings minnki um 415 milljón tonn og landnotkun vegna matvælaframleiðslu minnki um 57 þúsund ferkílómetra fram til ársins 2030. Ekki sé nóg að banna urðun úrgangs, heldur þurfi að leggja áherslu á lausnir sem eru ofar í úrgangsþríhyrningnum. Þessu megi m.a. ná fram með hagrænum hvötum til endurnotkunar og endurvinnslu, auknum gjöldum á einnota vörur, breyttum sorphirðugjöldum og aukinni áherslu á framlengda framleiðendaábyrgð.
(Sjá frétt EEB 7. apríl).

Grænir skattar gætu stóraukið tekjur ESB-ríkja

Grænir peningar ESBAuknir umhverfisskattar gætu fært tólf Evrópusambandslöndum 35 milljarða evra (um 5.500 milljarða ísl. kr.) á ári í auknar skatttekjur, á sama tíma og draga myndi úr álagi á umhverfið. Þetta er niðurstaða skýrslu sem sambandið lét vinna sem lið í undirbúningi fjárlaga. Í skýrslunni er lagt til að nýir skattar verði lagðir á orkunotkun, flutninga, loftmengun, urðun og brennslu úrgangs, umbúðir, plastpoka, vatnsnotkun, losun í fráveitur, áburð, varnarefni og íblöndunarefni. Jafnframt er lagt til að ríkin spari fé með því að hætta niðurgreiðslum sem eru skaðlegar umhverfinu. Fjárhagslegan ávinning af þessu mætti nota til að lækka skatta á tekjur fólks, draga úr fjárlagahalla og vinna að úrbótum í umhverfismálum.
(Sjá frétt EDIE 13. mars).