Frítt í strætó í Þýskalandi?

Þýsk stjórnvöld íhuga að taka upp gjaldfrjálsar almenningssamgöngur að því er fram kemur í bréfi sem Barbara Hendricks, umhverfisráðherra Þýskalands, og tveir aðrir ráðherrar í ríkisstjórn landsins sendu til Karmenu Vella, umhverfisstjóra ESB, í síðustu viku. Til að byrja með er ætlunin að prófa þetta fyrirkomulag í fimm borgum í Þýskalandi. Þessi áform eru hluti af úrbótaáætlun sem þýsk stjórnvöld leggja fram að kröfu ESB, en Þýskaland var eitt af níu ríkjum sambandsins sem ekki tókst að draga nægjanlega úr mengun af völdum köfnunarefnissambanda og svifryks áður en frestur til þess rann út 30. janúar sl. Talið er að loftmengun í borgum Evrópu verði 400.000 manns að aldurtila á hverju ári og kosti heilbrigðiskerfi sambandslandanna árlega um 20 milljarða evra (um 2.500 milljarða ísl. kr.).
(Sjá frétt The Guardian 14. febrúar).

Dreifbýlið og sjórinn næra sálina

Dvöl á strandsvæðum og á náttúrulegum svæðum utan þéttbýlis hafa meiri jákvæð áhrif á andlega líðan fólks en dvöl á grænum svæðum innan borgarmarka, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Environment & Behavior. Þá virðast heimsóknir í þjóðgarða og önnur friðuð svæði hafa jákvæðari áhrif ef aðgangur að þeim er ókeypis og öllum opinn. Áður hefur verið sýnt fram á að náttúruupplifun dragi úr streitu og bæti líðan fólks, en þetta er í fyrsta sinn sem greint er á milli áhrifa mismunandi svæða.
(Sjá frétt Science Daily 31. október).

Loftslagsbreytingar ógna Evrópu

image_xlarge-160x90Vistkerfum, lýðheilsu og hagkerfum Evrópu stafar vaxandi ógn af loftslagsbreytingum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sum svæði eru þó enn viðkvæmari en önnur. Þannig má búast við að suður- og suðausturhluti álfunnar verði illa úti vegna hækkandi hitastigs og þurrka, sem m.a. eykur líkur á uppskerubresti, skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni, skógareldum og útbreiðslu sjúkdóma, m.a. vegna landnáms mítla og skordýra sem bera smit. Við Atlantshafið felst ógnin einkum í aukinni flóðahættu og stórfelldum breytingum á lífríki sjávar vegna súrnunar og svæðisbundins súrefnisskorts. Þá verða heimskautasvæðin hart úti vegna mikilla breytinga á lofthita og sjávarhita með tilheyrandi bráðnun íss og jökla. Jákvæð áhrif, svo sem vegna bættra ræktunarskilyrða, vega létt í þessum samanburði. Samkvæmt skýrslunni er brýn þörf fyrir betri og sveigjanlegri áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í dag).

Lífræn matvæli stuðla að betri heilsu

Neysla lífrænna matvæla bætir heilsu og styður við þroska ungbarna, minnkar líkur á sykursýki og offitu fullorðinna og dregur úr hættu á uppvexti lyfjaónæmra baktería að því er fram kemur í skýrslunni Human health implications of organic food and organic agriculture, sem unnin var fyrir Evrópuþingið og felur í sér samantekt á rannsóknarniðurstöðum síðustu ára. Þessi ávinningur byggir m.a. á því að notkun varnarefna er bönnuð í lífrænum landbúnaði, álag vegna kadmíummengaðs áburðar er hverfandi og áhersla á dýravelferð gerir það að verkum að þörf fyrir sýklalyf í húsdýrahaldi er mun minni en ella, auk þess sem strangar reglur gilda um lyfjanotkun. Í skýrslunni kemur einnig fram að neysla lífrænna matvæla dragi úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, fækki ofnæmisvandamálum og stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu felst þó ekki sönnun þess að lífræn matvæli séu hollari en önnur, m.a. vegna þess að aðrir þættir í lífsstíl „lífrænna neytenda“ kunna að eiga þátt í betri heilsu þeirra.
(Sjá frétt FoodTank 31. desember 2016).

Græn svæði draga úr líkum á langvinnum veikindum

treesGrænn gróður í nærumhverfi fólks dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum á borð við sykursýki og háan blóðþrýsting ef marka má nýja lýðheilsurannsókn Háskólans í Miami. Í rannsókninni var farið yfir sjúkrasögu 250.000 einstaklinga 65 ára og eldri og niðurstöðurnar bornar saman við greiningu á gróðurfari út frá gervihnattamyndum NASA. Fram kom mikill munur á heilsufari eldri borgara á svæðum þar sem mikið var um gróður, en þar voru líkur á sykursýki 14% lægri en annars staðar, líkur á háþrýstingi 13% lægri og líkur á of hárri blóðfitu 10% lægri. Þessi munur er talinn stafa af meiri útiveru, líkamlegri áreynslu, meiri samskiptum og streitulosun, en gróður getur einnig haft kælandi áhrif og bætt loftgæði. Mestur munur var í tekjulágum hverfum, en þar hafði gróður enn meiri jákvæð áhrif á heilsuna. Niðurstöðurnar styrkja fyrri rannsóknir og eru til þess fallnar að ýta enn frekar undir áherslu á græn svæði í þéttbýlisskipulagi og til þess að hvetja stofnanir og aðra fasteignaeigendur til að gera ráð fyrir gróðri og grænum svæðum við nýbyggingar.
(Sjá frétt Science Daily 21. apríl).

