Gert er ráð fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynni í þessari viku 10 aðgerðir sem ætlað er að styðja við loftslagsmarkmið þarlendra stjórnvalda. Ein þessara aðgerða verður væntanlega bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar New Automotive gæti þetta bann minnkað losun frá umferð úr núverandi 68 milljónum tonna koldíoxíðígilda niður í 46 milljónir tonna árið 2030, sem er eftir sem áður langt frá þeim 32,8 milljónum tonna sem stefnt er að.Til þess að hafa tilætluð áhrif þyrfti bannið að taka gildi árið 2026, eða þá að grípa þyrfti til annarra aðgerða til að minnka notkun bíla af þessu tagi. Bann 2030 myndi þýða að í mörg ár eftir það verði stór floti bensín- og dísilbíla á götunum.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir merki: Bretland
Kolefnisskattur á rautt kjöt?
Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Bresk fyrirtæki og samtök þrýsta á stjórnvöld að móta mínuslosunarstefnu
Bresku bændasamtökin (NFU), Heathrow flugvöllur og fleiri aðilar hafa tekið höndum saman um að þrýsta á ríkisstjórn Bretlands að móta skýra stefnu um föngun kolefnis og aðrar aðgerðir til að ná fram neikvæðri losun gróðurhúsalofttegunda. Hópurinn bendir á að móta þurfi slíka stefnu strax til að tími gefist til að þróa tækni sem beita má í þessu skyni, með sérstakri áherslu á þær atvinnugreinar þar sem losun er mest. Skjót viðbrögð í þessa átt séu forsenda þess að Bretland geti náð markmiði sínu um kolefnishlutleysi. Góð viðleitni til að draga úr losun frá flugi, stóriðju, landbúnaði o.s.frv. muni ekki duga ein og sér, og því séu mínuslosunarverkefni óhjákvæmilegur hluti þeirra aðgerða sem grípa þurfi til. Um leið snúist málið um samkeppnishæfni Bretlands og virkjun tækifæra sem liggja í nýsköpun á þessu sviði.
(Sjá frétt Business Green 12. október).
Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030
Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).
Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar
Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).
Hvaðan sem vindurinn blæs!
Tveir MSc-stúdentar við Háskólann í Lancaster hafa þróað nýja gerð af vindmyllu sem getur nýtt vind úr hvaða átt sem er, lóðréttri sem láréttri. Þetta getur opnað möguleika á að nýta vindstrengi í borgum, t.d. við háhýsi, til raforkuframleiðslu. Um leið verður það fýsilegra en áður að framleiða raforku í smáum stíl, annað hvort til eigin nota eða til sölu inn á raforkunetið, t.d. með því að koma vindmyllum fyrir utan á byggingum þar sem uppstreymi eða niðurstreymi er mikið. Nýja vindmyllan, sem kallast „The O-Wind Turbine“ fékk nýlega bresku James Dyson nýsköpunarverðlaunin og í nóvember mun koma í ljós hvernig hugmyndinni reiðir af þegar alþjóðlegu James Dyson verðlaunin verða afhent. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 5 ár muni líða þar til O-myllan verður komin á markað.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Vaxandi sala á lífrænum matvörum í Bretlandi
Sala á lífrænt vottuðum matvörum í Bretlandi var 4% meiri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að matvörumarkaðurinn hafi almennt átt mjög erfitt uppdráttar vegna mikilla þurrka og uppskerubrests. Þetta er 7. árið í röð sem sala á lífrænum matvörum vex og er heildarvelta þessarar sölu í breskum stórmörkuðum nú um 2,2 milljarðar sterlingspunda á ári (rúmlega 300 milljarðar ísl. kr.). Mest var söluaukningin í alls konar lífrænt vottuðu sælgæti og sérvöru, 27,8%, en þar á eftir kom lífrænt vottað vín og bjór með 8,7% aukningu.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Breskar samlokur hafa stærra kolefnisspor en 8 milljón bílar
Árlega sporðrenna Bretar um 11,5 milljörðum samloka og losa með því um 9,5 milljón tonn af koltvísýringsígildum út í andrúmsloftið, að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Sustainable Production and Consumption. Þetta samsvarar losun frá 8,6 milljónum bíla. Stærsta kolefnissporið í rannsókninni átti samloka með eggi, beikoni og pylsu, eða 1,44 kg. Það jafngildir því að bíl sé ekið u.þ.b. 19 km. Samloka með eggi og kirsi kom best út í flokki búðarsamloka með 0,74 kg. Kolefnisspor heimagerðra samloka er yfirleitt mun minna. Framleiðsla og úrvinnsla áleggs reyndist eiga stærstan þátt í kolefnisspori búðarsamloka, eða um 37-67%, umbúðir orsökuðu um 8,5% og flutningur og kæling um 4%. Kæligeymslur verslana geta átt allt að 25% hlutdeild í heildarsporinu. Höfundar rannsóknarinnar benda á að með breytingum á uppskriftum, umbúðum og úrgangsmeðhöndlun megi draga úr losun um u.þ.b. helming og að hægt væri að minnka matarsóun um meira en 2.000 tonn á ári með því að lengja endingartímann.
(Sjá frétt Independent 25. janúar).
Endurnýjanleg orka komin fram úr kolunum
Á árinu 2017 framleiddu þjóðir Evrópusambandsins í fyrsta sinn meiri raforka úr endurnýjanlegum orkugjöfum en úr kolum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sandbag. Framleiðsla endurnýjanlegrar raforku á árinu nam samtals 679 terawattstundum (Twh) en 669 Twh komu frá kolum, sem er um helmingi minna en fyrir fimm árum. Bretland og Þýskaland eiga stærstan þátt í auknum hlut endurnýjanlegrar orku, eða um 56% af heildaraukningunni síðustu þrjú ár. Á árinu 2017 ákváðu stjórnvöld í Hollandi, Ítalíu og Portúgal að stefna að því að leggja kol af sem orkugjafa, en á sama tíma jókst kolanotkun á Spáni. Sömuleiðis er þróunin hæg í Austur-Evrópu.
(Sjá fréttatilkynningu Sandbag 2. febrúar).
1.400 einnota kaffimál í breska umhverfisráðuneytinu á degi hverjum
Um 1.400 einnota kaffimál eru notuð í breska umhverfisráðuneytinu á hverjum einasta degi og á síðustu 5 árum keypti ráðuneytið 2,5 milljónir slíkra íláta þrátt fyrir fyrirheit umhverfisráðherrans um að draga úr magni plastúrgangs. Þessar upplýsingar koma fram í gögnum sem Frjálslyndir demókratar hafa fengið afhentar í krafti upplýsingalaga. Hingað til hefur mötuneyti ráðuneytisins ekki boðið upp á neina fjölnotabolla, en 200 slíkir voru loks keyptir 31. október sl. Frjálslyndir demókratar hafa lagt til að lagt verði 5 pensa gjald (7 ísl. kr.) á einnota kaffimál, enda hafi gjaldtaka af plastpokum skilað miklum árangri í baráttunni við sóun. Neðri deild breska þingsins hefur einnig verið stórtæk í einnota málunum, en á síðasta ári keypti kaffistofa þingsins 1.000 slík mál fyrir hvern þingmann. Áætlað er að á hverju ári hendi Bretar um 3 milljörðum einnota mála og að aðeins eitt af hverjum 400 þeirra fari í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Guardian 21. nóvember).