Umhverfisáhrif tilgreind á kvittuninni

Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).

Sérstök merking matvæla með lítið kolefnisspor

Sænski matvælaframleiðandinn Felix hefur tekið upp nýtt merki til að einkenna þær matvörur frá fyrirtækinu sem hafa minnst kolefnisspor. Nýja merkið, ”Lågt klimatavtryck” byggist á útreikningum sem styðjast við gagnagrunn rannsóknastofnunarinnar RISE. Tilgangurinn með merkingunni er að auðvelda fólki að velja matvörur sem samræmast 1,5° markmiði Sameinuðu þjóðanna. Fyrst um sinn verður merkingin notuð á tilbúna frysta rétti og frosnar kartöflur. Á heimasíðu fyrirtækisins (Felix.se) má nú finna upplýsingar um kolefnisspor vörutegunda sem þar eru framleiddar, rétt eins og upplýsingar um næringarefnainnihald og ofnæmisvalda.
(Sjá frétt Livsmedelsnyheter 17. september).

IKEA opnar verslun með notaðar vörur

Á næstu vikum opnar húsgagnarisinn IKEA verslun í Eskilstuna, þar sem eingöngu notaðar IKEA-vörur verða boðnar til kaups. Vörurnar mun IKEA sækja á nytjamarkaðinn ReTuna þar í bæ og lagfæra á verkstæði sínu, auk þess sem seldar verða ónotaðar vörur sem hafa skemmst og fengið andlitslyftingu á verkstæðinu. Verðið verður eðlilega mun lægra en á nýjum IKEA-vörum, en opnum verslunarinnar er liður í að laga rekstur IKEA að hringrásarhagkerfinu. Hjá IKEA er gert ráð fyrir að fram til ársins 2027 vaxi markaður fyrir notaðar vörur fjórfalt hraðar en markaður fyrir nýjar vörur.
(Sjá frétt í Aftonbladet 11. september).

Matarsóun í verslunum meiri en talið var

Ný rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Svíþjóðar (Naturvårdsverket) bendir til að matarsóun í verslunum sé mun meiri en áður var talið. Áætlað er að matarsóun í matvöruverslunum í Svíþjóð hafi numið um 100.000 tonnum á árinu 2018, en það samsvarar um 10 kg. á hvern íbúa landsins. Þetta nýja mat byggir á tölum frá samtökum verslana, en fyrri rannsóknir hafa byggt á úrgangstölum sveitarfélaga, fyrirtækjaskrá og stikkprufum. Magn matarúrgangs frá heimilum virðist hins vegar hafa minnkað nokkuð, þ.e. úr 100 kg. á íbúa 2014 niður í 95 kg. 2018. Þar af er áætlað að 45 kg. á íbúa hafi verið ætur matur, þ.e. eiginleg matarsóun.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 20. febrúar).

Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku

Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).

Svanaðu lífið

Á dögunum hleypti skrifstofa Svansins í Svíþjóð af stokkunum nýju átaki undir yfirskriftinni „Svana ditt liv“, eða „Svanaðu lífið“. Tilgangurinn með átakinu er að fá fleiri neytendur til að taka upp sjálfbærari lífsstíl. Sögnin „að svana“ er nýyrði sem nær yfir hvers konar aðgerðir í anda sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. að flokka úrgang, ferðast saman, neyta sparlega og kaupa svansmerktar vörur. Orðinu er ætlað að hvetja fólk og gera því auðveldara fyrir, bæði að tala um og lifa sjálfbærara lífi.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 27. janúar).

Ónæmiskerfið þróast hægar en loftslagið

Vísindamenn við Háskólann í Lundi hafa fyrstir manna sýnt fram á tengsl milli ónæmiskerfis í fuglum og loftslagsins sem þeir lifa í. Fuglar sem ala allan sinn aldur í hitabeltislöndum með mikla úrkomu hafa fleiri ónæmiserfðavísa en fuglar á norðlægari og þurrari slóðum og ráða þess vegna við fleiri sjúdóma. Farfuglar líkjast evrópskum staðfuglum hvað þetta varðar og hafa tiltölulega fáa ónæmiserfðavísa, enda geta þeir í raun flúið sjúkdóma. Ónæmiserfðavísar allra hryggdýra eru sambærilegir og því draga vísindamennirnar þá ályktun af rannsókninni að þegar hitastig hækkar og úrkoma eykst vegna loftslagsbreytinga, komist ýmis dýr í tæri við sjúkdóma sem þau ráða ekki við. Ónæmiskerfið hafi þróast á milljónum ára og breytingar á því gangi miklu hægar fyrir sig en loftslagsbreytingarnar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Fyrstu Svansmerktu drykkjarumbúðirnar

Umbúðafyrirtækið Tetra Pak í Svíþjóð varð á dögunum fyrst allra fyrirtækja til að fá vottun Norræna svansins fyrir drykkjarumbúðir. Ef allir Norðurlandabúar myndu velja þessar tilteknu drykkjarumbúðir (Tetra Rex® Plant-based) í stað umbúða sem nú eru notaðar í sama tilgangi, myndi losun koldíoxíðs minnka um 30.000 tonn á ári. Meðal krafna sem Svanurinn gerir til drykkjarumbúða er að þær samanstandi af a.m.k. 90% endurnýjanlegu efni (fernur) eða a.m.k. 80% endurunnu efni (gler,ál) eða a.m.k. 80% endurunnu/endurnýjanlegu efni (plast). Auk þess eru gerðar strangar kröfur um efnanotkun o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 23. janúar).

Engin kalkvinnsla í Ojnareskógi

Umhverfisyfirréttur Svíþjóðar (Mark- och miljööverdomstolen) hefur úrskurðað að óheimilt sé að opna kalknámu í Ojnareskógi á Gotlandi, þar sem svæðið njóti verndar sem Natura 2000-svæði. Fyrirtækin Nordkalk og SMA Mineral fengu leyfi til kalkvinnslu á svæðinu árið 2014 en leyfisveitingin var kærð til dómstólsins. Natura 2000-svæðið sem um ræðir var stækkað eftir 2014 en samkvæmt úrskurði dómstólsins ber að taka tillit til áhrifa kalkvinnslunnar á hið stækkaða svæði, þó að vinnsluleyfi hafi verið veitt fyrir stækkun, enda hafi stækkunin verið staðfest fyrir dómi. Kalkvinnslan myndi spilla þessu svæði og því skuli hún óheimil. Fyrirtækin sem í hlut eiga geta áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar (Högsta domstolen) en ólíklegt þykir að Hæstiréttur hnekki úrskurðinum, þar sem hann fjallar um flókin vatnafræðileg og náttúruvísindaleg viðfangsefni sem Hæstiréttur mun tæplega taka til skoðunar. Úrskurðurinn þykir mikill sigur fyrir heimamenn og aðra sem lengi hafa barist gegn umræddri kalkvinnslu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).

Oft góð eftir „Best fyrir“

Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)