Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir merki: kol
Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar
Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).
Svartur kísill gæti lækkað verð á sólarskjöldum um 10%
Joshua Pearce, prófessor við Tækniháskólann í Michigan, hefur fundið leið til nota þurrætingu við framleiðslu á svörtum kísil í sólarsellur, sem skilar sér í 10% lækkun framleiðslukostnaðar á hverja orkueiningu. Þessi svarti kísill er reyndar nær fjórðungi dýrari í framleiðslu en hefðbundnari blár kísill, en hann nær að fanga sólarorkuna mun betur og auka þannig hagkvæmnina. Framleiðsla á sólarorku er þú þegar á pari við aðra endurnýjanlega orku hvað hagkvæmni varðar og 10% lækkun framleiðslukostnaður myndi bæta stöðu greinarinnar enn frekar. Joshua Pearce telur með öllu útilokað að kolaorkuver geti keppt við sólarorkuver í náinni framtíð.
(Sjá frétt Science Daily 4. september).
Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum
Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).
Vaxandi sjálfbærnikröfur hjá sænskum bönkum
Á síðasta ári skerptu allir sænskir bankar á kröfum sínum um sjálfbærniáherslur verkefna og fyrirtækja sem bankarnir fjárfesta í eða veita lán, að því er fram kemur í árlegri úttekt Fair Finance Guides. Ekobanken och JAK eru sem fyrr þeir bankar sem gera mestar kröfur og fá þeir nánast fullt hús stiga í úttektinni. Swedbank og SEB skora hæst af stóru bönkunum, báðir með um 60% frammistöðu. Sem dæmi um nýjar kröfur má nefna að SEB birtir nú skýrslur um kolefnisspor allra sinna sjóða, Handelsbanken hefur sett nokkur fyrirtæki á svartan lista fyrir að spilla umhverfinu og ganga gegn mannréttindum, Länsförsäkringar lækkuðu hámarkshlutdeild kolavinnslu í veltu fyrirtækja úr 50% í 20% og Nordea tók upp ný viðmið til að koma í veg fyrir að bankinn stuðli að skattaflótta með ráðgjöf sinni. Enn gengur bönkunum hins vegar heldur illa að standa við orð sín og fjárfesta sumir hverjir enn í fyrirtækjum sem eyða regnskógum, fjármagna pálmaolíuiðnaðinn og níðast á réttindum frumbyggja í Asíu.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. janúar).
Ríkissjóður Noregs hættir að fjárfesta í 52 „svörtum“ fyrirtækjum
Norski olíusjóðurinn hefur ákveðið að hætta að fjárfesta í fyrirtækjum sem fá meira en 30% tekna sinna af kolavinnslu. Þetta er fyrsta aðgerðin af þessu tagi eftir að tilkynnt var í júní 2015 að sjóðurinn hygðist draga úr „svörtum“ fjárfestingum. Aðgerðin útilokar 52 fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjárfest í, en flest þeirra eru staðsett í Bandaríkjunum og Kína. Sjóðurinn, sem er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum, mun þó áfram eiga hlut í þremur stærstu kolaframleiðendum heims, þar sem umsvif þeirra eru slík að minna en 30% tekna þeirra kemur frá kolavinnslu. Samdráttur í „svörtum“ fjárfestingum mun halda áfram út árið og á næstunni mun Seðlabanki Noregs kynna fleiri aðgerðir í þá veru.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Bænarbréf frá sökkvandi eyjum
Anote Tong, forseti eyríkisins Kiribati, hefur skrifað bréf til leiðtoga þjóða heims með bón um að stöðva öll áform um að opna nýjar kolanámur. Að öðrum kosti sé hætta á að Kiribati og nokkur önnur eyríki hverfi undir yfirborð sjávar vegna loftslagsbreytinga. Auk Kiribati hafa tíu önnur eyríki í Kyrrahafi skrifað undir bréfið, en fátt er um svör frá leiðtogum iðnríkjanna. Það gildir m.a. um sænsk stjórnvöld, þrátt fyrir að Anote Tong hafi rætt þessi mál sérstaklega við bæði forsætis- og þróunarmálaráðherra Svíþjóðar í heimsókn sinni þangað á liðnu vori. Í nýlegu viðtali við Svenska Dagbladet sagði Richard Denniss, yfirhagfræðingur hugveiturnnar The Australian Institute, að ástæðan kunni að liggja í áhyggjum sænsku ríkisstjórnarinnar af afkomu ríkisorkufyrirtækisins Vattenfall, sem hefur mikla hagsmuni af viðskiptum með kol. „Tölum bara hreint út. Ef nýjar kolanámur verða opnaðar munu lönd á borð við Kiribati sökkva“, sagði Richard í viðtalinu.
