Aukin áhersla á endurvinnslu matarleifa

Á síðustu misserum hafa sífellt fleiri sveitarfélög í Danmörku tekið upp sérstaka söfnun á matarúrgangi. Nú er þessi þjónusta til staðar í 31 sveitarfélagi af 98, en var aðeins í 22 sveitarfélögum fyrir hálfu öðru ári. Með þessu móti opnast möguleikar á að nýta auðlindir í úrganginum betur, bæði með gasframleiðslu og framleiðslu jarðvegsbætis, en hingað hefur mest af þessum úrgangi farið í brennslu. Fyrir skemmstu náðist samkomulag innan Evrópusambandsins um að lögbinda sérstaka söfnun lífræns úrgangs frá og með árinu 2023.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. janúar).

„Oxo-degradable“ plast verði bannað

Rúmlega 150 samtök og fyrirtæki, þ.á.m. Marcs & Spencer, Unilever og Pepsi, hafa sameinast um áskorun Ellen MacArthur stofnunarinnar til stjórnvalda um heim allan að banna notkun á ildislífbrjótanlegu plasti (e. oxo-degradable plastics), í það minnsta þar til óháðir rannsakendur hafi sýnt fram á að umrætt plast brotni fyllilega niður við ólíkar aðstæður á nógu skömmum tíma til að koma í veg fyrir uppsöfnun plastagna í umhverfinu. Plast af þessu tagi er notað í vaxandi mæli í plastpoka og aðrar umbúðir, en vísbendingar eru uppi um að staðhæfingar um niðurbrot þess eigi ekki við rök að styðjast. Að sögn talsmanns Ellen MacArthur stofnunarinnar er þetta efni hvorki endingargott né nothæft í endurvinnslu eða jarðgerð, og því eigi það ekki heima í hringrásarhagkerfinu. Þess má geta að ildislífbrjótanlegt plast hefur verið bannað í Frakklandi frá árinu 2015.
(Sjá frétt GreenBiz.com 7. nóvember).

Veitingahús í París breyta leifum í lífgas

71056Um 80 veitingahús í París hafa tekið höndum saman um að vinna metan og jarðvegsbæti úr tilfallandi matarleifum. Metanið verður brennt til raforkuframleiðslu og til upphitunar, en bændur í nágrenninu njóta góðs af jarðvegsbætinum. Með þessu eru veitingahúsin m.a. að bregðast við stigvaxandi lagakröfum um endurvinnslu lífræns úrgangs. Frá og með þessu ári nær endurvinnsluskyldan til fyrirtækja þar sem meira en 40 tonn af lífrænum  úrgangi falla til á ári, en árið 2016 lækka þessi mörk niður í 10 tonn. Þar með munu lögin ná til veitingahúsa sem selja um og yfir 150 skammta á dag, en í þann flokk fellur um fimmtungur af öllum matsölustöðum Frakklands. Þeir sem ekki hlýða lögunum geta átt von á sektum allt að 75.000 evrum (hátt í 12 milljónir ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk 13. febrúar).

Hlaupaskór í jarðgerðina?

Síðastliðinn mánudag kynnti íþróttafataframleiðandinn Puma nýja línu af íþróttafötum og skóm sem brotna niður í náttúrunni að notkun lokinni. Með þessu vill fyrirtækið bæta samkeppnisstöðu sína og stuðla að betri framtíð. Um er að ræða 22 vörutegundir sem settar verða í sölu 2013, þ.á.m. sandala, boli, jakka og bakpoka, sem hægt er að skila í verslanir að notkun lokinni. Vörurnar eru þá tættar og jarðgerðar með öðrum lífrænum úrgangi.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk 9. október).