Loftmengun eykur líkur á offitu

beijingLoftmengun í því magni sem þekkist í Peking truflar starfsemi hjarta- og æðakerfis, lungna og öndunarfæra og eykur auk þess líkur á offitu, ef marka má nýja rannsókn frá Duke University. Rannsóknin var gerð á músum á tilraunastofu þar sem hópur af músum bjó í Peking-lofti og samanburðarhópur í hreinu lofti. Eftir um 20 daga var orðinn mikill munur á líkamlegu ástandi músanna. Mýsnar sem höfðu verið í menguðu lofti voru almennt þyngri en hinar þrátt fyrir sömu matarskammta. Þær höfðu einnig 50% hærra lágþéttnikólesteról, 46% meira þríglýseríð, 97% hærra samanlagt kólesterólmagn og meira insúlínþol, sem er undanfari sykursýki 2. Þessar niðurstöður eru í takt við fyrri rannsóknir sem gefa til kynna að loftmengun auki insúlínþol og breyti efnaskiptum í fituvef. Samkvæmt þessu má ætla að barátta gegn loftmengun geti skipt miklu máli til að sporna gegn offitu hjá fólki, en offita er nú þegar mikil ógn við lýðheilsu.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).

Sainsbury’s hættir með „tveir-fyrir-einn“ tiboð

SainsburyRisaverslunarkeðjan Sainsbury’s hefur ákveðið að draga úr svokölluðum „tveir-fyrir-einn“ tilboðum og leggja þannig áherslu á almennt lægra vöruverð og minni sóun. Talsmenn keðjunnar segja að neysluvenjur fólks hafi breyst mikið og að viðskiptavinir kvarti nú yfir að slík tilboð hafi í för með sér mikla sóun á mat og drykk, þar sem þau hvetji til óhóflegrar neyslu og óþarfra innkaupa. Þá hafi tilboð af þessu tagi í för með sér vandamál á heimilum þar sem geymslupláss verður of lítið og úrgangsmagn eykst. Yfirvöld hafa sömuleiðis gagnrýnt slík tilboð, m.a. vegna þess að þau gilda oftar en ekki um vöruflokka sem innihalda mikinn sykur og eru því ógn við lýðheilsu. Hætt verður að mestu með þessi tilboð í verslunum Sainsbury’s í ágúst 2016.
(Sjá frétt the Guardian 11. febrúar).

Tré í þéttbýli bæta geðheilsu

tree_160Þunglyndislyfjum er sjaldnar ávísað í hverfum þar sem mörg tré hafa verið gróðursett við götur. Þetta kemur fram í nýrri breskri rannsókn þar sem skoðuð var fylgni milli geðheilsu og þéttleika trjáa við götur í 33 hverfum Lundúnaborgar. Niðurstöðurnar benda til að hægt sé að bæta lífsgæði og heilsu íbúa með því að viðhalda tengingu við náttúruna. Þegar leiðrétt hafði verið fyrir félagslegri stöðu, atvinnustigi, fjölda reykingarmanna og meðalaldurs kom í ljós að fyrir hvert tré á hvern kílómetra götu fækkaði útgefnum lyfseðlum fyrir þunglyndislyfjum um 1,18 á hverja 1.000 einstaklinga. Höfundar rannsóknarinnar telja niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi markvissrar gróðursetningar trjáa í þéttbýli til að draga úr streitu og bæta geðheilsu íbúa.
(Sjá umfjöllun í fréttabréfi ESB um umhverfisstefnumótun í dag).

Costco vill hætta sölu kjúklings sem alinn er á sýklalyfjum

Photo of the rear of a Costco membership card /American Express credit cardCostco verslunarkeðjan ætlar að hætta að selja kjöt af kjúklingum og öðrum dýrum sem meðhöndluð hafa verið með sýklalyfjum sem einnig eru notuð gegn sýkingum í fólki. Slík lyf eru mikið notuð í landbúnaði vestanhafs. Stöðug inntaka þeirra drepur veikustu bakteríurnar, en þær sterkustu þróa þol gegn lyfjunum. Þannig verða til lyfjaónæmar bakteríur sem ógna heilsu manna. Neytendasamtök og lýðheilsufræðingar um allan heim hafa þrýst mjög á framleiðendur og stjórnvöld að hætta eða banna notkun sýklalyfja í dýrahaldi og með ákvörðun sinni bætist Costco í þann hóp sem vill að þetta gangi eftir.
(Sjá frétt News Daily 5. mars).

Skaðleg efni notuð við jarðgasvinnslu

natural gasEfni sem notuð eru við óhefðbundna olíu- og gasvinnslu með bergbroti (e. fracking) hafa skaðleg áhrif á lýðheilsu samkvæmt nýrri skýrslu frá Háskólanum í Missouri, þar sem dregnar voru saman niðurstöður rúmlega 150 rannsókna á áhrifum þessara efna. Sérstaklega var rýnt í fyrirliggjandi gögn um áhrif efnanna á æxlunarstarfsemi og þroska. Efnin sem notuð eru við bergbrot hafa fundist í lofti og vatni í grennd við vinnslusvæðin, en samtals búa um 15 milljónir Bandaríkjamanna í innan við tveggja km fjarlægð frá slíkum svæðum. Fáar rannsóknir eru til um bein áhrif á fólk en tilraunir á rannsóknarstofum gefa til kynna að efnakokteillinn sem notaður er tengist heilsufarsvandamálum á borð við ófrjósemi, fósturlát, skertan fósturþroska, fæðingargalla og slök sæðisgæði.
(Sjá frétt Science Daily 5. desember).