Gjaldtaka af plastpokum stórminnkar notkun

Notkun einnota burðarpoka úr plasti hefur minnkað um helming í þremur sænskum verslunarkeðjum sem hófu að taka gjald fyrir pokana fyrir þremur mánuðum síðan. Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen telja þetta sönnun þess að stefna Evrópusambandsríkjanna til að draga úr plastpokanotkun skili takmörkuðum árangri, en samkvæmt plastpokatilskipun ESB er stefnt að því að plastpokanotkun í ríkjum sambandsins fari úr 198 pokum á mann á ári niður í 90 poka árið 2019 og 40 poka árið 2025. Ríkin geta valið mismunandi leiðir að þessu marki og þannig hafa sænsk stjórnvöld látið duga að skylda búðareigendur til að upplýsa viðskiptavini um skaðleg áhrif plastpoka í náttúrunni og fleira af því tagi. Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hafði hins vegar lagt til að tekið yrði upp a.m.k. 5 krónu gjald (um 67 ísl. kr.) á hvern poka.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).

Brýnt að draga úr botnvörpuveiðum

fiskaforframtiden-160Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen beina því til sænska stjórnvalda að banna botnvörpuveiðar innan 12 mílna landhelgi og gera sitt til að styðja við krókaveiðar og gildruveiðar. Þessar ráðleggingar eru settar fram í nýrri skýrslu samtakanna, Fiskum til framtíðar, þar sem fiskveiðiaðferðir Svía eru kortlagðar. Botnvörpuveiðar eru langalgengasta veiðiaðferðin þar í landi en þeim fylgir mikil röskun á botni og þeim lífverum sem þar þrífast, hvort sem veiðunum er beint að þeim eður ei. Í skýrslunni er m.a. vísað í rannsóknir sem benda til að neikvæðra áhrifa veiðanna á fjölbreytileika lífríkisins gæti áratugum saman og jafnvel um alla framtíð.
(Sjá fréttatilkynningu Naturskyddsföreningen 16. september).

100% lífræn matvæli

Jörðin sem við étumSænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen hrintu á dögunum af stað sérstöku átaki til að stuðla að því að neytendur taki lífrænt vottaðar matvörur fram yfir annan mat. Í átakinu er lögð áhersla á að sýna skuggahliðar efnanotkunar í landbúnaði og benda á hvernig hægt sé að auka hlutdeild lífrænna matvæla í 100%. Sjónum verður sérstaklega beint að barnafjölskyldum og þeim sem kaupa lífræn matvæli endrum og sinnum og þeim áhrifum á náttúruna, eigin heilsu og velferð dýra sem þetta fólk getur haft í daglegum matarinnkaupum. Um leið og átakið var kynnt fór fram sérstök kynning á bókinni „Jörðin sem við étum“.
(Sjá fréttatilkynningu Naturskyddsföreningen 20. maí).

Ónotuð föt í sænskum fataskápum

ClothesNíu af hverjum 10 Svíum eiga flíkur inni í fataskáp, sem ekki hafa verið notaðar í heilt ár. Þetta á einkum við um skyrtur, blússur, gallabuxur og jakka, en nærföt og sokkar teljast ekki með. Aðeins 7% Svía hafa notað öll fötin sín á síðustu 12 mánuðum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem fyrirtækið Yougov gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Svíþjóðar (Naturskyddsföreningen), en þessa dagana standa samtökin fyrir fataskiptadögum á 87 stöðum í Svíþjóð í þeim tilgangi að stuðla að betri nýtingu á fötum.
(Sjá fréttatilkynningu Naturskyddsföreningen 20. apríl).

Keppt í sjálfbærni á EM í Gautaborg

Caro3Sjálfbærni verður ný keppnisgrein á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem haldið verður í Gautaborg 1.-3. mars nk. Þar er ætlunin að fá a.m.k. 6.000 manns, þ.e.a.s. jafnmarga sætunum í frjálsíþróttahöllinni, til að undirrita sérstakt loftslagsheit í 10 liðum. Sænsku náttúruverndarsamtökin(Naturskyddsföreningen) með þekktasta starfsmann sinn, Carólínu Klüft, í broddi fylkingar, hafa unnið að undirbúningi verkefnisins með Evrópska frjálsíþróttasambandinu. Sams konar keppni verður háð á fjórum öðrum Evrópumeistaramótum (félagsliða, ungmenna og í víðvangshlaupi) síðar á árinu, en öll þessi mót eru aðilar að samstarfi um umhverfismál undir yfirskriftinni „Green inspiration„.
(Sjá frétt á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Evrópu 22. febrúar).