Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir flokkinn: Samgöngur
Gerð svifryks skiptir ekki síður máli en magnið
Vitað er að svifryk hefur skaðleg áhrif á heilsu. Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Paul Scherrer Institute (PSI) í Sviss ráðast þessi áhrif þó að öllum líkindum ekki fyrst og fremst af magni svifryksins, heldur af samsetningu þess, nánar tiltekið af „oxunargetu“ (e. oxidative potential) svifryksagnanna. Með „oxunargetu“ er átt við getu agnanna til að eyða andoxunarefnum í frumum líkamans, sem síðan getur leitt til frumu- og vefjaskemmda. Stór hluti svifryks er svokallað steinefnasvifryk úr jarðvegi, ásamt ólífrænum ögnum sem innihalda m.a. ammóníumnítrat og súlfat. Þetta ryk hefur ekki mikla „oxunargetu“. Öðru máli gegnir um „manngert ryk“ á borð við sótagnir og málmagnir úr bremsuborðum og dekkjasliti. Þetta þýðir að íbúar þéttbýlis búa ekki aðeins við meira svifryk en íbúar dreifbýlis, heldur er þéttbýlissvifrykið einnig skaðlegra heilsunni. Samkvæmt þessu er ekki nóg að setja reglur um magn svifryks, heldur þarf einnig að taka tillit til samsetningar þess.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær)
Jarðeldsneytisbílabann 2030 dugar ekki
Gert er ráð fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynni í þessari viku 10 aðgerðir sem ætlað er að styðja við loftslagsmarkmið þarlendra stjórnvalda. Ein þessara aðgerða verður væntanlega bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar New Automotive gæti þetta bann minnkað losun frá umferð úr núverandi 68 milljónum tonna koldíoxíðígilda niður í 46 milljónir tonna árið 2030, sem er eftir sem áður langt frá þeim 32,8 milljónum tonna sem stefnt er að.Til þess að hafa tilætluð áhrif þyrfti bannið að taka gildi árið 2026, eða þá að grípa þyrfti til annarra aðgerða til að minnka notkun bíla af þessu tagi. Bann 2030 myndi þýða að í mörg ár eftir það verði stór floti bensín- og dísilbíla á götunum.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Vísbendingar um tengsl loftmengunar við Alzheimer, Parkinson og MND
Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).
Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030
Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).
Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum
Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum
Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).
Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla
Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).
Nýtt eldsneyti hjá Virgin Atlantic
Í næsta mánuði mun Boing 747 vél frá flugfélaginu Virgin Atlantic fljúga með farþega frá Orlando í Flórída til Gatwick-flugvallar við London á eldsneyti sem framleitt er úr kolefnisríku afgasi frá stálverksmiðjum. Framleiðsla eldsneytisins er árangur 7 ára þróunarstarfs LanzaTech í samvinnu við Virgin Airline. Þegar þessu eldsneyti er brennt sleppur um 70% minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en við brennslu á hefðbundnu flugvélaeldsneyti, þar sem kolefnið sem um ræðir hefði að öðrum kosti sloppið beint út frá stálverksmiðjunum. Framleiðsla eldsneytisins er auk heldur hvorki í samkeppni við fæðuframleiðslu né aðra landnotkun. Að mati LanzaTech væri hægt að framleiða eldsneyti af þessu tagi við 65% af öllum stálverksmiðjum í heimi og afurðirnar myndu duga til að knýja einn fimmta af allri flugumferð á samkeppnishæfu verði.
(Sjá frétt Green Air Online 14. september).
Agnir úr menguðu lofti finnast í fylgjum
Vísindamenn hafa fundið agnir úr menguðu lofti í fylgjum. Áður hafði verið sýnt fram á að loftmengun eykur verulega líkurnar á fyrirburafæðingum og lágri fæðingarþyngd, með tilheyrandi heilsutjóni síðar á ævinni. Einnig hafa rannsóknir sýnt tengsl á milli loftmengunar og skertrar starfsemi heilans. Hins vegar hefur ekki áður verið sýnt fram á að agnir berist með blóði frá lungum í fylgju. Það að agnirnar finnist í fylgjunni þarf ekki endilega að þýða að þær berist í fóstrið, en það telst þó líklegt. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að verðandi mæður, og reyndar fólk yfirleitt, forðist stórar umferðargötur og aðra staði þar sem loftmengun er mikil.
(Sjá frétt The Guardian í gær).