(Sjá frétt Miljöaktuellt í dag).
Fjárfestar gætu tapað 260 þúsund milljörðum
Á næstu 10 árum gætu fjárfestar tapað allt að 2.000 milljörðum Bandaríkjadala (um 260.000 milljörðum ísl. kr.) af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtæki og verkefni í jarðefnaeldsneytisgeiranum, þ.e.a.s. ef leiðtogar þjóða heims ná samkomulagi í París í næsta mánuði um aðgerðir sem duga til að halda hitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C. Til að ná því marki þarf að draga hratt og mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þýðir m.a. að engin þörf verður fyrir nýjar kolanámur og að eftirspurn eftir olíu mun minnka eftir 2020. Því verða mörg áformuð verkefni tilgangslaus og óarðbær, m.a. olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og vinnsla á tjörusandi. Þetta kemur fram í skýrslu hugveitunnar Carbon Tracker sem kynnt var í vikunni. Framkvæmdastjóri Carbon Tracker hafði á orði þegar skýrslan var kynnt að viðskiptasagan væri vörðuð dæmum af fyrirtækjum á borð við Kodak, sem hefðu ekki áttað sig á yfirvofandi breytingum og því setið eftir. Skýrslan fæli í sér viðvörun til fyrirtækja í jarðefnaeldsneytisgeiranum um hættuna á verulegu verðmætatapi sem komast mætti hjá.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Ríkissjóður Noregs dregur úr „svörtum fjárfestingum“
Norska ríkið hefur samþykkt að láta af „svörtum fjárfestingum“, þ.e. fjárfestingum í fyrirtækjum og félögum sem byggja afkomu sína á kolavinnslu. Þessi ákvörðun er talin vera stærsta einstaka skrefið sem tekið hefur verið á heimsvísu til að draga úr svörtum fjárfestingum. Samþykktin þýðir að norska ríkið mun selja eignir upp á u.þ.b. 8 milljarða Bandaríkjadala (um 1.000 milljarða ísl. kr.) og mun aðgerðin hafa áhrif á rúmlega 120 fyrirtæki sem stunda vinnslu jarðefnaeldsneytis. Ráðamenn í Noregi segja ákvörðunina ekki einungis vera tekna til að reyna að sporna við loftslagsvandanum heldur séu slíkar fjárfestingar einnig áhættusamar vegna sífellt strangari krafna Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frjáls félagasamtök sem hafa beitt sér fyrir fjárlosun (e. divestment) í jarðefnaeldsneytisgeiranum telja að ákvörðun Norðmanna muni gefa tóninn fyrir önnur ríki og fjárfestingarsjóði.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Dregur loks úr kolabrennslu í Kína
Á árinu 2014 varð í fyrsta sinn samdráttur í kolanotkun Kínverja, en þennan samdrátt má rekja til hraðrar uppbyggingar endurnýjanlegra orkuvera, aukinnar orkunýtni og minnkandi áherslu stjórnvalda á uppbyggingu stóriðju. Kolanotkunin minnkaði þannig um 2,1% milli áranna 2013 og 2014, en hafði áður aukist jafnt og þétt síðan í byrjun aldarinnar í takt við vaxandi þjóðarframleiðslu. Aðgerðir stjórnvalda í Kína til að draga úr kolanotkun stuðla að bættum loftgæðum en eru jafnframt undirstaða þess að Kína geti staðið við nýgerðan samning við Bandaríkin varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Helmingur af þeirri aukningu sem orðið hefur á CO2-losun í heiminum síðustu 10 ár á rætur að rekja til vaxandi kolabrennslu í Kína.
(Sjá frétt EDIE í dag).