Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: bílar
Jarðeldsneytisbílabann 2030 dugar ekki
Gert er ráð fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynni í þessari viku 10 aðgerðir sem ætlað er að styðja við loftslagsmarkmið þarlendra stjórnvalda. Ein þessara aðgerða verður væntanlega bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar New Automotive gæti þetta bann minnkað losun frá umferð úr núverandi 68 milljónum tonna koldíoxíðígilda niður í 46 milljónir tonna árið 2030, sem er eftir sem áður langt frá þeim 32,8 milljónum tonna sem stefnt er að.Til þess að hafa tilætluð áhrif þyrfti bannið að taka gildi árið 2026, eða þá að grípa þyrfti til annarra aðgerða til að minnka notkun bíla af þessu tagi. Bann 2030 myndi þýða að í mörg ár eftir það verði stór floti bensín- og dísilbíla á götunum.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030
Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).
Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum
Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).
Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla
Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).
Hægt að minnka vistspor þjóða verulega með því að kaupa vörur frá löndum með „sjálfbæra“ framleiðslu
Hægt er að minnka verulega þann hluta af vistspori þjóða sem felst í innfluttum vörum með því að beina viðskiptum til umhverfisvænni landa. Í nýrri rannsókn á vistspori ESB-ríkjanna kom í ljós að ríkin gætu minnkað vatnsnotkun við framleiðslu á innfluttum varningi um 72%, landnotkun um 65%, efnisnotkun um 53% og kolefnisspor um 46% með því að beina viðskiptum sínum til landa sem framleiða vörur með sjálfbærari hætti en núverandi viðskiptalönd. Þannig flytja ESB-ríkin nú inn bíla frá 49 löndum og svæðum innan og utan sambandsins og er kolefnislosun vegna þessarar framleiðslu um 2 gígagrömm (Gg) CO2 fyrir hverjar milljón evrur. Með því að flytja aðeins inn bíla frá 13 völdum löndum og svæðum væri hægt að lækka þessa tölu í 0,4 Gg á milljón evrur, að teknu tilliti til framleiðslugetu upprunalandanna. Rannsóknin er innlegg í umræðu um kolefnisskatta á innflutning (carbon border adjustment (CBA)), þar sem hærri tollar yrðu lagðir á vörur frá löndum með mikla losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá fréttabréfið Science for Environmental Policy 19. nóvember)
Sjálfkeyrandi sendibíll dreifir vörum í verslanir
Verslunarkeðjan Lidl í Svíþjóð stefnir að því að taka rafknúinn sjálfkeyrandi sendibíl í notkun í Halmstad næsta haust. Um er að ræða tilraunaverkefni og er ætlunin að bíllinn (sem kallast T-pod) flytji vörur um 4 km leið frá vöruhúsi Lidl út í verslanir bæjarins. Samið hefur verið við fyrirtækið Einride um hina tæknilegu hlið verkefnisins. Bíllinn mun einkum verða á ferðinni á næturnar, en leið hans liggur m.a. um tvö hringtorg, tvennar krossgötur og eina hægri beygju. Starfsmenn vöruhússins fylla á bílinn í lok dags og síðan tæma starfsmenn verslunar bílinn morguninn eftir. Bíllinn verður búinn kæli- og frystitækjum og tekur u.þ.b. 15 vörubretti í hverri ferð. Fyrst um sinn verður aðeins farin ein ferð á sólarhring. Sótt verður um rekstrarleyfi til Samgöngustofu Svíþjóðar (Transportstyrelsen) í nóvember 2017.
(Sjá frétt TransportNytt 25. október).
Rafbílar mun loftslagvænni en dísilbílar
Rafbílar losa mun minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en bensín- og dísilbílar þegar búið er að taka með í reikninginn alla losun sem verður við framleiðslu bílanna. Í Póllandi, þar sem stór hluti rafmagns er framleiddur með kolum, er munurinn 25% rafbílunum í hag, en 50% að meðaltali í Evrópu. Í Svíþjóð er munurinn um 85%, en þar er raforkuframleiðslan að miklu leyti óháð jarðefnaeldsneyti. Þetta kemur fram í nýrri lífsferilsgreiningu (LCA) sem vísindamenn við Vrije-háskólann í Belgíu unnu fyrir hugveituna Transport & Environment.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Rafknúið rúgbrauð á markað 2022
Bílaframleiðandinn Volkswagen tilkynnti sl. laugardag að rafknúið „rúgbrauð“ verði sett á markað árið 2022, en margir hafa saknað þessa VW-sendiferðabíls sem oft er tengdur 68-kynslóðinni í hugum fólks. Hugmyndabíll af þessu tagi var sýndur á bílasýningunni í Detroit fyrr á þessu ári, en ákvörðun um framleiðslu lá ekki fyrir fyrr en á laugardaginn. Ákvörðunin var kynnt á samkomu í Monterey í Kaliforníu, en þar stóð vagga rúgbrauðsins og hippamenningarinnar að margra mati. Ekki liggja fyrir nákvæmar tækniupplýsingar um nýja rúgbrauðið, en hugmyndabíllinn sem kynntur var í Detroit var með 111 kwst rafhlöðu sem á að duga fyrir rúmlega 400 km akstur.
(Sjá frétt Business Insider í gær).
Venjulegur dísilbíll mengar meira en trukkur
Nýir dísildrifnir fólksbílar losa um tífalt meira af köfnunarefnisoxíðum (NOx) út í andrúmsloftið fyrir hvern lítra eldsneytis en nýir flutningabílar og rútur, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðaráðsins um hreina flutninga (International Council on Clean Transportation (ICCT)). Þetta skýrist af því að beitt er mun strangari aðferðum við mælingar á mengun frá stórum ökutækjum en fólksbílum. Mengun frá fólksbílum er mæld í frumgerðum á rannsóknarstofu en við mælingar á trukkum eru notuð færanleg mælitæki við raunverulegar aðstæður. Trukkar sem prófaðir voru í Þýskalandi og Finnlandi reyndust losa um 210 mg af NOx á kílómetra, en losun frá nýjum fólksbílum var um 500 mg/km. Þetta jafngildir tíföldum mun á hvern lítra þegar tekið hefur verið tillit til eldsneytisnotkunar bílanna. Þessar niðurstöður sýna að bílaframleiðendur ráða yfir tækninni sem þarf til að draga úr mengun en hafa látið hjá líða að nota hana. Áform eru uppi um að herða reglur um mengunarmælingar á fólksbílum í framhaldi af „dieselgate“-hneykslinu þar sem Volkswagen var í aðalhlutverki.
(Sjá frétt The Guardian í dag).