Bandaríkin tapa mest á loftslagsbreytingum

Vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu hafa fyrstir manna skipt áætluðum kostnaði samfélagsins vegna loftslagsbreytinga („social cost of carbon“ (SCC)) niður á einstök þjóðlönd. Niðurstaðan er sú að kostnaður Bandaríkjanna verði mestur, eða um 250 milljarðar dollara á ári (um 28.000 milljarðar ísl. kr.). Kostnaður á hvert tonn sem losað er í Bandaríkjunum verður um 50 dollarar, sem er hærra en miðað hefur verið við í flestum greiningum hingað til (12-62 dollarar á tonn). Kostnaður á hvert tonn á heimsvísu verður þó miklu hærri samkvæmt útreikningum vísindamannanna eða 180-800 dollarar. Indland og Sádí-Arabía eru næst Bandaríkjanum hvað varðar heildarkostnað, en Evrópusambandið sleppur mun betur. Vísindamennirnir draga þá ályktun af niðurstöðum sínum að stjórnvöld í ríkjum heims hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri miklu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og að þær þjóðir sem munu bera stærstan hluta kostnaðarins hljóti að verða að sýna meira frumkvæði en þær hafa gert.
(Sjá frétt Science Daily 24. september).

Fyrsti sólarorkuknúni flugvöllurinn

Kerala (160x104)Alþjóðaflugvöllurinn Cochin í Keralaríki á Indlandi er fyrsti flugvöllurinn í heimi sem gengur eingöngu fyrir sólarorku. Þann 18. ágúst sl. voru teknar í notkun 46.000 sólarsellur á um 18 hektara svæði í grennd við flugvöllinn. Sólarorkuverið framleiðir um 50-60 MWst af raforku á sólarhring, en dagleg orkuþörf flugvallarins er um 48 MWst/sólarhring sem samsvarar orkunotkun u.þ.b. 10 þúsund heimila. Umframorkan er send inn á dreifikerfið og nýtist þannig öðrum raforkunotendum.
(Sjá frétt ENN í gær).

LED-ljós í alla ljósastaura í Delhi

dehliOrkumálaráðherra Indlands tilkynnti á dögunum að á næstu tveimur árum verði öllum ljósaperum í ljósastaurum í Delhi skipt út fyrir LED-perur. Áætlað er að aðgerðin muni skila árlegum sparnaði upp á um 580 milljónir breskra punda (um 114 milljarða ísl. kr.). Samkvæmt yfirlýsingu ráðherrans mun aðgerðin einnig ná til heimila, enda nota þau um helming allrar raforku í borginni. Um 20 milljón ljósaperum verður skipt út fram til ársins 2017 og þar sem aðgerðin kostar aðeins um 250 milljónir punda mun hún borga sig upp á fyrsta ári. Auk fjárhagslegs sparnaðar er aðgerðinni ætlað að minnka álagið á raforkukerfi Indlands þar sem áætlað er að eftirspurn eftir raforku muni aukast um 60% árlega næstu 5 ár. LED-ljós nýta orku mun betur en bæði hefðbundnar ljósaperur og flúrperur auk þess sem þær endast um 50 sinnum lengur en hefðbundnar perur og um 8-10 sinnum lengur en flúrperur.
(Sjá frétt EDIE 2. september).

Plastagnir endurnýttar í steypu

27225Hafin er tilraunaframleiðsla á steypu þar sem endurunnar plastagnir eru notaðar í staðinn fyrir 10% af þeim sandi sem hingað til hefur verið notaður í steypuna. Háskólinn í Bath í Englandi stýrir verkefninu í samvinnu við indverska vísindamenn með fjármagni frá Bretland-Indland menntunar- og rannsóknarverkefninu (UKIERI). Afurð verkefnisins verður steypublanda með svipaða eiginleika og hefðbundin steypa hvað varðar styrk, endingu og hitaþol. Verkefnið mun draga úr tveimur umhverfisvandamálum á Indlandi. Annars vegar stuðlar það að minna sandnámi úr árbökkum og þar með minni landeyðingu og hins vegar dregur það úr magni plasts sem fer til urðunar. Indland er annar stærsti steypuframleiðandi heims með um 270 milljón tonna árlega framleiðslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Diclofenac drepur erni

eagleTvær nýjar rannsóknir hafa styrkt kenningar um að Voltaren og önnur lyf sem innihalda virka efnið diclofenac séu hættuleg örnum af ættkvíslinni Aquila. Vitað var um skaðsemi diclofenacs fyrir hrægamma, en nú virðist ljóst að fleiri tegundir ránfugla verði fyrir barðinu á þessu efni. Efnið getur eyðilagt nýru fuglanna og þannig dregið þá til dauða. Frá þessu er sagt í grein í nýjasta hefti fuglaverndartímaritsins Bird Conservation International. Þessar niðurstöður ýta undir kröfur um að notkun diclofenacs við dýralækningar verði bönnuð í Evrópu og að banni sem komið hefur verið á í SA-Asíu verði fylgt eftir af festu.
(Sjá frétt ENN í gær).

Indverjar efla rafbílaiðnaðinn

Ríkisstjórn Indlands hefur samþykkt áætlun um að verja 230 milljörðum rúpía (um 500 milljörðum ísl. kr.) á næstu 8 árum til að styðja við þarlenda framleiðslu á rafbílum og tvinnbílum. Reiknað er með að 55-60% af fénu komi frá ríkinu, en afgangurinn frá fyrirtækjum. Markmiðið er að 6 milljón ökutæki af þessu tagi verði komin á göturnar árið 2020, þar af 4-5 milljónir á tveimur hjólum.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk 31. ágúst sl).