Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Vilja banna glimmer

Breskir vísindamenn hafa kallað eftir banni við sölu á glimmer, þar sem það sé oftar en ekki gert úr plasti og hafi því sömu neikvæðu áhrif á umhverfið og annað örplast. Talið er að nú þegar fljóti allt að 51 þúsund milljarðar örplastagna um heimshöfin. Áhrif þessarar mengunar á lífríkið og þar með á heilsu manna eru ekki fullljós, en þau kunna að verða víðtæk og alvarleg þegar fram í sækir. Frá og með næsta ári verður bannað að bæta örplasti í snyrtivörur sem framleiddar eru í Bretlandi en ekki hafa verið settar sérstakar skorður hvað glimmer varðar. Glimmer er reyndar ekki allt framleitt úr plasti, heldur einnig úr áli. Sömuleiðis er hægt að framleiða glimmer úr umhverfisvænni efnum sem brotna auðveldlega niður í náttúrunni.
(Sjá frétt Independent 16. nóvember).

HICC bannað vegna ofnæmishættu

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að ilmefnið HICC (hýdroxýísóhexýl 3-sýklóhexen karboxaldehýð) verði bannað í hvers konar snyrtivörum, þar sem efnið getur valdið ofnæmi og þar af leiðandi skaðað heilsu manna. Framleiðendur fá hins vegar tveggja ára aðlögunartíma og seljendur fá tvö ár til viðbótar til að hætta sölu á vörum sem innihalda efnið. Bannið tekur því í reynd ekki gildi fyrr en eftir 4 ár. Samkvæmt gagnagrunni dönsku neytendasamtakanna (Tænk) finnst HICC í rúmlega 500 snyrtivörutegundum, svo sem í sturtusápu, eftirsólaráburði og svitalyktareyði.
(Sjá frétt Tænk Kemi 3. október).

Svansmerkt smínk loks fáanlegt

Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).

Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum

elf-160x80Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).

Obama staðfestir bann við míkróplasti!

cosmeticsÞann 28. desember sl. undirritaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lög sem banna notkun míkróplasts í snyrtivörur í Bandaríkjunum. Í lögunum (Microbead-Free Waters Act of 2015) er míkróplast skilgreint sem „plastagnir minni en 5 mm“ og frá og með 1. júlí 2017 verður bannað að framleiða snyrtivörur fyrir Bandaríkjamarkað sem innihalda slíkar agnir. Árið 2019 verður öll sala slíkrar vöru bönnuð. Snyrtivöruframleiðendur hafa tekið lögunum fagnandi og hrósað yfirvöldum fyrir þá samstöðu sem skapaðist við setningu laganna, en margir af stærstu framleiðendunum hafa þegar gert áætlanir um að úthýsa míkróplasti úr vörum sínum. Eins og áður hefur komið fram á 2020.is fékk bann við míkróplasti byr undir báða vængi vestanhafs eftir að rannsóknir sýndu fram á gríðarlegt magn plastagna í Vötnunum miklu.
(Sjá frétt Environmental Leader 4. janúar).

Banna Bandaríkjamenn míkróplast?

microbeadsFulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar sölu á snyrtivörum sem innihalda míkróplast. Frumvarpið bíður nú samþykktar öldungadeildarinnar og ef af verður kemur bannið til framkvæmda 1. júlí 2017. Míkróplast er farið að hafa veruleg áhrif á vistkerfi Vatnanna miklu og er velgengni frumvarpsins talin tengjast því að miklu leyti. Sem dæmi um ástandið má nefna að um 1,1 milljón plastagna fannst í hverjum ferkílómetra Ontariovatnsins í rannsókn sem gerð var 2013. Einn frummælenda lagafrumvarpsins orðaði það svo að „við munum berjast gegn hverri þeirri starfsemi sem ógnar okkar elskuðu vötnum“. Nú þegar hafa ríkin Illinois og Kalifornía sett lög sem banna vörur með míkróplasti og Ohio og Michigan eru einnig með slíkt í undirbúningi. Þrjú af þessum fjórum ríkjum liggja að Vötnunum miklu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Varasöm efni algeng í hárvaxi

haarvoks-test-web-1Efni sem talin eru vera hormónaraskandi, krabbameinsvaldandi eða ofnæmisvaldandi fundust í næstum því annarri hvorri tegund af hárvaxi sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum. Skoðunin fór þannig fram að lesnar voru innihaldslýsingar á 48 mismunandi tegundum af hárvaxi og kannað hvort þar væru tilgreind efni sem talin eru geta skaðað umhverfi og heilsu. Af þessum 48 tegundum fengu 23 rauða spjaldið, þar sem þær reyndust innihalda hugsanlega hormónaherma, krabbameinsvalda og ofnæmisvalda. Fjórtán tegundir til viðbótar fengu gula spjaldið þar sem þær innihéldu ilmefni sem geta valdið ofnæmi eða efni sem geta skaðað umhverfið. Aðeins 11 tegundir fengu ágætiseinkunn í þessari yfirferð. Þrátt fyrir hugsanlega skaðsemi er enn sem komið er heimilt að nota öll umrædd efni í snyrtivörur, að einu frátöldu.
(Lesið frétt á heimasíðu Tænk 14. september).

Kalifornía bannar míkróplast í snyrtivörum

ppcÖldungadeild ríkisþings Kaliforníu samþykkti sl. föstudag með 24 atkvæðum gegn 14 að breyta lögum ríkisins þannig að bannað verði að selja snyrtivörur og húðvörur sem innihalda plastagnir (míkróplast). Fulltrúadeild þingsins afgreiðir málið væntanlega í þessari viku og að því loknu þarf ríkisstjórinn að staðfesta lögin. Gangi þetta eftir tekur bannið gildi 1. janúar 2020. Umhverfisverndarsinnar vonast til að önnur ríki Bandaríkjanna fylgi þessu fordæmi Kaliforníuríkis og sporni þannig við frekari dreifingu míkróplasts út í umhverfið.
(Sjá frétt á heimasíðu Plastic Pollution Coalition 4. september).

Milljón plastagnir í hverri flösku

150826102034_1_540x360Ýmsar snyrtivörur innihalda gríðarlegt magn plastagna (míkróplasts) sem bætt er í vöruna sem fylliefni eða til að gefa henni skröpunareiginleika. Í rannsókn vísindamanna við háskólann í Plymouth kom í ljós að einn skammtur af snyrtivörum, t.d. skrúbbkremi fyrir andlit, getur innihaldið allt að 100.000 plastagnir. Þessar agnir eiga greiða leið í gegnum fráveitukerfi og út í umhverfið, þar sem þær safnast fyrir og geta valdið lífríkinu verulegum skaða. Talið er að allt að 80 tonn af slíku plasti berist til hafs á ári hverju í Bretlandi einu. Vitað er um 80 tegundir af húðvörum og snyrtivörum á breskum markaði sem innihalda plastagnir, þ.á.m. handsápur, tannkrem, rakkrem, freyðiböð, sólarvörn og sjampó. Með því að nota rafeindasmásjá töldu vísindamennirnir 137.000 til 2,8 milljónir plastagna í 150 ml. skammti af þessum vörum. Nokkrir framleiðendur hafa heitið því að hætta að bæta plastögnum í vörurnar sínar, en hægt virðist miða í því.
(Sjá frétt Science Daily í gær).